Hoppa yfir valmynd
19. desember 2008 Forsætisráðuneytið

A 290/2008 Úrskurður frá 19. desember 2008

ÚRSKURÐUR

Hinn 19. desember 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. 290/2008.

 

Kæruefni

Með tölvubréfi, dags. 27. október 2008, kærði [...], synjun Nýja Landsbankans hf. (nú NBI hf.) á beiðni hans um upplýsingar um laun bankastjóra og annarra stjórnenda bankans.

Málsatvik og málsmeðferð
Með tölvubréfi til Nýja Landsbankans hf., dags. 21. október 2008, fór kærandi fram á það, með vísan til 3. gr. upplýsingalaga og 1. og 2. mgr. 1. gr. sömu laga, að honum yrðu afhentar allar upplýsingar um laun bankastjóra, stjórnarmanna og yfirmanna einstakra sviða Nýja Landsbankans hf. Með tölvubréfi, dags. 23. sama mánaðar, hafnaði Nýi Landsbankinn hf. þessari beiðni með vísan til þess að félagið teldist ekki til stjórnsýslu ríkis og félli því ekki undir ákvæði upplýsingalaga. Í bréfinu er þetta nánar rökstutt með vísan til þess að í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem síðan varð að upplýsingalögum komi fram að lögin gildi ekki um einkaaðila, en undir hugtakið „einkaaðilar“ falli m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu.

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 29. október 2008, var kæran kynnt Nýja Landsbankanum hf. og félaginu veittur frestur til 12. nóvember til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Svar félagsins barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 10. nóvember. Þar kemur fram að Nýi Landsbankinn hf. (sem frá 27. október heitir NBI hf.) telji upplýsingalögin ekki eiga við um félagið. NBI hf. sé hlutafélag einkaréttarlegs eðlis sem ekki hafi á hendi sérstakt stjórnsýsluhlutverk og falli því starfsemi þess ekki undir upplýsingalög. Sú staðreynd að félagið sé í eigu ríkisins breyti þar engu um. Með vísan til þessa krefst félagið þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Með bréfi, dags. 26. nóvember 2008, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna svarbréfs NBI hf. Athugasemdir hans bárust með tölvubréfi, dags. 11. desember.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 taka ákvæði þeirra til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins taka lögin enn fremur til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í skýringum við 1. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum er rakið að lögin taki til þeirrar starfsemi sem heyri undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins. Þá er tekið fram að lögin taki einnig til þeirrar starfsemi einkaaðila sem lýtur að því að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Síðan segir í skýringunum: „Að öðru leyti gilda lögin ekki um einkaaðila, en undir hugtakið „einkaaðilar“ falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu. Ef rekstrarformi opinberrar stofnunar hefur t.d. verið breytt í hlutafélagsform fellur hlutafélagið sem slíkt utan gildissviðs laganna, jafnvel þótt það sé að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélags, nema því hafi verið falið sérstakt stjórnsýsluhlutverk, þ.e. að taka ákvarðanir, í skjóli stjórnsýsluvalds, um rétt eða skyldu manna.“

Með 1. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., var fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs og að ákveðnum skilyrðum fullnægðum, heimilað að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta. Í 3. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að gert er ráð fyrir að í þessu skyni sé m.a. heimilt að stofna nýtt hlutafélag til þess að taka við rekstri fjármálafyrirtækis að hluta til eða í heild sinni. Af gögnum sem birt hafa verið opinberlega, m.a. á heimasíðu fjármálaráðuneytisins annars vegar og Fjármálaeftirlitsins hins vegar, sbr. til að mynda fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins nr. 16/2008 frá 9. október 2008, og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans hf., dags. þann sama dag, verður ráðið að Nýi Landsbankinn hf. hafi verið stofnaður á grundvelli umræddrar heimildar í því skyni að taka við hluta af eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf.

Samkvæmt framangreindu telst Nýi Landsbankinn hf. (NBI hf.) vera hlutafélag, stofnað af stjórnvöldum á grundvelli heimildar í lögum. Hlutafélagið fellur utan gildissviðs upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga, og ekki verður séð að félaginu hafi verið falið stjórnsýsluhlutverk í þeirri merkingu sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. sömu greinar. Þá er ekki að finna í lögum sérstök fyrirmæli um að ákvæði upplýsingalaga eigi við um hlutafélagið, líkt og kveðið er á um í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A-277/2008.

Samkvæmt framansögðu fellur úrlausn kæruefnisins utan gildissviðs upplýsingalaga og ber því að vísa kæru þessari frá nefndinni.

 

Úrskurðarorð

Kæru [...] á hendur Nýja Landsbankanum hf. er vísað frá.

 


Friðgeir Björnsson
formaður

 

 

                                    Sigurveig Jónsdóttir                                                       Trausti Fannar Valsson.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta