Hoppa yfir valmynd
8. október 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Hækkun lyfjaútgjalda ein stærsta áskorun heilbrigðiskerfa

Kristján Þór á málþingi Frumtaka
Kristján Þór á málþingi Frumtaka

Ein stærsta áskorun stjórnenda á sviði heilbrigðismála, jafnt hér á landi sem annars staðar snýr að vaxandi framboði nýrra og afar dýrra líftæknilyfja. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ræddi meðal annars um þetta á málþingi Frumtaka sem haldið var í Hörpu í gær undir yfirskriftinni: Hver er réttur minn til heilbrigðisþjónustu?

Ráðherra sagði eðlilegt að nálgast efnið út frá markmiðum laga um heilbrigðisþjónustu, þ.e. „...að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita.“ Hann sagði inntakið í aðalatriðum skýrt, það fjallaði um jafnan rétt allra landsmanna til heilbrigðisþjónustu, það fæli í sér metnað og kröfur varðandi innihald og gæði þjónustunnar og loks væri með ákvæðinu sett nauðsynleg umgjörð um veitingu heilbrigðisþjónustu sem meðal annars færði hinu lýðræðislega kjörna Alþingi sem færi með löggjafar- og fjárveitingarvaldið mikilvæga ábyrgð og jafnframt skyldur. Hann lagði jafnframt áherslu á að ákvarðanir um veitingu heilbrigðisþjónustu yrðu alltaf að vera faglegar og málefnalegar. Faglegt mat að baki ákvörðun um hver fengi hvaða þjónustu, lyf eða annað væri og yrði alltaf að vera á hendi fagfólks.

„Það eru engar ýkjur þegar ég segi að ein stærsta áskorunin sem stjórnendur í  heilbrigðismálum mæta – og af ört vaxandi þunga, jafnt hér á landi sem annars staðar, snúi að vaxandi framboði nýrra og afar dýrra líftæknilyfja“ sagði ráðherra meðal annars og vísaði til orða forstjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar dr. Margaret Chan um að ýmis þekkt dæmi um kostnaðarsöm lyf sýndu verð fyrir lyfjameðferð sem væri óviðráðanlegt flestum sjúklingum, flestum heilbrigðiskerfum og flestum tryggingakerfi, jafnt hjá ríkum sem fátækjum þjóðum.

Ráðherra fagnaði nýkynntu átaksverkefni um útrýmingu lifrarbólgu C sem íslensk heilbrigðisyfirvöld munu vinna að í samstarfi við lyfjafyrirtækið Gilead sem meðal annars leggur til lyfið Harvoni í faraldsfræðilegu rannsóknarskyni: „Ég ætla samt aðeins að varpa ljósi á umfangið og hverju heilbrigðisyfirvöld stóðu frammi fyrir varðandi það að veita þessa bestu fáanlega lyfjameðferð. Hér á landi kostar meðferð sjúklings með þessum nýju lyfjum á bilinu sjö til þrettán milljónir króna. Talið er að ef hér á landi séu um 800–1.000 einstaklingar með virkt lifrarbólgusmit. Ef heilbrigðisyfirvöld hefðu ætlað sér að tryggja öllu þessu fólki bestu meðferð með þessum nýju lyfjum hefði kostnaðurinn vegna þess verið allt að tíu milljarðar króna“ sagði ráðherra og benti á að til samanburðar væri heildarkostnaður allra S-merktra lyfja á þessu ári er samkvæmt fjárlögum áætlaður um 6,5 milljarður króna.

Ráðherra fór að lokum nokkrum orðum um verðlagningu lyfja og sagði ýmis dæmi um verðlagningu sem útilokað væri að kalla eðlilega heldur miklu frekar alvarlega misnotkun fyrirækja á aðstöðu sinni. Hann nefndi nokkur dæmi af þessum toga þar sem lyf hefðu hækkað í verði um mörg hundruð og jafnvel mörg þúsund prósent.

Settur hefur verið á laggir stýrihópur um samstarf Norðurlandaþjóða á sviði lyfjamála í því skyni að ná niður útgjöldum. Ráðherra segist leggja áherslu á að nýta alla möguleika í þessu samstarfi og að þar verði hægt að fjalla um ákvarðanir um aðgengi að nýjum og kostnaðarsömum lyfjum, verðlagningu og samningum um verð, greiðsluþátttöku, lyfjainnkaup, útboð og fleira. Ráðherra sagði enn fremur frá fyrirhugaðri breytingu á lögum um opinber innkaup sem auðvelda muni þátttöku Íslands í sameiginlegum útboðum og innkaupum lyfja með öðrum EES-löndum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta