Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 69/2008

Fimmtudaginn 19. febrúar 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 24. nóvember 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 20. nóvember 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 20. ágúst 2008 um útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Þannig er mál með vexti að þessi nýju lög sem tóku gildi í sumar um fæðingarorlof koma sér mjög illa fyrir okkur. Við eignuðust barn í fyrra ( Y-06-2007 ) og A

tók sex mánuði sem hún tók á tólf mánuðum 50% á mánuði.

Fæðingarorlofið var reiknað út frá tekjum 2005 og 2006, okkur fannst sniðugt að hún væri heima í ár, (öll börn ættu að eiga rétt á því að mamman sé heima í ár)

þótt launin væru ekki há. Svo síðasta vetur fengum við þau gleði tíðindi að það væri annað á leiðinni nánar til tekið 27/9 2008, við ákveðum að hún mundi taka aftur ár og við sóttum um það. Svo fengum við niðurstöðu og þá fengum við áfall, með breytingunni á lögunum í sumar þá reiknast þetta nýja fæðingarorlof frá 1-4-2007 til 30-3-2008 þannig að hún er að fá sirka X kr á mánuði næsta árið, það gengur ekki upp. Þetta orlof reiknast út að mestu leyti frá síðasta orlofi og þá var hún á 50% launum.

Ég veit að það var verið að breyta lögunum um fæðingarorlof til að auðvelda konum að vera heima hjá börnum sínum, en þetta kemur mjög illa út fyrir okkur.

Ef gömlu útreikningarnir hefðu verið í gangi þá hefði þetta ekki komið svona illa út. Það er ekki nóg með að orlofið reiknist út frá síðasta orlofi heldur er það orlof miðað við launin 2005 og 2006. Það er nú mikið búið að gerast síðan, launahækkanir og verðbólga (mikil). Mér finnst að það sé verið að brjóta á okkur.

Ef við hefðum vitað af þessu öllu þá hefði hún tekið fyrra orlofið 100% (sex mánuði) og farið síðan á atvinnuleysisbætur (það að segja svindla á kerfínu). Ég er á móti því að maður þurfi alltaf að svindla á öllu til að lifa af.

Svo hefði hún tekið þetta orlof í ár eins og til stóð, en eins og þetta lítur út fyrir okkur núna ætlar hún að breyta þessu orlofi í sex mánuði á 100% og sjá svo til hvernig þetta fer, er ekki hvort sem er allar fjölskyldur að fara á hausinn, það munar ekki um eina í viðbót.“

 

Með bréfi, dagsettu 28. nóvember 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 16. desember 2008. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 9. júlí 2008, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði sem hún ætlaði að dreifa á eitt ár, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 30. september 2008.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 9. júlí 2008, breyting á tilhögun fæðingarorlofs, dags. 4. desember 2008. Enn fremur lágu fyrir gögn vegna eldri umsóknar kæranda í fæðingarorlof vegna barns sem fæddist Y. júní 2007 og upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 20. ágúst 2008, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof (X kr. miðað við 50% fæðingarorlof í eitt ár). Þann 16. desember 2008 var kæranda send ný greiðsluáætlun þar sem barn hennar fæddist í október 2008 en ekki í september 2008 eins og fyrri greiðsluáætlun hafði gert ráð fyrir og einnig hafði hún ákveðið að taka fæðingarorlofið á skemmri tíma. Í þeirri greiðsluáætlun kemur nú fram að mánaðarleg greiðsla kæranda sé X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. er síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda er Y. október 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar mánuðina apríl 2007 – mars 2008 enda taldist kærandi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafa verið á innlendum vinnumarkaði þann tíma, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Mánuðina júlí 2007 – mars 2008 var kærandi í 50% fæðingarorlofi með eldra barni og ber því að uppreikna greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á því tímabili, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. í X kr. úr X kr. Við launakeyrslu í janúar 2008 datt kærandi úr greiðslu en fékk í staðin tvöfalda greiðslu í febrúar 2008 eins og kemur fram á greiðsluáætlun, dags. 16. desember 2008. Aðra mánuði á viðmiðunartímabilinu var kærandi starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli og ber því líka að hafa þá með við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 16. desember 2008, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 12. janúar 2009, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 21. janúar 2009. Þar segir:

„Ég sé ekki svar við spurningu minni um það hvort eigi ekki að koma umsamdar launahækkanir. Þegar seinna fæðingarorlofið er reiknað út, er það reiknað út frá fyrra fæðingarorlofi að mestu leyti (laun 2005 og 2006) sem var sex mánaðar fæðingarorlof tekið á tólf mánuðum (50%). Það hlýtur að eiga að koma umsamdar launahækkanir?“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi, dagsettu 15. september 2008.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. a telst enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Fæðingardagur barns kæranda var Y. október 2008. Samkvæmt því er viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna hennar tímabilið apríl 2007 til mars 2008. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd laun sem starfsmaður fyrir mánuðina apríl til júní 2007 og síðan var hún í 50% fæðingarorlofi með eldra barni mánuðina júlí 2007 til mars 2008. Telst hún því allt tímabilið hafa verið á vinnumarkaði, sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Samkvæmt upphaflegri umsókn kæranda sem dagsett var 9. júlí 2008 fyrirhugaði hún að nýta sjálfstæðan rétt sinn og sameiginlegan rétt foreldra til foreldraorlofs og að greiðslur skiptust á tólf mánuði. Í tilkynningu kæranda dagsettri 2. október 2008 óskar hún eftir að breyta tímabili fæðingarorlofs í sex mánuði frá 1. október til 31. mars 2009 og síðan með tilkynningu dagsettri 4. desember 2008 óskar hún enn eftir að breyta tímabilinu í þrjá mánuði frá 1. október 2008 til 31. desember 2008 og að sameiginlegur réttur flytjist til föður. Fyrir liggur ný greiðsluáætlun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs dagsett 18. desember 2008. Í kæru og athugasemdum kæranda dagsettum 21. janúar 2009 er einkum vitnað til þess að við útreikning heildarlauna sé ekki tekið tillit til umsaminna launahækkana. Þykir verða að skilja kæru þannig að ágreiningur sé um aðferðir Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs við útreikning heildarlauna hennar á viðmiðunartímabilinu sem eru grundvöllur útreiknings greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla til starfsmanns nema 80% af meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Samkvæmt ákvæðinu teljast einnig til launa greiðslur úr Fæðingaorlofssjóði og skulu greiðslurnar taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og aldrei skal taka mið af hærri fjárhæð en sem nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Að mati úrskurðarnefndar felst í ákvæðinu að uppreikna skuli greiðslur sem foreldri fær úr Fæðingarorlofssjóði miðað við að þær séu 80% launa (greiðsla x 100/80) sem er í samræmi við aðferð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs. Ekki er ágreiningur um að laun sem kærandi fékk greidd á viðmiðunartímabilinu sem starfsmaður samtals X kr. teljist til launa við útreikning meðaltals heildarlauna. Eins og áður segir gerir kærandi athugasemd við það að ekki sé við útreikning tekið tillit til umsaminna launahækkana. Hvorki ákvæði ffl. né reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, veitir heimild til þess að tekið sé tillit til launabreytinga sem verða eftir lok viðmiðunartímabilsins.

Með hliðsjón af framanrituðu er staðfest ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning meðaltals heildarlauna kæranda.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning meðaltals heildarlauna A á tímabilinu apríl 2007 til mars 2008 er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta