Mál nr. 12/2003: Úrskurður frá 10. febrúar 2004
Ár 2004, þriðjudaginn 10. febrúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 12/2003.
Alþýðusamband Íslands f.h.
Samiðnar- sambands iðnfélaga vegna
Félags málmiðnaðarmanna Akureyri
(Friðrik Á. Hermannsson, hdl.)
gegn
Samtökum atvinnulífsins vegna
Slippstöðvarinnar ehf.
(Jón H. Magnússon hdl.)
kveðinn upp svofelldur
ú r s k u r ð u r:
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.
Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Sætúni 1, Reykjavík, f.h. Samiðnar- sambands iðnfélaga, kt. 650593-2009, Borgartúni 30, Reykjavík, vegna Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, kt. 541080-0669, Skipagötu 14, Akureyri.
Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík vegna Slippstöðvarinnar ehf., kt. 430801-2440, Hjalteyrargötu 20, Akureyri.
Dómkröfur stefnanda
Að viðurkennt verði að þeir félagsmenn Félags málmiðnaðarmanna Akureyri sem starfa hjá Slippstöðinni ehf., Hjalteyrargötu 20, Akureyri og taka laun í dagvinnu í samræmi við þá kauptaxta sem gilda um iðnaðarmenn eftir 10 ára starf með 4% persónuppbót, samkvæmt ákvæðum kjarasamnings milli Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, Félags byggingamanna Eyjafirði, Rafvirkjafélags Norðurlands, Einingar-Iðju og Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri, annars vegar og Stáltaks hf. hins vegar, sem undirritaður var á Akureyri 12. maí 2000, skuli njóta launa að fjárhæð 1.023,00 kr. fyrir hverja unna klukkustund í dagvinnu frá 1. janúar 2003, þar til samningurinn rennur út 31. janúar 2004.
Að Samtök atvinnulífsins, vegna Slippstöðvarinnar ehf., greiði stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda
1. Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
2. Að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Málavextir
Samtök atvinnulífsins, annars vegar, og Samiðn- samband iðnfélaga, f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju, hins vegar, undirrituðu kjarasamning 15. apríl 2000. Sérkjarasamningur var gerður um kaup og kjör starfsmanna hjá Stáltaki hf. á Akureyri milli Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri og fjögurra annarra stéttarfélaga annars vegar og Stáltaks hf. hins vegar, 12. maí 2000.
Bæði í aðalkjarasamningi og sérkjarasamningi er að finna ákvæði um fyrirtækjasamninga, en slíkir samningar eru skilgreindir svo í ákvæði 1. mgr. greinar 17.1. í sérkjarasamningnum: Fyrirtækjasamningur (vinnustaðasamningur), í skilningi þessa kafla, er samningur milli fyrirtækis og starfsmanna, allra eða tiltekins hluta, um aðlögun kjarasamnings að þörfum vinnustaðarins.
Þann 11. júlí 2000 var gerður fyrirtækjasamningur milli iðnaðarmanna Stáltaks hf. á Akureyri og fyrirtækisins með yfirskriftinni: “Samkomulag um vinnureglur, álög og kauptaxta milli Stáltaks hf. og iðnaðarmanna á Akureyri.“ Sama dag gaf þáverandi forstjóri Stáltaks hf., Valgeir Hallvarðsson, skriflega yfirlýsingu sem er svohljóðandi :
“Það staðfestist hér með að frá og með 1. janúar 2003 verða laun og kjör iðnaðarmanna fyrirtækisins í Reykjavík og á Akureyri að fullu samræmd.”
Slippstöðin ehf. yfirtók rekstur Stáltaks hf. á Akureyri um mánaðamótin ágúst/september 2001. Starfsmönnum Slippstöðvarinnar ehf. voru áfram greidd laun á grundvelli sérkjarasamningsins frá 12. maí 2000. Talsmenn Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri hafa óskað eftir því við fyrirsvarsmenn Slippstöðvarinnar ehf. að gengið verði frá samkomulagi milli aðila um breytt launakjör þeirra félagsmanna stefnanda sem starfað hafa hjá Slippstöðinni ehf. eftir 1. janúar 2003 í samræmi við fyrrgreinda yfirlýsingu framkvæmdastjóra Stáltaks hf. Þær kröfur voru ítrekaðar í bréfi lögmanns félagsins, dags. 10. júlí 2003. Með bréfi lögmanns Slippstöðvarinnar ehf., dags. 12. ágúst 2003, var kröfum félagsins hafnað.
Með bréfi lögmanns Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, dags. 8. september 2003, var lögmanni Slippstöðvarinnar ehf. tilkynnt um fyrirhugaða málshöfðun félagsins fyrir Félagsdómi. Málið var þingfest fyrir Félagsdómi 30. október 2003.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst byggja á eftirfarandi málsástæðum:
Ágreiningur málsaðila snúist í fyrsta lagi um það hvort yfirlýsing framkvæmdastjóra Stáltaks hf. frá 11. júlí 2000 geti talist bindandi fyrir Slippstöðina ehf., hvort í yfirlýsingunni felist loforð um samræmingu á launatöxtum starfsmanna Stáltaks hf. á Akureyri (Nú Slippstöðin ehf.) og launatöxtum starfsmanna Stáltaks hf. í Reykjavík. Í öðru lagi virðist vera ágreiningur um tengsl umræddrar yfirlýsingar við kjarasamninga aðila og í þriðja lagi virðist vera um það ágreiningur hvort mál þetta geti átt heima fyrir Félagsdómi.
Í yfirlýsingu framkvæmdastjóra Stáltaks hf. frá 11. júlí 2000 segi orðrétt: “Það staðfestist hér með að frá og með 1. janúar 2003 verða laun og kjör iðnaðarmanna fyrirtækisins í Reykjavík og á Akureyri að fullu samræmd.” Yfirlýsingin hafi verið gefin út af því tilefni að þeir félagsmenn Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, sem störfuðu hjá Stáltaki hf., hafi verið tregir til að samþykkja fyrirtækjasamning þann sem lagður hefur verið fram í málinu og ber yfirskriftina “Samkomulag um vinnureglur, álög og kauptaxta milli Stáltaks h/f og iðnaðarmanna á Akureyri.” Að mati starfsmannanna fól yfirlýsing framkvæmdastjóra Stáltaks hf. í sér loforð um töluverða hækkun á tímakaupi þeirra hjá fyrirtækinu frá og með 1. janúar 2003 enda var tímakaup vegna sambærilegra starfa iðnaðarmanna Stáltaks hf. í Reykjavík mun hærra en á Akureyri, sbr. vinnustaðasamning við starfsmenn í málm- og tréiðnaði hjá Stáltaki hf. í Reykjavík, sem undirritaður var í Reykjavík 11. febrúar 2000.
Með yfirtöku Slippstöðvarinnar ehf. á rekstri Stáltaks hf. á Akureyri, hafi Slippstöðin ehf. jafnframt yfirtekið skuldbindingar Stáltaks hf. gagnvart Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri og þeim félagsmönnum þess sem störfuðu hjá Stáltaki hf. Slippstöðin ehf. sé með öðrum orðum bundin við yfirlýsingu framkvæmdastjóra Stáltaks hf. frá 11. júlí 2000.
Yfirlýsingin frá 11. júlí 2000 sé gefin út í tilefni af viðræðum Félags málmiðnaðarmanna Akureyri við Stáltak hf. um vinnureglur, álög og kauptaxta milli Stáltaks h/f og iðnaðarmanna á Akureyri. Eftir að yfirlýsingin var gefin út hafi sú samninganefnd sem fór með málið f.h. starfsmanna Stáltaks hf. á Akureyri undirritað samkomulag um vinnureglur, álög og kauptaxta milli Stáltaks h/f og iðnaðarmanna á Akureyri. Umrædd yfirlýsing sé því hluti af samkomulaginu og bindandi fyrir Slippstöðina ehf.
Samkomulagið um vinnureglur, álög og kauptaxta milli Stáltaks h/f og iðnaðarmanna á Akureyri sé hluti af kjarasamningi milli Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, Félags byggingamanna Eyjafirði, Rafvirkjafélags Norðurlands, Einingar-Iðju og Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri, sbr. dskj. nr. 4. Í því sambandi er vísað til þess að í 13. kafla fyrirtækjasamningsins segi orðrétt: “Samkomulag þetta gildir frá 17. júlí 2000 og er gildistími ótímabundinn. Að ári liðnu frá gildistöku getur hvor aðili farið fram á endurskoðun. Að öðru leiti (sic) gildir gr. 17.9 í kjarasamningi Stáltaks við starfsmenn á Akureyri dags. 12. maí 2000. Þá segi í grein 17.1. í kjarasamningi aðila um framangreindan fyrirtækjasamning:
“Fyrirtækjasamningur (vinnustaðasamningur), í skilningi þessa kafla, er samningur milli fyrirtækis og starfsmanna, allra eða tiltekins hluta, um aðlögun kjarasamnings að þörfum vinnustaðarins. - Fyrirtækjasamningur, sem gerður er á grundvelli þessa kafla, er ekki kjarasamningur enda eru samtök atvinnurekenda og stéttarfélög ekki samningsaðilar. Um aðkomu þessara aðila að samningsgerðinni vísast til gr. 17.4.”
Í grein 17.2. í kjarasamningnum segir að markmið fyrirtækjasamninga sé að efla samstarf starfsfólks og stjórnenda á vinnustað með það fyrir augum að skapa forsendur fyrir bættum kjörum starfsfólks með aukinni framleiðni. Síðan segi orðrétt:
“Markmiðið sé að þróa kjarasamninga þannig að þeir nýtist báðum aðilum til aukins ávinnings. M.a. er stefnt að styttri vinnutíma með sömu eða meiri framleiðslu. Við það skal ávallt miðað að skilgreindur ávinningur skiptist milli starfsmanna og fyrirtækis eftir skýrum forsendum.”
Í grein 17.3. segir meðal annars að viðræður um fyrirtækjasamning skuli fara fram undir friðarskyldu almennra kjarasamninga og teknar upp með samkomulagi beggja aðila. Þá eigi að koma skriflega fram til hverra samningnum sé ætlað að ná. Síðan segir orðrétt:
“Að jafnaði taki fyrirtækjasamningur til allra starfsmanna sem kjarasamningar hlutaðeigandi félaga taka til. Heimilt er þó að gera sérstaka samninga á einstökum afmörkuðum vinnustöðum, sé um það samkomulag. - Þegar viðræður hafa verið ákveðnar er það tilkynnt hlutaðeigandi verkalýðsfélögum og Samtökum atvinnulífsins.”
Í grein 17.7. séu tilgreind þau atriði sem semja megi um í fyrirtækjasamningi en í niðurlagi greinarinnar segi orðrétt: “Heimilt er með samþykki viðkomandi stéttarfélags og SA að semja um önnur frávik frá kjarasamningi en hér að ofan greinir. Þá segir í 1. mgr. greinar 17.8.: Takist samkomulag um aðlögun ákvæða kjarasamnings að þörfum fyrirtækis eða önnur frávik frá vinnuskipulagi, sem samkomulag hefur verið gert um, skal jafnframt samið um hlutdeild starfsmanna í þeim ávinningi sem fyrirtækið hefur af breytingum. Í niðurlagi kjarasamningsins er svo meðal annars að finna bókun með kjarasamningi Stáltaks við Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Einingu-Iðju, Rafvirkjafélags Norðurlands, Félag byggingamanna Eyjafirði og Félag verslunar- og skrifstofufólks, dags. 12. maí 2000, sem hljóðar svo:
“Aðilar samningsins eru sammála um að þar til gerður hefur verið samningur um fyrirtækjaþátt kjarasamnings við iðnaðarmenn gilda kaflar 7.3. og 7.4. um verkfæri í kjarasamningi sömu aðila dags. 24. september 1997. Ákvæði þetta fellur þó úr gildi þann 30. september 2000 hafi ekki verið samið um fyrirtækjaþátt kjarasamnings fyrir þann tíma.”
Framangreindar tilvitnanir beri allar með sér að fyrirtækjaþáttur kjarasamningsins sé hluti af kjarasamningnum. Yfirlýsing framkvæmdastjórans sé hluti af fyrirtækjaþætti kjarasamningsins og þar með hluti af sjálfum kjarasamningnum. Túlka verði tilvitnað ákvæði í grein 17.1. í kjarasamningnum: “Fyrirtækjasamningur, sem gerður er á grundvelli þessa kafla, er ekki kjarasamningur enda eru samtök atvinnurekenda og stéttarfélög ekki samningsaðilar”, með hliðsjón af öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Fyrirtækjaþáttur kjarasamningsins sé að sjálfsögðu ekki kjarasamningur en engu að síður hluti af kjarasamningnum, sbr. t.d. eftirfarandi orðalag í 1. mgr. greinar 17.1. í kjarasamningnum um fyrirtækjaþátt kjarasamningsins: “aðlögun kjarasamnings að þörfum vinnustaðarins”, eftirfarandi orðalag í ákvæði greinar 17.2. í kjarasamningnum: “Markmiðið er að þróa kjarasamninga þannig að þeir nýtist báðum aðilum til aukins ávinnings”, eftirfarandi orðalag í grein 17.3.: “Þegar viðræður hafa verið ákveðnar er það tilkynnt hlutaðeigandi verkalýðsfélögum og Samtökum atvinnulífsins” og bókun sem finna má í niðurlagi kjarasamningsins þar sem talað er um “fyrirtækjaþátt kjarasamnings við iðnaðarmenn”.
Samkvæmt framansögðu verði að telja fyrirtækjaþátt kjarasamningsins og yfirlýsingu framkvæmdastjóra Stáltaks hf. órjúfanlegan hluta kjarasamningsins. Samkvæmt því hafi þeir iðnaðarmenn hjá Slippstöðinni ehf. sem unnið höfðu í fyrirtækinu í 10 ár og nutu 4% persónuuppbótar átt að njóta sömu daglauna og þeir iðnaðarmenn sem eins var ástatt um hjá Stáltaki hf. í Reykjavík en forsendur fyrir slíkum samanburði séu fyrir hendi, sbr. vinnustaðasamning við starfsmenn í málm- og tréiðnaði hjá Stáltaki hf. í Reykjavík. Breyti hér engu um niðurstöðu málsins að starfseminni hafi verið hætt í Reykjavík enda sé með einföldum hætti unnt að framreikna laun starfsmannanna í Reykjavík til 01.01.2003 og bera þau saman við laun starfsmannanna á Akureyri.
Á bls. 6 í vinnustaðasamningnum sé að finna launatöflu Stáltaks hf. vegna iðnaðarmanna í Reykjavík. Þar komi fram að 11.02.2000 hafi laun iðnaðarmanns, eftir fjögurra ára nám og 10 ára starfstíma miðað við 4% hæfnismat, numið 898,38 kr. fyrir hverja klukkustund í dagvinnu. Í ákvæði greinar 1.1.2. í aðalkjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar megi sjá að umrædd laun hafi hækkað um 3,9% frá og með undirskriftardegi samningsins, 15.04.2000 og hafi því umrætt dagvinnukaup numið 933,00 kr. frá þeim degi. Samkvæmt ákvæði í sömu grein í aðalkjarasamningnum hafi launin hækkað um 3% 01.01.2001 eða í 961,00 kr. og aftur um 3% 01.01.2002 eða í 990,00 kr. Samkvæmt samningnum hafi launin átt að hækka enn og aftur um 3% 01.01.2003 en samkomulag hafi náðst á milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um að hækkunin næmi 3,4% þar sem verðbólgumarkmið ríkisstjórnarinnar höfðu brugðist á samningstímanum. Í stað þess að samningar yrðu lausir hafi verið samið um framangreinda 0,4% aukahækkun 01.01.2003. Umrædd dagvinnulaun hafi því hækkað úr 990,00 kr. í 1.023,00 kr. og myndi sú fjárhæð viðurkenningarkröfu þessa máls.
Í málinu séu lagðir fram launaseðlar Jónasar Jónssonar, kt. 211266-5629, Vestursíðu 4c, Akureyri, félagsmanns Félags málmiðnaðarmanna Akureyri og starfsmanns Slippstöðvarinnar ehf. á Akureyri. Starfsmaður þessi falli undir flokk þeirra iðnaðarmanna sem starfað hafa í 10 ár eða lengur og njóti 4% persónuuppbótar. Eins og sjá megi af launaseðlunum nemi laun hans í dagvinnu 972,39 kr. pr. klst. og hafi svo verið frá 01.01.2003. Mismunur launa pr. dagvinnu klst., ef borin séu saman þau laun sem starfsmenn í sömu stöðu hefðu haft hjá Stáltaki hf. í Reykjavík frá 01.01.2003, nemi því 50,61 kr. og hafi því Félag málmiðnaðarmanna töluverða hagsmuni af því að ná viðurkenningarkröfu sinni fram fyrir hönd félagsmanna sinna á hendur Slippstöðinni ehf. Mismunur á launum einstakra starfsmanna miðað við túlkun talsmanna stefnanda annars vegar og talsmanna stefnda hins vegar geti því munað um 100.000,00 kr. á ári.
Eins og að framan greinir sé yfirlýsing sú sem sé grundvöllur krafna Félags málmiðnaðarmanna fyrir hönd þeirra félagsmanna sinna sem starfa hjá Slippstöðinni ehf. órjúfanlegur hluti af aðalkjarasamningi aðila, sérkjarasamningi og fyrirtækjaþætti kjarasamnings. Einstökum félagsmönnum Félags málmiðnaðarmanna sé ekki kleift að höfða mál á hendur Slippstöðinni ehf. með kröfu um hærri laun enda varði yfirlýsingin alla þá starfsmenn Félags málmiðnaðarmanna sem starfa hjá Slippstöðinni ehf. á Akureyri. Til að knýja fram úrlausn málsins þurfi að túlka ákvæði kjarasamnings, sérkjarasamnings og fyrirtækjaþátts kjarasamninga til að unnt sé að komast að niðurstöðu í málinu. Niðurstaða af þeim toga kæmi til með að binda aðra starfsmenn Slippstöðvarinnar ehf. á Akureyri og aðila vinnumarkaðarins. Eðli málsins samkvæmt yrði slíku máli vísað frá dómi, ef einstakir starfsmenn hygðu á málshöfðun fyrir hinum almennu dómstólum, sbr. Hrd. 1998:1272 en þar segir orðrétt í niðurstöðu héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna:
“Um kaup og kjör stefnanda fer eftir gildandi kjarasamningi. Framangreind ákvæði í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og stefnda um samræmingu við laun vélfræðinga hjá Áburðarverksmiðjunni veita félaginu rétt til að láta fara fram athuganir og samanburð á launakjörum félagsmanna sinna, sem vinna hjá Landsvirkjun og Áburðarverksmiðjunni, og krefjast lagfæringa, ef eitthvað þykir skorta á um samræmingu, en einstakir starfsmenn stefnda hafa ekki þann rétt.”
