Hoppa yfir valmynd
28. mars 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagsmálaráðherrar Norðurlandanna funda um stöðu ungs fólks í óvirkni

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Siv Friðleifsdóttir, sérfræðingur í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu á fundinum.  - mynd

Á föstudag lauk fundi félagsmála- og heilbrigðisráðherra Norðurlandanna þar sem meðal annars var fjallað um stöðu ungs fólks á aldrinum 15-29 ára sem ekki er í námi, vinnu eða starfsþjálfun og þarfnast aðstoðar til að komast til virkni aftur. Fundurinn fór fram í Stavangri í Noregi, en Norðmenn fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár. 

Ráðherrarnir fóru yfir hvaða áhrif Covid-19 faraldurinn hafði á virknihlutfall ungs fólks 15-29 ára, (sjá mynd 1) og deildu þau upplýsingum um hvernig staðan væri í heimalöndum sínum og hvaða áskoranir væru fyrir hendi. Fram kom í máli allra ráðherranna að hópurinn sem um er að ræða er fjölbreyttur og mikilvægt væri að rannsaka hópinn vel og mismunandi ástæður óvirkni.

Á Norðurlöndunum er unnið markvisst að því mæta þessum hópi en samhljómur var meðal ráðherranna um að í því felist mikill ávinningur fyrir einstaklingana og samfélagið allt að taka verkefnið enn fastari tökum og vinna saman að bættum lífsgæðum þessa unga fólks en ljóst er að um margra ára verkefni er að ræða. Mikilvægi þess að grípa snemma inn í og hjálpa ungu fólki sem fyrst var tíundað, enda annars hætta á að erfiðara verði að verða aftur virkur þátttakandi á vinnumarkaði og í samfélaginu. Samvinna allra sem koma að þjónustu þessa unga fólks væri nauðsynleg sem og samfélagsins í heild sinni.

Á fundinum greindi Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra frá áherslum íslenskra stjórnvalda um snemmtæka íhlutun og þau verkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi sem fela í sér aðstoð við þennan hóp samfélagsins. Jafnframt fjallaði hann um sérstakar aðgerðir stjórnvalda á tímum kórónaveirufaraldursins sem snéru að möguleikum á að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta, veitingu styrkja til að ráða fólk af atvinnuleysisskrá og fjölbreyttum sumarstörfum námsmanna. Þá greindi ráðherra frá nýju tilraunaverkefni á vinnumarkaði með Þroskahjálp og Ás styrktarfélagi fyrir ungt fólk með þroskahömlun, en þar er stuðst við verkefnið Project Search sem er meðal annars vel þekkt í Bandaríkjunum og hefur gefið góða raun.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Við erum að sjá mjög góðan árangur af þeim verkefnum sem við höfum þegar ráðist í á Íslandi til þess að hjálpa ungu fólki í virkni. Rík áhersla hefur verið lögð á þverfaglega samvinnu allra þjónustukerfa sem koma að þjónustu þessara einstaklinga. Við þurfum að halda áfram að leggja áherslu á slíkar lausnir en samstarf okkar á Norðurlöndum um hvað það er sem virkar og það sem virkar síður er okkur virkilega dýrmætt. Fundurinn í Stavangri var mjög gagnlegur til að styrkja þann grundvöll og deila þekkingu.“ 

  • Mynd 1. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta