Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagsmálaráðherra heimsækir Barnaverndarstofu og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Heimsókn til Barnaverndarstofu

Félagsmálaráðherra heimsótti síðastliðinn miðvikudag Barnaverndarstofu í húsnæði hennar við Borgartún 21 í Reykjavík og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins við Digranesveg 5 í Kópavogi.

Félagsmálaráðherra hefur eins og fram hefur komið lagt áherslu á það að kynna sér vel starfsemi þeirra stofnana sem undir ráðuneytið heyra. Í gær var komið að því að heimsækja Barnaverndarstofu. Bragi Guðbrandsson forstjóri tók á móti ráðherra og fylgdarliði og kynnti fyrir honum starfsfólk stofunnar.

Þeir Bragi og Ómar Kristmundsson fjármálastjóri kynntu síðan starfsemina fyrir ráðherra. Víða var komið við, fjallað um stöðu barnaverndar á Íslandi, hlutverk Barnaverndarstofu og skoðaðar helstu áherslur í starfi stofnunarinnar, ásamt því að framtíðarstefnumörkun í málaflokknum kom til umræðu. Eftir þessa kynningu tók síðan starfsfólk Barnaverndarstofu þátt í almennri umræðu um stöðu málaflokksins. Ákveðið var að ráðherra myndi síðar heimsækja Barnahúsið og Meðferðarstöð ríkisins að Stuðlum.

Seinni heimsókn miðvikudagsins var á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þar sem Stefán Hreiðarsson forstöðumaður tók á móti ráðherra, ásamt meginhluta starfsmanna stöðvarinnar. Stefán hóf mál sitt á því að leggja áherslu á mikilvægi þessarar heimsóknar þar sem starfsfólki gæfist nú tækifæri til þess að koma á framfæri fróðlegum upplýsingum um starfsemi stöðvarinnar og áherslur. Stefán rakti m.a. sögu Greiningarstöðvarinnar, kynnti meginmarkmiðin í starfinu, skipulag hennar og hver staðan væri í dag. Í framhaldi af kynningu Stefáns fjallaði Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri á sviði þroskahömlunar, um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar, Evald Sæmundsen, sviðsstjóri á fagsviði einhverfu og málhamlana, um breytingar á faraldsfræði einhverfu og loks Sólveig Sigurðardóttir sviðstjóri á sviði hreyfihömlunar, um þjónustulíkan fyrir ákveðna skjólstæðinga - hópa, svokallaðar móttökur. Að lokum opnaði félagsmálaráðherra nýja heimasíðu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

Myndir frá Barnaverndarstofu:




Myndir frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins:



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta