Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skýrsla um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa hjá einstaklingum

Axel Hall, formaður sérfræðingahópsins kynnti skýrsluna á blaðamannafundi í dag - mynd

Skýrsla sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa hjá einstaklingum var kynnt í dag á blaðamannafundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Í skýrslunni má finna umfangsmikla greiningu á tekjuskattskerfinu, m.a. um þróun kerfisins og áhrif þróunarinnar á ólíka hópa, samnýtingu þrepa og skattlagningu launatekna þeirra sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur. Þá er umfjöllun um húsnæðisstuðnings- og barnabótakerfi og samspil þeirra við skattkerfið þar sem greind voru áhrif stuðningskerfanna á ólíka hópa í samfélaginu. Sérfræðingahópurinn setur í skýrslunni fram samanburð annars vegar við tekjuskattskerfi hinna Norðurlandanna og hins vegar barnabótakerfi.

Meðal helstu niðurstaðna í skýrslunni:

  • Raunskattskrið hefur orðið með hækkun launa umfram skattleysismörk sem hefur valdið því að dregið hefur úr jöfnun skattkerfisins.
  • Skattleysismörkin hafa gefið eftir og nálgast hin Norðurlöndin, en eru enn hæst hér á landi.
  • Hlutfall skattgreiðenda er nú sambærilegt við það sem gerist á Norðurlöndum.
  • Kaupmáttur allra tíunda hefur vaxið frá árinu 2000, mestur hefur vöxturinn verið hjá neðstu tíundum.
  • Heildarskattbyrði launafólks er almennt lægst hér á landi af Norðurlöndunum en grunnprósentan hér er hæst og þrepin eru jafnframt fæst.
  • Tekjuöflun hins opinbera hefur breyst frá upphafi staðgreiðslukerfisins þannig að vægi beinna skatta hefur aukist og vægi óbeinna skatta minnkað. Þessi þróun hefur haft mildandi áhrif á raunskattskriðið. 

Helstu breytingar

Nýtt neðra þrep
Sérfræðingahópurinn leggur til nýtt neðra þrep skattkerfisins sem verður fjórum prósentustigum lægra en núverandi grunnprósenta kerfisins, eða 32.94%. Markmið vinnu hópsins voru að minnka álögur og auka jöfnuð. Hópurinn horfði ennfremur til þess að stuðla að bættum hvataáhrifum kerfisins fyrir launþega á lágum launum og bótaþega. Niðurstaða hópsins felur í sér að jöfnunin verði í ríkari mæli en áður borin af þrepum kerfisins en af persónuafslætti og skattleysismörkum.

Til þess að nýtt þrep endurspegli lækkun grunnprósentu í þrepinu sem máli skiptir verður persónuafsláttur frystur á innleiðingartíma þrepsins og verðlagsuppfærsla persónuafsláttar kemur í gegnum nýs lægra skattþreps. Skattleysismörk haldast þannig föst að raunvirði. Efri mörk neðra þrepsins ná til bótaþega og fullvinnandi launafólks á lágum tekjum.

Ný viðmið í þróun marka

Gert er ráð fyrir að skattleysismörk og tekjumörk skattþrepa fylgi þróun samanlagðra breytinga á vísitölu neysluverðs og þróun framleiðni. Með þessu er komið í veg fyrir að raunskattskrið liðinna ára endurtaki sig. Stuðst verður við mælikvarða Seðlabanka Íslands á framleiðni og er gert ráð fyrir að taka meðaltal framleiðnivaxtar þriggja liðinna ára og er því unnt að draga úr þessum áhrifum og gera sveiflujöfnun sterkari. Slík tenging tryggir að tekjujöfnunareiginleikar skattkerfis haldist yfir tíma án þess að skerða hagstjórnaráhrif þess.

Samnýting þrepa

 

Samnýting sambúðaraðila á skattaþrepum verður aflögð en millifærsla persónuafsláttar verður óbreytt frá því sem nú er.

Kynning Axels Hall, formanns sérfræðingahóps frá blaðamannafundi 25. febrúar

Endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa hjá einstaklingum

Upplýsingablað frá blaðamannafundi 25. febrúar

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta