Gagnleg endurskoðun á stöðu mannréttindamála
Ýmsar ábendingar og hugmyndir komu fram á fundi á vegum innanríkisráðuneytisins í morgun þar sem rætt var um drög að skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi sem leggja á fyrir Sameinuðu þjóðirnar síðar í sumar. Enn er hægt að koma ábendingum um skýrsludrögin til vinnuhóps á netfangið [email protected].
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ávarp í upphafi fundar og minnti á að við sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í innanríkisráðuneytið hefðu mannréttindamál fengið aukið vægi, einn sérfræðingur ráðuneytisins sinnti nú þeim málaflokki eingöngu. Ráðherra sagði verkefni ráðuneytisins á sviði mannréttindamála mjög margbreytileg og hann þakkaði vinnuhópnum sem unnið hefur áðurnefnd skýrsludrög fyrir vel unnin störf. Kvað hann þá endurskoðun Sameinuðu þjóðanna á mannréttindamálum í heiminum sem fengist með þessari skýrslugerð aðildarríkja vera gagnlega þeim öllum. ,,Við þurfum að líta í eigin barm og meta vel og vandlega hvernig við stöndum að lagasetningu á þessu sviði, framkvæmd mannréttindamála og hvort við forgangsröðum rétt í málaflokknum,” sagði ráðherrann meðal annars.
Rósa Dögg Flosadóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu og formaður vinnuhópsins, fór yfir helstu þætti í skýrsludrögunum. Hún sagði verkefnið sem hófst 2008 til komið með nýju eftirlitskerfi á vegum SÞ og væru aðildarríkin nú í fyrsta sinn að skoða stöðuna hvert hjá öðrum með beinum hætti. Markmið verkefnisins væri að bæta stöðu mannréttindamála í heiminum og að hvetja ríki til að uppfylla skuldbindingar á sviði mannréttindamála. Rósa Dögg sagði mikla áherslu hafa verið lagða á samráð við frjáls félagasamtök, stofnanir og almenning og þannig hefðu um 60 aðilar fengið drög að kaflaskipan skýrslunnar send og athygli þeirra vakin á að skýrsludrögin yrðu birt á vef innanríkisráðuneytisins.
Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, kynnti aðkomu skrifstofunnar að verkefninu. Kvaðst hún vera ánægð með gott samráð við gerð skýrsludraganna og fór yfir nokkur atriði sem hún sagði brýnt að stjórnvöld tækju til nánari meðferðar. Nefndi hún meðal annars þjónustu við fatlaða, skoðun á stöðu lífsskoðunarfélaga í samanburði við stöðu trúfélaga, aðbúnað í fangelsum, launamisrétti og ýmis atriði sem sneru að innflytjendum og rétti þeirra.
Að loknum inngangserindum voru pallborðsumræður. Þátttakendur voru María Rún Bjarnadóttir, Nína Björk Jónsdóttir, Rósa Dögg Flosadóttir, Guðríður Þorsteinsdóttir, Glóey Finnsdóttir og Guðni Olgeirsson.
Við umræður komu fram ýmsar ábendingar frá fundarmönnum um atriði sem taka mætti til nánari skoðunar við lokagerð skýrslunnar. Næsta skref er að kalla eftir enn frekari athugasemdum og er veittur frestur til 16. júní eins og fyrr segir til að koma þeim á framfæri á netfangið [email protected].
- Kynning á drögum á skýrslu Íslands vegna úttektar SÞ (pp-skjal)
- Drög að skýrslu Íslands (pdf-skjal) Ath. skjalið hefur ekki verið prófarkalesið.