Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Landbúnaðarháskóli Íslands í hóp evrópskra háskólaneta

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti á dögunum um úthlutun til evrópskra háskólaneta (e. European Universities) úr Erasmus+ áætluninni. Einungis fjögur ný net voru tekin inn að þessu sinni og kallast eitt þeirra UNIgreen – the Green European University og á Landbúnaðarháskólinn (LBHÍ) þar sæti. Fyrir á Háskóli Íslands sæti í Aurora netinu og Háskólinn í Reykjavík er í samstarfi við Neurotech netið.

Evrópsku háskólanetin eru eitt af flaggskipum ESB þegar kemur að háskólamálum og mikill hagur fyrir íslenska háskólasamfélagið að eiga þar aðild. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið fagnar því að annar íslenskur háskóli hafi bæst í hópinn.

Þátttaka stóreflir skólann

Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor LBHÍ, segir að þátttaka í UNIgreen samstarfsnetinu efli skólann og samstarfsháskólana á mörgum sviðum. „UNIgreen snýr að rannsóknum í nýsköpun og kennslu, stoðþjónustu og gæðamálum. Áhersla er lögð á samstarf við atvinnulífið og hagaðila. Íslenskir samstarfsaðilar í verkefninu sem studdu við umsókn skólans eru Nemendafélagið Hvanneyri, Hvanneyrarbúið, Borgarbyggð, RML, Matís, Auðna tæknitorg og Orkídea.“

Háskólinn í Almería á Spáni leiðir UNIgreen verkefnið og munu fulltrúar þaðan heimsækja Íslands á næstunni til að ræða frekari samstarfsmöguleika. „Evrópusambandið styrkir sérstaklega verkefni sem unnin eru innan evrópskra háskólaneta. UNIgreen er því afar mikilvægt fyrir framtíðarþróun Landbúnaðarháskóla Íslands,“ segir Ragnheiður.

Styrkir til háskólanetanna aldrei verið hærri

Alls var 272 milljónum evra veitt til háskólanetanna að þessu sinni og hefur upphæðin aldrei verið hærri. Háskólanetin eru nú 24 talsins og ná þau til 340 háskóla í 31 landi. Evrópsku háskólanetunum er ætlað að tengja saman háskóla í ólíkum löndum álfunnar og skapa samstarfsvettvang á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Markmiðið er að þróa nýjar leiðir fyrir kerfisbundið og langvarandi samstarf þvert á landamæri og námsgreinar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta