Mál nr. 10/2003: Dómur frá 22. desember 2003
Ár 2003, mánudaginn 22. desember, er í Félagsdómi í málinu nr. 10/2003.
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands f.h.
Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga
(Friðrik Á. Hermannsson hdl.)
gegn
Samtökum atvinnulífsins f.h.
Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.
Útvegsmannafélags Norðurlands vegna
Samherja hf.
(Jón H. Magnússon hdl.)
kveðinn upp svofelldur
dómur:
Mál þetta var dómtekið 25. nóvember síðastliðinn að afloknum munnlegum málflutningi.
Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.
Stefnandi er Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Borgartúni 18, Reykjavík, f.h. Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga, Skipagötu 14, Akureyri.
Stefndi er Samtök atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Útvegsmannafélags Norðurlands, Fiskitanga, Akureyri, vegna Samherja hf., Glerárgötu 30, Akureyri.
Dómkröfur stefnanda:
Að viðurkennt verði að Samherji hf. hafi brotið gegn ákvæði gr. 5.13. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands með því að tryggja ekki Árna Valdimar Þórðarsyni, kt. 280154-4749, Hlíðargötu 3, Akureyri, Leifi Kristjáni Þormóðssyni, kt. 220860-7799, Duggufjöru 2, Akureyri og Björgvin Erni Jóhannssyni, kt. 120764-2179, Brekkugötu 39, Akureyri, félagsmönnum Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga, frí við löndun úr frystitogaranum Baldvin Þorsteinssyni, EA-10, skipaskrárnúmer 2212, miðvikudaginn 18. júní 2003.
Að Samherja hf. verði gert að greiða stefnanda, Skipstjóra- og stýrimannafélagi Norðlendinga, févíti að fjárhæð 362.944 krónur samkvæmt gr. 1.54. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem renni í félagssjóð Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga, vegna brots á ákvæði greinar 5.13. í kjarasamningnum, með því að tryggja ekki skipstjóranum Árna Valdimar Þórðarsyni, kt. 280154-4749, Hlíðargötu 3, Akureyri, Leifi Kristjáni Þormóðssyni, kt. 220860-7799, Duggufjöru 2, Akureyri, 1. stýrimanni og Björgvin Erni Jóhannssyni, kt. 120764-2179, Brekkugötu 39, Akureyri, 2. stýrimanni, félagsmönnum Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga, frí við löndun úr frystitogaranum Baldvin Þorsteinssyni EA-10, skipaskrárnúmer 2212, miðvikudaginn 18. júní 2003.
Að Samherja hf. verði gert að greiða dráttarvexti af 362.944 krónum frá 18. júní 2003 til greiðsludags.
Að Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Samherja hf., verði dæmd til að greiða stefnanda, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, málskostnað að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda:
Að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að stefnukrafa verði lækkuð. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málavextir:
Stefndi, Samherji hf., gerir út skipið Baldvin Þorsteinsson EA-10 sem er 2968 brúttórúmlesta frystitogari. Landað var úr skipinu 18. júní 2003 í Reykjavíkurhöfn 491 tonni af frystum karfa. Þann dag gegndi Árni Valdimar Þórðarson, Hlíðargötu 3, Akureyri, starfi skipstjóra, Leifur Kristján Þormóðssyni, Akureyri, gegndi starfi 1. stýrimanns og Björgvin Örn Jóhannssyni, Brekkugötu 39, Akureyri, gegndi starfi 2. stýrimanns. Allir eru mennirnir félagsmenn Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga.
Stefnandi krafðist greiðslu sektar úr hendi stefnda, Samherja hf., með bréfi 5. september 2003, auk dráttarvaxta og málskostnaðar, en kröfunni var hafnað. Hefur stefnandi því höfðað mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefnanda:
Stefnandi byggir málsóknina á því að samkvæmt ákvæði gr. 5.13. í kjarasamningi milli stefnda, Landssambands íslenskra útvegsmanna og stefnanda, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, skuli yfirmenn á togurum hafa frí við löndun. Ákvæði þetta sé að finna í kafla 5.1. í kjarasamningnum en sá kafli beri fyrirsögnina „SKUTTOGARAR”. Í kafla 5.2. í kjarasamningnum, sem beri fyrirsögnina „FRYSTITOGARAR”, sé ekki fjallað um skyldur skipstjórnarmanna til að landa afla úr frystitogurum. Baldvin Þorsteinsson EA sé frystitogari en framangreint ákvæði um löndunarfrí skipstjórnarmanna taki einnig til hans enda segi svo í ákvæði gr. 5.28. í kjarasamningi aðila, sem ber yfirskriftina „Gildissvið”: „Að öðru leyti en þá er hér greinir um frystitogara gilda ákvæði almennu bátakjarasamninga (sic) eins og við á um togara”.
Ákvæði gr. 13.04. sé að finna í XIII. kafla kjarasamningsins sem beri yfirskriftina „UPPSJÁVARVEIÐAR ÞAR SEM AFLI ER FRYSTUR UM BORД. Síðan segi í ákvæði gr. 13.01. sem beri yfirskriftina „Gildissvið”:
„Ákvæði þessa kafla eiga við um veiðar á uppsjávarfiski, þ.m.t. loðnu, síld, kolmunna og makríl, með nót- og flotvörpu á fjölveiðiskipum, þar sem afli er að hluta eða öllu leyti frystur um borð. Þegar veitt er eingöngu í bræðslu gilda ákvæði kjarasamningsins”.
Eins og framangreind ákvæði beri skýrlega með sér sé um sérákvæði að ræða en sérákvæði beri ávallt að skýra þröngt. Gildissvið þessara sérákvæða sé uppsjávarveiðar og uppsjávarveiðar eingöngu. Taki þau með öðrum orðum ekki til bolfiskveiða og þar með ekki til karfaveiða en sá afli, sem landað hafi verið úr Baldvin Þorsteinssyni EA-10 þann 18. júní 2003, hafi samanstaðið af djúpkarfa annars vegar og úthafskarfa hins vegar. Hingað til hafi karfi ekki verið talinn uppsjávarfiskur og djúpkarfinn alls ekki.
Févítiskrafa stefnanda sé reist á ákvæði gr. 1.54. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands en í ákvæðinu segi: „Brot gegn samningi þessum varða sektum allt að kr. 300.057 er renni í félagssjóð viðkomandi félags. Sektarupphæðin skal síðan hækka í hlutfalli við kaupgjaldsákvæði samningsins”. Við endurútgáfu kjarasamningsins milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannsambands Íslands hafi gleymst að uppfæra ákvæði gr. 1.54. en févíti samkvæmt ákvæðinu nemi nú 362.944 krónum.
Líta verði til þess að fyrirsvarsmenn stefnda, Samherja hf., hafi brotið gegn gr. 5.13. í kjarasamningnum af ásetningi og látið mótmæli talsmanna sjómanna-samtakanna eins og vind um eyru þjóta.
Krafist er að stefnda, Samherja hf., verði gert að greiða Skipstjóra- og stýrimannafélagi Norðlendinga dráttarvexti af 362.944 krónum frá 18. júní 2003 til greiðsludags. Hafi ætlað brot stefnda, Samherja hf., átt sér stað þann dag og því rétt að reikna dráttarvexti frá þeim degi.
Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð upp með þeim hætti sem Félagsdómur hafi þegar dæmt í máli nr. F-15/2001, Vélstjórafélag Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Snæfellsness vegna Bervíkur ehf.
Málsástæður og lagarök stefnda:
Stefndi byggir málsvörn á því að gert hafi verið hlé á veiðiferð umrædds frystitogara og hann komið til löndunar í Reykjavík 18. júní 2003 og haldið aftur til veiða strax að löndun lokinni. Skipið hafi haft viðdvöl í Reykjavíkurhöfn frá því kl. 11 miðvikudaginn 18. júní til kl. 8 fimmtudaginn 19. júní. Landað hafi verið 491 tonni af frystum karfa úr skipinu samkvæmt aflayfirliti Fiskistofu. Afli skipsins hafi allur verið á brettum í lest skipsins sem sé nýlunda frá því um vorið 2003. Væri því einkum um stjórnun tækja að ræða í vinnu við löndun úr skipinu en ekki líkamlega áreynslu við burð á fiskikössum um lestina eins og á öðrum skipum.
Ákvörðun um að skipverjar ynnu við að landa aflanum hafi verið tekin um borð í skipinu en ekki hafi verið um fyrirmæli frá útgerðinni að ræða. Þar sem allur aflinn hafi verið á brettum í lest skipsins hafi verið um tækjavinnu að ræða og einungis 5-6 skipverjar hafi unnið í senn að lönduninni eftir því hvort notaðir voru einn eða tveir lyftarar. Við löndunina hafi verið notaðir lyftarar í lest og híft á krana skipsins svo að ekki hafi þurft á tækjum úr landi að halda. Vöktum hafi ekki verið slitið og vakthafandi menn unnið við löndun á vakt sinni auk skipverja sem hafi verið að fara í frí og koma úr fríi. Á skipinu séu nánast tvær áhafnir þar sem flestir skipverja séu í fríi aðra hverja veiðiferð í stað þriðju eða fjórðu hverja veiðiferð samkvæmt gr. 5.26. og 5.14. í kjarasamningi aðila. Hver veiðiferð geti verið allt að 40 dagar samkvæmt gr. 5.26. en umrædd veiðiferð hafi staðið frá 3. júní til 8. júlí. Þann 8. júlí hafi áhöfnin farið flugleiðis til Akureyrar til að taka heimahafnarfrí samkvæmt kjarasamningi og farið aftur á sjó þann 12. júlí. Skipverjar og útgerð skipti með sér söluverði aflans og ráðist því launatekjur skipverja af verðmæti þess sem þeir draga úr sjó. Það sé því ótvíræður hagur þeirra að eyða sem minnstum tíma í höfn og vera á sjó þegar veiðivon er og að aflinn sé sem mestur. Aflayfirlit sýni að skipið hafi komið hálfum mánuði seinna með enn meiri afla eða rösklega 500 tonn af frystum karfa.
Stefndi byggi sýknukröfu á því að útgerðin hafi ekki brotið gegn ákvæðum gr. 5.13. í kjarasamningi. Mótmælt sé sem röngum og ósönnuðum fullyrðingum í stefnu um að skipstjóra og stýrimönnum skipsins hafi verið skipað að landa afla skipsins í Reykjavíkurhöfn umræddan dag. Hafi skipstjórinn og áhöfn hans ákveðið það. Hefði skipið hins vegar landað aflanum á Akureyri mætti búast við því að skipverjar hefðu frekar kosið að skreppa heim til sín og hitta fjölskylduna á meðan á löndun stóð þar sem þeir eigi samkvæmt kjarasamningi rétt á fríi við löndun. Til viðbótar við aflahlut hafi stefndi greitt skipshöfninni samtals 423.000 krónur fyrir löndunina í stað þess að kaupa vinnuna af aðilum í landi. Þá skipti vilji skipverja máli en ekkert liggi fyrir um það að mál þetta sé höfðað með vilja og í umboði félagsmanna stefnanda.
Stefndi byggir lækkunarkröfu sína á því að gr. 1.54. tilgreini hámarksfjárhæð og verði því að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hversu alvarlegt brot sé. Verði þar tekið tillit til þess að það geti vart talist alvarlegt brot útgerðarmanns á kjarasamningi þegar skipverjarnir ákveða sjálfir eða eru samþykkir því að flýta fyrir og landa úr skipinu til að komast sem fyrst á veiðar aftur. Hvað þá ef þeir hafa sjálfir tekið þá ákvörðun eða átt þátt í henni.
Niðurstaða:
Auk kröfu um að stefndi verði dæmdur til greiðslu févítis krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða dráttarvexti af févítinu frá 18. júní 2003 til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Ákvörðun um vexti á ekki undir valdsvið Félagsdóms eins og það er markað samkvæmt 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með áorðnum breytingum. Ber því að vísa þessum þætti í kröfugerð stefnanda sjálfkrafa frá dómi. Að öðru leyti fellur sakarefnið undir valdsvið dómsins samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.
Í málinu er um það deilt hvort vinna tilgreindra félagsmanna stefnanda, Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga, við þá löndun úr skipi stefnda, Samherja hf., Baldvin Þorsteinssyni EA-10, sem fram fór í Reykjavíkurhöfn 18. júní 2003, hafi falið í sér brot á því ákvæði kjarasamnings aðila sem kveður á um að yfirmenn skuli eiga frí við löndun. Stefnandi telur að svo sé og vísar til samningsákvæða þar að lútandi er séu skyldubundin og ófrávíkjanleg. Af hálfu stefnda er því á hinn bóginn haldið fram að engu broti á ákvæðum kjarasamnings hafi verið fyrir að fara enda hafi áhöfnin tekið að sér löndun gegn greiðslu samkvæmt eigin ákvörðun án fyrirmæla útgerðar þar um en það hafi skipverjum verið fyllilega heimilt.
Það skip hins stefnda útgerðarfélags, sem hér um ræðir, er frystitogari og hafði verið á karfaveiðum. Umrætt sinn var landað úr skipinu frystum karfa, djúpkarfa og úthafskarfa og var um svonefnda „millilöndun” að ræða en í því tilviki rýfur löndun ekki veiðiferð. Fram er komið að um nýlundu var að ræða við löndunina þar sem áður hafði verið gengið frá aflanum á bretti í lest skipsins.
Í gr. 5.13. í kjarasamningi aðila er mælt svo fyrir að á togurum skuli yfirmenn hafa frí við löndun. Í þeim kafla kjarasamningsins (5.2.), sem fjallar um frystitogara, er ekki mælt sérstaklega fyrir um frí skipverja við löndun en í gr. 5.28. er um gildissvið tekið fram að um frystitogara gildi öll ákvæði almennra bátakjarasamninga eins og við eigi um togara. Samkvæmt þessu verður að telja að greint ákvæði gr. 5.13. um frí við löndun gildi í greindu tilviki og verður ekki séð að um það sé ágreiningur. Að virtu orðalagi ákvæðisins og samanburði við önnur ákvæði kjarasamningins, sem kveða á um frí við löndun, verður og að telja að um sé að ræða skyldubundið og ófrávíkjanlegt ákvæði. Er það útgerðar skipsins að sjá til þess að ákvæði þetta sé virt. Samkvæmt því er fallist á með stefnanda að stefndi, Samherji hf., hafi brotið gegn þessu ákvæði kjarasamningsins greint sinn. Af því leiðir að dæma ber stefnda, Samherja hf., til greiðslu sektar samkvæmt gr. 1.54. í kjarasamningi aðila er renni í félagssjóð Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga.
Ekki er um tölulegan ágreining um fjárhæð sektar að ræða með aðilum. Stefndi hefur á hinn bóginn krafist lækkunar hennar á þeim grundvelli að vega verði og meta í hverju tilviki fyrir sig hversu alvarlegt brot sé. Verði þar tekið tillit til þess að það geti vart talist alvarlegt brot útgerðarmanns á kjarasamningi þegar skipverjarnir ákveða sjálfir eða eru samþykkir því að flýta fyrir og landa úr skipinu til að komast sem fyrst á veiðar aftur hvað þá ef þeir hafa sjálfir tekið þá ákvörðun eða átt þátt í henni. Að mati dómsins þykja ekki vera næg efni til að verða við lækkunarkröfu stefnda. Verður hann því dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð sem krafist er.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.
Dómsorð:
Stefndi, Samherji hf., braut gegn ákvæði gr. 5.13. í kjarasamningi milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna.
Stefndi, Samherji hf. greiði 362.944 krónur í sekt, er renni í félagssjóð Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga, en kröfu um dráttarvexti er vísað sjálfkrafa frá dómi.
Stefndi, Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Samherja hf., greiði stefnanda, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, fyrir hönd Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga, 100.000 krónur í málskostnað.
Helgi I. Jónsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Gunnar Sæmundsson
Sératkvæði Valgeirs Pálssonar
Ég er sammála niðurstöðu meiri hluta dómenda um annað en ákvörðun févítis.
Í umræddri löndun úr Baldvini Þorsteinssyni EA-10 þann 18. júní 2003 var beitt nýjum aðferðum við löndunina. Fólust þær einkum í því að aflanum hafði verið raðað á bretti og plast sett yfir hvert bretti. Til að koma brettunum frá borði var notaður tækjabúnaður sem tilheyrði skipinu, svo sem lyftarar í lest og skipskrani. Markmið með þessari breyttu löndunaraðferð mun einkum hafa verið að gera vinnuna léttari jafnframt því að stytta þann tíma sem löndunin tók. Áhöfn skipsins hafði tekið þátt í þessu verkefni, m.a. við frágang aflans um borð, og mun hafa verið fjölgað í áhöfninni af þeim sökum. Verður að telja eðlilegt að áhöfnin hafi unnið við löndunina, að minnsta kosti í fyrstu meðan verið var að reyna hina nýju löndunaraðferð. Í málinu liggur ekki annað fyrir en félagsmenn stefnanda í áhöfn skipsins hafi samþykkt fyrir sitt leyti að vinna við löndunina umrætt sinn og fengið greitt fyrir það sérstaklega úr hendi útgerðarinnar.
Þótt félagsmönnum stefnanda í skipshöfninni hafi borið að vera í fríi við löndunina skv. grein 5.13, sbr. grein 5.28, í kjarasamningi aðila, verður við ákvörðun févítis að horfa til þeirra sérstöku aðstæðna sem hér að framan hefur verið lýst. Í grein 1.54 í kjarasamningnum segir að brot gegn samningi þessum varði sektum (svo) allt að 300.057 krónum er renni í félagssjóð viðkomandi félags og skuli upphæðin hækka í hlutfalli við kaupgjaldsákvæði samningsins. Verður að telja rétt að víkja hér að nokkru frá því hámarki sem tilgreint er í ákvæði þessu að viðbættri hækkun sem stefnandi telur að til hafi fallið og hefur ekki sætt sérstökum mótmælum af hálfu stefnda.
Að öllu virtu tel ég rétt að Samherja hf. verði gert að greiða í máli þessu févíti að upphæð 150.000 krónur.
Valgeir Pálsson.