Hoppa yfir valmynd
19. desember 2008 Forsætisráðuneytið

A 289/2008 Úrskurður frá 19. desember 2008

ÚRSKURÐUR

Hinn 19. desember 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-289/2008.

Kæruefni og málsatvik

Með tölvubréfi, dags. 18. ágúst 2008, kærði [...] synjun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá sama degi um að veita kæranda upplýsingar um hve mörg mál hafi formlega verið látin niður falla mánuðina janúar, febrúar og mars 2008, sundurliðaðar eftir brotaflokkum.

Atvik málsins eru í stuttu máli þau að með tölvubréfi, dags. 5. ágúst sl., óskaði kærandi eftir því, með vísan til 3. gr. laga nr. 50/1996, að fá upplýsingar frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu um það hve mörg mál hafi formlega verið látin niður falla með bréfi til kæranda síðan embætti lögreglustjórans var stofnað 1. janúar 2007 og að þær upplýsingar yrðu sundurliðaðar eftir mánuðum. Þeirri beiðni synjaði upplýsinga- og áætlanadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 6. ágúst sl. með vísan til þess að þær upplýsingar væru ekki fyrirliggjandi og tímafrekt að taka þær saman. Í tölvubréfi, dags. 18. ágúst sl., sendi kærandi lögreglustjóranum nýja beiðni með afmörkun á þann veg að hann óskaði eftir því að fá upplýsingar um hve mörg mál hafi formlega verið látin niður falla mánuðina janúar, febrúar og mars 2008 og að þær upplýsingar yrðu sundurliðaðar eftir brotaflokkum. Lögreglustjórinn synjaði um umbeðnar upplýsingar í tölvubréfi sama dag á grundvelli þess að upplýsingarnar væru ekki fyrirliggjandi, þ.e. að þessum tölum væri ekki sérstaklega haldið saman hjá lögreglunni.  

 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 22. ágúst sl., var kæran kynnt lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og embættinu gefinn frestur til 5. september sl. til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Nefndinni bárust athugasemdir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 28. ágúst sl. og í þeim segir m.a. svo:

„... Eins og rakið er í þeim gögnum sem fylgdu kærunni eru þær upplýsingar sem kærandi óskar eftir ekki tiltækar hjá embættinu. Í synjun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu felst því ekki synjun á aðgangi að tilgreindum upplýsingum eða gögnum í tilgreindu máli, heldur synjun á því að vinna tilgreindar tölfræðiupplýsingar úr gagnagrunnum embættisins, þ.e. málaskrá lögreglu og málaskrá ákæruvaldsins. Að mati undirritaðs leggja upplýsingalögin ekki þá skyldu á herðar stjórnvöldum að vinna ákveðnar tölfræðiupplýsingar út úr gagnagrunnum sínum samkvæmt beiðni almennings, eins og felst í beiðni kæranda í máli þessu. Vísað er í því sambandi í 3. gr. upplýsingalaganna, eins og því ákvæði var breytt með 1. gr. laga nr. 16/2006. Einnig er vísað til nýlegs úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málinu A 282/2008, frá 29. júlí sl. Loks er vakin athygli á ákvæði 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga að því er varðar gildissvið laganna almennt.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur mikið upp úr vinnslu, greiningu og miðlun tölfræðiupplýsinga og fyrirliggjandi eru margvíslegar upplýsingar um fjölda tilkynninga, tilkynntra brota, kæra, ákæra, fjölda lögreglumála á bak við hverja ákæru og svona mætti áfram telja. Umræddar upplýsingar eru aðgengilegar á heimasíðu embættisins og í útgefnum skýrslum. Jafnframt hefur embættið lagt sig fram um að svara beiðnum fjölmiðla og annarra um tölfræðiupplýsingar, t.d. upplýsingar um fjölda afbrota niðurgreint með margvíslegum hætti, t.d. eftir brotaflokkum, staðsetningu og tímasetningu. Slíkar upplýsingar er að öllu jöfnu tiltölulega auðvelt að kalla út úr gagnagrunnum lögreglu og ákæruvalds. Það er hins vegar ekki að heilsa þegar kemur að þeim upplýsingum sem kærandi óskar eftir, en skoða þarf hvert mál fyrir sig til að ná þessum upplýsingum fram með tilheyrandi vinnu, eins og raunar hefur þegar verið útskýrt fyrir kæranda í tölvupóstum.“

Með bréfi, dags. 5. september, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við tilvitnaða umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og veittur frestur til 19. september. Var erindið ítrekað með bréfi, dags. 6. október, og veittur frestur til 13. október til þess að koma að frekari sjónarmiðum en að öðrum kosti yrði málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Niðurstaða

 

1.
Kærandi hefur afmarkað kæru sína við synjun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á beiðni hans um upplýsingar um „hversu mörg mál voru látin niður falla á fyrstu þremur mánuðum þessa árs.“ Jafnframt óskaði kærandi eftir því að þessar upplýsingar yrðu sundurliðaðar eftir brotaflokkum.  Af hálfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er því lýst að umbeðnar upplýsingar hafi ekki verið teknar saman um þau mál sem formlega hafi verið látin niður falla á fyrstu þremur mánuðum ársins. Jafnframt kom það fram hjá lögreglustjóranum að í synjun hans fælist því ekki synjun á aðgangi að tilgreindum upplýsingum eða gögnum í tilgreindu máli, heldur synjun á því að vinna tilgreindar tölfræðiupplýsingar úr gagnagrunnum embættisins, þ.e. málaskrá lögreglu og málaskrá ákæruvaldsins.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé upp um annað tveggja, skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits að öðrum gögnum.

 

2.
 Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, er áskilið að beiðni um aðgang að upplýsingum varði tiltekið mál. Þessi áskilnaður er nánar útfærður í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga á þann hátt að í beiðni skuli annaðhvort tiltaka það mál eða þau gögn í máli sem leitað er eftir. Skv. upplýsingalögum er stjórnvöldum ekki skylt að veita aðgang að ótilteknum fjölda mála eða gögnum í ótilteknum málum af ákveðinni tegund

Í niðurlagi áður tilvitnaðrar 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, er sérstaklega áréttað að stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr. laganna. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem síðan varð að lögum nr. 161/2006 er nánar tilgreint að í þessu felist að réttur til upplýsinga á grundvelli 3. gr. upplýsingalaga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggja þegar um þau er beðið en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki eru fyrirliggjandi, þegar eftir þeim sé leitað og hafa skýringar úrskurðarnefndarinnar á þessum ákvæðum laganna verið í samræmi við það, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum A-181/2004, A-239/2007, A-243/2007.

 


3.
Í skýringum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað aðgangs að er ekki að finna í tilteknu skjali eða skjölum tiltekins máls. Þegar það er virt hvernig kærandi hefur afmarkað beiðni sína og að ekkert er komið fram, sem leiðir líkur að því að draga megi í efa framangreindar fullyrðingar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að þær upplýsingar sem beiðni kæranda lýtur að hafi ekki verið teknar saman og þær því ekki fyrir hendi hjá embættinu, er óhjákvæmilegt annað en að vísa kærunni frá.

 

Úrskurðarorð:

Kæru [...] á hendur lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu er vísað frá.

 

 

Friðgeir Björnsson
formaður

 

 

 

                    Sigurveig Jónsdóttir                                                                                       Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta