Hoppa yfir valmynd
3. september 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 20/2009

Fimmtudaginn 3. september 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 7. maí 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 6. apríl 2009 um að synja kæranda um vexti af vangoldinni greiðslu fæðingarstyrks.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Í tölvusamskiptum við Z- hjá Fæðingarorlofssjóði var kæranda tjáð að sjóðnum bæri ekki að greiða vexti af vangoldnum styrkgreiðslum þar sem vísað var til 5. mgr. 15. gr. a. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 og 7. gr. reglugerðar nr. 1218/2008

Kærandi tjáði Z að hvergi kæmi að vísu fram að skýrt væri tekið fram í ofangreindum lögum og reglugerð að ef sjóðurinn gleymi að borga úr sjóðnum þá beri honum borga vexti enda sannarlega mistök sjóðsins um að ræða. Ekki var hægt að lesa annað en að Z túlkaði lög þessi og reglugerð með þeim hætti að stofnunin gerði ekki slík mistök og þar af leiðandi ekki hægt að fínna neina heimild til að greiða vexti.

Sökum ofangreinds ágreinings telur kærandi vissast að leita til Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála

Kærandi sótti um fæðingarorlof í 4 mánuði frá og með 1. ágúst 2008. Kærandi fullnægði ekki kröfum sjóðsins um fæðingarorlof en var veittur fæðingarstyrkur í 4 mánuði.

Þegar kærandi skoðaði bankayfirlit, seint í mars 2009, kom í ljós að Fæðingarorlofssjóður hafi einungis greitt kæranda 3 mánuði í stað fjögurra. Við athugun kom í ljós að Fæðingarorlofssjóður láðist að greiða fjórða mánuðinn og samþykkti fulltrúi sjóðsins að leiðrétta mistök sjóðsins hið fyrsta.

Fæðingarorlofssjóður leiðrétti mistök sín nær samstundis. Hins vegar greiddi sjóðurinn kæranda upphæðina að frádregnum sköttum og gjöldum og bar fyrir sig að kærandi hafði ekki skilað inn skattkorti. Kærandi mótmælti þessu og tjáði sjóðnum að hann hefði greitt vangoldna upphæð nær samstundis og því engin leið fyrir kæranda að koma skattkorti til sjóðsins fyrir greiðslu.

Fulltrúi sjóðsins bað kæranda að senda sér skattkort og þegar það væri komið í hendur sjóðsins myndi vera athugað hvort hægt væri yfir höfuð að leiðrétta mistök sjóðsins. Kærandi bað um að sjóðurinn myndi athuga fyrst hvort ekki væri hægt að leiðrétta mistökin og senda síðan skattkort. Slíkt var ekki tekið til greina.

Kærandi spurði fulltrúa hvort sjóðnum bæri að greiða vexti af vangreiddri fjárhæð. Fulltrúi gat ekki svarað þeirri spurningu og því bað kærandi um að fá að tala við Z. Í tölvusamskiptum við forstöðumann tjáði Z að sjóðurinn myndi gera upp mistök sín um leið og skattkort kæmi til sjóðsins. Z tjáði kæranda að ekki væri heimild að greiða vexti af fæðingarstyrkjum heldur einungis af greiðslum úr fæðingarorlofssjóð. Vísaði Z í 5. mgr. 15. gr. a. laga nr. 95/2000 sem og 7. gr. reglugerðar nr. 1218/2008.

Ekki kemur fram í ofangreindum lögum né í reglugerð hvort sjóðnum ber að greiða vexti af vangoldnum styrkjum. Hins vegar kemur það skýrt fram að sjóðnum ber að greiða vexti ef um vangoldnar greiðslur úr sjóðnum er að ræða.

Kærandi fer fram á úrskurð kærunefndar hvort sjóðnum ber að greiða vexti af vangoldnum styrk eða ekki.“

 

Með bréfi, dagsettu 24. júlí 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 6. ágúst 2009. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að reikna kæranda ekki vexti af einni vangreiddri greiðslu fæðingarstyrks til hans sem foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli vegna barns sem fæddist 22. febrúar 2008.

Með umsókn, dags. 7. janúar 2007 (á væntanlega að vera 2008), sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 4 mánuði vegna barnsfæðingar 22. febrúar 2008.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 7. nóvember 2007, tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 8. janúar 2008, tvær greinargerðir um reiknað endurgjald sjálfstætt starfandi manna, önnur ódagsett og hin dagsett 19. febrúar 2008, tvær greiðslukvittanir til Tollstjórans í Reykjavík, dags. 8. janúar og 15. apríl 2008. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Kæranda var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með bréfi dagsettu 16. maí 2008. Í synjunarbréfinu var kæranda bent á að hann ætti rétt á fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli. Kærandi þyrfti að senda staðfestingu ef hann ætlaði sér að nýta styrkinn. Með tölvupósti, dags. 15. júlí 2008, sótti kærandi um fæðingarstyrkinn. Í framhaldinu var honum send greiðsluáætlun, dags. 5. ágúst 2008 þar sem fram kemur að hann muni fá fæðingarstyrkinn greiddan í ágúst, september og október 2008. Láðst hefur að hafa fjórða mánuðinn með sem átti að vera nóvember 2008. Uppgötvaðist það ekki fyrr en kærandi hafði samband símleiðis í mars 2009 og var honum greiddur hinn vangreiddi fæðingarstyrkur þann 13. mars 2009.

Með tölvupósti til Z, dags. 6. apríl 2009, óskaði kærandi eftir að greiddir yrðu vextir af hinni vangoldnu greiðslu með vísan til 7. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Kæranda var svarað samdægurs með tölvupósti þar sem fram kemur að Vinnumálastofnun hafi ekki heimild til að greiða vexti af fæðingarstyrkjum heldur einvörðungu greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 5. mgr. 15. gr. a. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 og 7. gr. reglugerðar nr. 1218/2008. Hefur sú ákvörðun nú verið kærð til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 74/2008, kemur fram að Fæðingarorlofssjóður skuli annast greiðslur til foreldra sem réttinda njóta til greiðslu í fæðingarorlofi skv. 13. gr. Þó er heimilt að semja um að vinnuveitandi annist þessar greiðslur, enda fái hann endurgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Greiðslur til foreldra sbr. 2. mgr. 1. gr., greiðast úr ríkissjóði. Í 2. mgr. 1. gr. ffl. kemur fram að um sé að ræða réttindi foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrks.

Í 5. mgr. 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004 og 4. gr. laga nr. 155/2006, sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 og 7. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem var í gildi við fæðingu barns, kemur fram að hafi foreldri fengið lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda ber [Vinnumálastofnun] að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til foreldris ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála leiðir til þess að foreldri hafi átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en hafi áður verið synjað um greiðslur eða reiknaðar lægri greiðslur. Þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falla vextir niður.

Í athugasemdum við 6. gr. laga nr. 90/2004 segir orðrétt um þetta: „Með sama hætti er gert ráð fyrir að [Tryggingastofnun] greiði þá fjárhæð sem vangreidd var til foreldris þegar foreldri fékk lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar. Gert er ráð fyrir að Fæðingarorlofssjóður greiði vexti fyrir það tímabil frá því að féð hefði átt að vera greitt úr sjóðnum til þess tíma að greiðslan var innt af hendi. Er lagt til að vextirnir verði jafnháir þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður að skuli greiða af skaðabótakröfum og kveðið er á um í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Lagt er til að sama gildi um greiðslur Fæðingarorlofssjóðs í tilvikum er niðurstaða úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála leiðir til þess að foreldri hafi átt rétt á greiðslum úr sjóðnum en hafi áður verið synjað um greiðslur eða verið greitt lægri greiðslur. Þó er lagt til að þegar greiðslur úr sjóðnum eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falli vextir niður. Á þetta einkum við um þau tilvik er foreldrar hafa ekki staðið skil við skattyfirvöld á upplýsingum um tekjur sem og þegar mál dragast í meðförum úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála af ástæðum sem rekja má til kæranda sjálfs.“

Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerð sem sett hefur verið með stoð í lögunum er annars vegar um að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra sem réttinda njóta til greiðslu í fæðingarorlofi skv. 13. gr. og hins vegar greiðslur fæðingarstyrkja sem greiddir eru úr ríkissjóði. Hefur vörsluaðili Fæðingarorlofssjóðs, sem nú er Vinnumálastofnun en var áður Tryggingastofnun ríkisins, annast greiðslu fæðingarstyrkja fyrir ríkissjóð.

Nokkur eðlismunur er á réttindum foreldra eftir því hvort þeir eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða greiðslu fæðingarstyrkja og/enda þarf að uppfylla mismunandi skilyrði fyrir því hvort foreldri teljist á vinnumarkaði og eigi þar með rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, er í námi og öðlast rétt til greiðslu fæðingarstyrks námsmanna eða telst utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og á rétt á fæðingarstyrk sem slíkur foreldri. Í IV. og V. kafla laganna er t.d. sérstaklega fjallað um réttindi foreldra á vinnumarkaði til fæðingarorlofs á meðan fjallað er um réttindi foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrkja í VI. kafla laganna. Heimild til greiðslu vaxta, sbr. 5. mgr. 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004, fellur undir IV. kafla laganna. Í reglugerð nr. 1218/2008 (áður 1056/2004) er fjallað um réttindi foreldra á vinnumarkaði til fæðingarorlofs í II. og III. kafla reglugerðarinnar á meðan fjallað er um réttindi foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrkja í IV. – V. kafla reglugerðarinnar (IV. – VI. kafla í reglugerð 1056/2004). Heimild til greiðslu vaxta, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar, fellur undir II. kafla reglugerðarinnar.

Af öllu framangreindu virtu verður ekki annað séð en að löggjafarviljinn hafi verið skýr hvað þetta varðar. Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í lögunum er einungis heimilt að greiða vexti af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra á vinnumarkaði sem réttinda njóta til greiðslna í fæðingarorlofi. Engar heimildir er að finna í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né heldur í reglugerðum til að greiða vexti af vangoldnum greiðslum fæðingarstyrkja.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslu vaxta af greiðslu fæðingarstyrks til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 12. ágúst 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um vexti af vangoldinni greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi fyrir nóvembermánuð árið 2008.

Kærandi sótti með bréfi, dagsettu 7. janúar 2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fjóra mánuði frá og með 1. ágúst 2008. Með bréfi, dagsettu 16. maí 2008, var honum synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en í framhaldinu sótti hann um fæðingarstyrk. Á greiðsluáætlun, dagsettri 5. ágúst 2008, voru eingöngu tilgreindir þrír mánuðir, þ.e. ágúst, september og október 2008, í stað fjögurra mánaða sem kærandi hafði sótt um. Kærandi uppgötvaði í mars 2009 að hann hafði einungis fengið greidda þrjá mánuði og hafði þá samband við Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóð. Var kæranda greiddur vangoldinn fæðingarstyrkur þann 13. mars 2009. Hins vegar var synjað kröfu hans um greiðslu vaxta af hinni vangoldnu fjárhæð.

Ákvæði um skyldu til greiðslu vaxta er í 5. mgr. 15. gr. a. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004 og 7. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslu úr Fæðingarorlofsjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem í gildi var við fæðingu barns. Í ákvæðinu segir um rétt til vaxta að hafi foreldri fengið lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda beri Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til foreldris ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Sama eigi við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála leiðir til þess að foreldri hafi átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en hafi áður verið synjað um greiðslur eða reiknaðar lægri greiðslur. Þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði séu vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falli vextir niður.

Ákvæði 5. mgr. 15. gr. a. ffl. á eingöngu við um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Ekki er í ffl. eða reglugerð nr. 1056/2004 sambærilegt ákvæði um skyldu til greiðslu vaxta vegna fæðingarstyrks. Samkvæmt því á kærandi ekki kröfu á greiðslu vaxta af hinni vangoldnu fjárhæð á grundvelli ákvæða ffl. eða reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni er kunna að rísa á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof. Það fellur því utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan rétt kæranda til vaxta eða dráttarvaxta samkvæmt almennum lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

A á ekki kröfu á greiðslu vaxta af vangoldnum fæðingarstyrk á grundvelli laga nr. 95/2000.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta