Ráðist gegn biðlistum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögur Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra um að hefja sérstakar aðgerðir til að vinna á biðlistum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Ráðist verður í átak með það að markmiði að leysa vandann á næstu tveimur árum. Aðgerðir hefjast þegar í stað.
Stofnuð verða þrjú teymi með þátttöku sálfræðings, barnalæknis, félagsráðgjafa og þroskaþjálfa sem hafa aðgang að talmeinafræðingi, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfa og sérfræðingi í einhverfugreiningu auk læknaritara.
Þar sem húsnæði Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins nægir ekki til að hýsa átaksverkefnið er gert ráð fyrir að leigja viðbótarhúsnæði.
Verkefnishópur sem félagsmálaráðherra skipar mun stýra verkefninu.
Áætlun félagsmálaráðherra um að vinna á biðlistum Greiningarstöðvarinnar er gerð með hliðsjón af aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna.
Tilvísunum til Greiningarstöðvarinnar hefur fjölgað verulega á síðastliðnum tíu árum. Árið 2000 voru tilvísanir tæplega 200 en tæplega 300 árið 2005. Þrátt fyrir að stofnunin hafi verið efld umtalsvert á liðnum árum og starfsemi endurskipulögð í samvinnu við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir bíða 250 börn og fjölskyldur þeirra eftir þjónustu hennar. Biðtími hefur verið allt að þremur árum.
Áætlaður kostnaður við átakið nemur 147 milljónum króna.