Hoppa yfir valmynd
15. júní 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný lög um fjölskylduábyrgð

Í maí sl. samþykkti Alþingi ný lög um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna nr. 27/2000.

Í lögunum segir orðrétt:

Óheimilt er að segja manni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber.
Með fjölskylduábyrgð er átt við skyldur starfsmanns gagnvart börnum, maka eða nánum skyldmennum sem búa á heimili hans og greinilega þarfnast umönnunar hans eða forsjár, svo sem vegna veikinda eða fötlunar.

Lögin eru byggð á efnisákvæði samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Samþykktin var afgreidd af 67. alþjóðavinnumálaþinginu í Genf árið 1981. Samtímis voru afgreidd tilmæli nr. 165 sem bera sama nafn og samþykktin og fela í sér nánari útfærslu á efni hennar. Lögunum er ætlað að skapa grundvöll fyrir fullgildingu samþykktarinnar af Íslands hálfu.

Samkvæmt lögunum er atvinnurekanda er óheimilt að segja starfsmanni upp vegna sjónarmiða sem eingöngu varða fjölskylduábyrgð hans. Til að um fjölskylduábyrgð starfsmanns geti verið að ræða verða þrjú meginskilyrði að vera fyrir hendi. Í fyrsta lagi verður að vera um að ræða skyldur gagnvart börnum, maka eða nánum skyldmennum starfsmannsins sjálfs. Í öðru lagi þarf viðkomandi að búa á heimili starfsmannsins og loks er þriðja skilyrðið að viðkomandi þarfnist umönnunar starfsmannsins sjálfs eða forsjár, svo sem vegna veikinda, fötlunar eða sambærilegra aðstæðna. Allir þessir þrír þættir þurfa að vera fyrir hendi til að starfsmaður teljist bera fjölskylduábyrgð gagnvart viðkomandi einstaklingi í skilningi frumvarpsins og byggist ákvæðið því á þröngri skilgreiningu hugtaksins.

Lögin sem slík tryggja starfsmönnum ekki greiðslur ef þeir þurfa að vera frá vinnu vegna fjölskylduábyrgðar. Um kaup og kjör gilda samningar á almennum vinnumarkaði og um laun í fjarveru frá starfi fer eftir kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta