Hoppa yfir valmynd
22. júní 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Barátta gegn mansali eitt mikilvægasta samstarfsverkefni þjóðanna á 21. öld

Áætlaður hagnaður af nútíma þrælahaldi nemur 1.935,5 milljörðum íslenskra króna
Nauðungarvinna og kynlífsþrælkun

Á nýafstöðnu þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Alþjóðavinnumálaþinginu, var til umfjöllunar skýrsla sérfræðinganefndar stofnunarinnar um framkvæmd á alþjóðasamþykktum um afnám nauðungarvinnu. Í skýrslunni kemur fram að í mörgum tilvikum hafi orðið umtalsverðar umbætur bæði á sviði löggjafar og í raun. Framkvæmd aðildarríkjanna á þeim tveimur alþjóðasamþykktum sem um ræðir hafi batnað. Ákvæðum í lögum sem hafi heimilað þrælkunar- eða nauðungarvinnu hafi fækkað. Þannig virðist kerfisbundin ríkisrekin almenn nauðungarvinna í heiminum hafa horfið með öllu. Í skýrslunni kemur fram að ákvæði sem heimila stjórnvöldum að láta pólitíska andstæðinga sæta „endurhæfingu og endurmenntun“ hafi annað hvort verið felld úr gildi eða þeim breytt.

Sérfræðinganefnd ILO lætur í ljós áhyggjur af því að þótt þrælkunar- og nauðungarvinna sé almennt fordæmd er fólk víðsvegar í heiminum fórnarlömb slíkrar meðferðar. Í nokkrum ríkjum sé enn að finna leifar af þrælkunarvinnu sem tengjast ráni á körlum, konum og börnum í stríðshrjáðum ríkjum. Nauðungarvinna hafi einnig tekið á sig nýja mynd þar sem ekki einungis fullorðið fólk heldur einnig börn séu gerð að kynlífsþrælum, ekki síst í Norður-Ameríku og Evrópu.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra gerði skýrslu sérfræðinganefndarinnar að umtalsefni í ávarpi á 96. Alþjóðavinnumálaþinginu 13. júní sl. Ráðherrann sagði að eitt mikilvægasta sameiginlega verkefni þessarar aldar væri að bregðast við þessari hræðilegu þróun.

„Því fylgir ábyrgð sem við þurfum öll að axla“, sagði Jóhanna Sigurðardóttir í ávarpi sínu.

Ríkisstjórn Íslands tekur meðal annars þátt í samstarfsverkefni Norðurlandanna og Norrænu ráðherranefndarinnar sem hefur að markmiði að koma í veg fyrir mansal ungmenna frá Eystrasaltsríkjunum.

Sumarið 2005 áætlaði ILO að 12,3 milljónir manna væru í ánauð í heiminum. Þing stofnunarinnar hafa hvatt ríki heims til að framfylgja banni við nauðungarvinnu á virkan hátt og skorað á iðnríkin að aðstoða þau fátækari við að ráðast að rót vandans á heimavelli. Enn fremur hefur verið mælst til þess að Vesturlönd hafi að leiðarljósi við endurskoðun vinnu- og útlendingalöggjafar sinnar að koma í veg fyrir þrælkun og nauðungarvinnu.

Tenging frá vef ráðuneytisinsEradication of forced labour (Afnám nauðungarvinnu,  ILO 2007)

Tenging frá vef ráðuneytisinsForced Labour and Human Trafficking (Þrælkun og mansal, ILO 2005)

Eftirfarandi skjal er myndÁætlaður hagnaður af nútíma þrælahaldi



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta