Hljóðdemparar leyfðir á stærri veiðiriffla með breytingu á reglugerð
Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur undirritað breytingu á reglugerð um skotvopn, skotfæri og fleira og er breytingin þess efnis að leyfðir verða svonefndir hljóðdemparar á stærri veiðiriffla. Með notkun þeirra minnkar hávaðinn niður fyrir sársaukamörk sem dregur úr hættu á heyrarskemmdum og er hér því um öryggisatriði að ræða. Engu að síður þurfa veiðimenn að nota heyrnarhlífar.
Breytingin varðar reglugerð nr. 787/1998 og hefur verið send Stjórnartíðindum og tekur gildi við birtingu þar. Breytingin er til samræmis við hliðstæðar reglugerðir á öðrum Norðurlöndum þar sem hljóðdemparar eru leyfðir og hér tekur hún til stærri veiðiriffla.
Stærri rifflar verða ekki hljóðlausir þó að hljóðdempari sé notaður og ekki fer á milli mála að verið sé að skjóta úr riffli. Skot úr stórum veiðiriffli getur verið um 150-160 decibel án hljóðdeyfis en farið niður í 130 dB með hljóðdeyfi. Þannig fer hávaðinn niður fyrir sársaukamörk sem eru um 140 dB og dregur þannig úr hættu á heyrnarskemmdum en skotveiðimaður þarf engu að síður að nota heyrnarhlífar til að verja sig.
Reglugerðardrögin voru send embætti ríkislögreglustjóra, Lögreglustjórafélags Íslands, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og Umhverfisstofnun til athugasemda. Enginn þessara aðila lagðist gegn því að hljóðdemparar yrðu leyfðir og komu þeir með gagnlegar athugasemdir. Þá voru drögin sett á vef ráðuneytisins til umsagnar í viku. Fimm athugasemdir bárust ráðuneytinu. Athugasemdirnar lutu fyrst og fremst að geymslu hljóðdempara en fyrstu drög gerðu ráð fyrir að hljóðdempari yrði geymdur í læstri hirslu aðskilinni frá skotvopninu. Komið hefur verið til móts við athugasemdirnar og þess er krafist að hljóðdempari sé geymdur í sérútbúnum vopnaskáp með skotvopninu.