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eru stéttarfélög lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Yfirlýsing framkvæmdastjórans sé gefin út í tilefni af undirritun fyrirtækjaþátts kjarasamnings aðila en fyrirtækjaþátturinn eigi rætur sínar að rekja til ákvæða í aðalkjarasamningi aðila og sérkjarasamningi. Framsal til samningsgerðar launþega í kjarasamningum girði ekki fyrir afskipti viðkomandi stéttarfélags af samningsgerðinni enda eigi slík samningsgerð rætur að rekja til ákvæða í kjarasamningi sem tilgreini tilteknar reglur sem samningsaðilar eigi að fylgja við sjálfa samningsgerðina. Ef formreglum kjarasamnings um gerð fyrirtækjaþátts kjarasamnings sé fylgt teljist fyrirtækjaþáttur kjarasamnings gildur. Komi upp ágreiningur um túlkun samningsins sé það einungis á færi viðkomandi stéttarfélags að leita úrlausnar en ekki einstakra starfsmanna. Vísast hér til að mynda til ákvæðis 5. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 1. gr. laga nr. 75/1996, þar sem segir að samningsaðilum sé skylt að stuðla að því að félagsmenn þeirra virði gerða kjarasamninga. Þá er vísað til 7. gr. laga nr. 80/1938, þar sem segir að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti sem þeir fari í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann enda hafi félagið ekki samþykkt þá.
Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 falli það undir verksvið Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Verði yfirlýsingin ekki talin hluti af kjarasamningi aðila sé hún í það minnsta hluti af vinnusamningi milli þeirra félagsmanna Félags málmiðnaðarmanna Akureyri sem starfa hjá Slippstöðinni ehf. á Akureyri, annars vegar og hins vegar Slippstöðvarinnar ehf. Framangreint ákvæði, skýrt eftir orðanna hljóðan, hljóti því að fela í sér að unnt sé að leggja ágreininginn um túlkun yfirlýsingarinnar undir Félagsdóm.
Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 reka sambönd verkalýðsfélaga og atvinnurekendafélaga mál fyrir hönd félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi. Félag málmiðnaðarmanna Akureyri eigi aðild að Samiðn- sambandi iðnfélaga en Samiðn eigi aðild að Alþýðusambandi Íslands. Slippstöðin ehf. á beina aðild að Samtökum atvinnulífsins. Sé máli þessu því réttilega stefnt fyrir Félagsdóm af hálfu Alþýðusambands Íslands, fyrir hönd Samiðnar- sambands iðnfélaga, vegna Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, gegn Samtökum atvinnulífsins vegna Slippstöðvarinnar ehf.
Stefnandi kveðst aðallega byggja á ákvæðum kjarasamnings milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Samiðnar - sambands iðnfélaga f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju hins vegar, með gildistíma frá 15.04.2000 til 31.01.2004, ákvæðum kjarasamnings um kaup og kjör starfsmanna hjá Stáltaki hf. á Akureyri, dags. 12.05.00, samkomulagi um vinnureglur, álög og kauptaxta milli Stáltaks hf. og iðnaðarmanna á Akureyri sem undirritað var á Akureyri 11.07.00, yfirlýsingu framkvæmdastjóra Stáltaks hf. á Akureyri frá 11.07.00 og vinnustaðasamningi við starfsmenn í málm- og tréiðnaði hjá Stáltaki hf. í Reykjavík sem undirritaður var í Reykjavík 11.02.00. Þá kveðst stefnandi byggja á 5., 7., 44. og 45. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur ásamt síðari breytingum og Hrd. 1998:1272. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. EML nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda
Um formhlið málsins
Í stefnu komi fram að stefnandi byggir viðurkenningarkröfu um launahækkun á yfirlýsingu, sem forstjóri Stáltaks hf. gaf sama dag og sérstakur fyrirtækjasamningur var undirritaður milli starfsmanna og fyrirtækisins Stáltaks hf. þann 11. júlí 2000. Fyrirtækjasamningur þessi hafi ekki verið kjarasamningur, heldur byggði hann á heimild í 17. kafla kjarasamnings aðila frá 12. maí 2000. Hugtakið fyrirtækjasamningur sé skilgreint í gr. 17.1. í kjarasamningi aðila og þar komi skýrt fram að fyrirtækjasamningur sé ekki kjarasamningur, heldur samningur um aðlögun kjarasamnings að þörfum vinnustaðarins. Hvorki stéttarfélög né samtök vinnuveitanda séu aðilar að fyrirtækjasamningi, heldur einungis starfsmenn og fyrirtækið sjálft. Stefnanda sé fyllilega ljóst að fyrirtækjasamningur sé ekki kjarasamningur en málatilbúnaður hans felist í því að segja að fyrirtækjasamningur við starfsmenn sé “hluti af kjarasamningi” aðila frá 12. maí 2000. Samkvæmt 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938 sé það einungis hlutverk Félagsdóms að túlka efni og gildi kjarasamninga, en kjarasamningur sé skilgreindur í 6. gr. laganna, sem skriflegur samningur þar sem stéttarfélag/stéttarfélög séu samningsaðilar. Málsókn fyrir Félagsdómi vegna yfirlýsingar forstjóra Stáltaks frá 11. júlí 2000 verði ekki heldur byggð á 5. gr. laga nr. nr. 80/1938. Stefnandi hafi enga aðild átt að yfirlýsingu forstjórans, sem gefinn var beint til starfsmanna Stáltaks hf. á Akureyri í tengslum við undirritun fyrirtækjasamnings við starfsmenn, og eftir að kjarasamningur stefnanda og stefnda frá 12. maí 2000 hafði tekið gildi. Stefnandi gat hins vegar höfðað mál f.h. félagsmanna sinna fyrir almennum dómstólum á grundvelli 3. tl. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. Hrd. frá 9. október 2003, málið nr. 46/2003.
Með viðurkenningarkröfu sinni sé stefnandi að biðja Félagsdóm að kveða upp efnisdóm sem sé í samræmi við tillögur hans um hvernig “samræma” skuli launakjör samkvæmt tvennum ólíkum fyrirtækjasamningum Stáltaks hf. sem gerðir voru árið 2000, á Akureyri annars vegar og í Reykjavík hins vegar. Samræming á launum og öðrum kjörum samkvæmt ólíkum samningum, eins og fólst í yfirlýsingu forstjóra Stáltaks, sé í eðli sínu “samningamál”. Ólík og ósamræmanleg launakjör verði ekki samræmd nema með samkomulagi milli aðila. Annar aðili í kjaradeilu geti ekki einhliða ákveðið niðurstöðu og forsendur slíkrar samræmingar, eins og felist í viðurkenningarkröfu stefnanda. Milli aðila sé hagsmunaágreiningur um það hvernig framkvæma skuli samræmingu á launakjörum. Það sé ekki hlutverk dómstóla að leggja mat á og samræma ólík samningsákvæði og ráðningarkjör, heldur úrskurði dómstólar um réttarágreining en ekki hagsmunaágreining. Slík matskennd samræmingarstörf geti hins vegar orðið verkefni lögbundins eða samningsbundins gerðardóms, sbr. gr. 17.11. í kjarasamningi um meðferð ágreinings vegna fyrirtækjasamnings. Kröfugerð og málatilbúnaður stefnda sé ekki í samræmi við 24. gr. og 80. gr. laga nr. 91/1991 um sakarefni sem lögð verði fyrir dómstóla til úrlausnar og um gerð stefna. Stefndi telur því að dómurinn eigi að taka það til sérstakrar athugunar hvort ekki beri að vísa þessu máli ex officio frá dómi, sbr. 100. gr. fyrrnefndra laga.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi hvorki brotið gegn ákvæðum kjarasamnings SA vegna Stáltaks hf. á Akureyri frá 12. maí 2000, fyrirtækjasamningi við starfsmenn frá 11. júlí s.á. né yfirlýsingu forstjóra frá 11. júlí 2000. Um árabil hafi verið í gildi sérstakur kjarasamningur milli stefnda og 5 stéttarfélaga starfsmanna á Akureyri og hann hafi verið endurnýjaður þann 12. maí 2000. Með samþykki kjarasamningsins frá 12. maí 2000 hafi stofnast friðarskylda milli aðila hans. Heildarkjarasamingur Samiðnar við SA frá 15. apríl 2000 hafi ekki bundið enda á kjaradeilu hjá Stáltaki hf. á Akureyri og hafi framlagning þess kjarasamnings enga þýðingu í málinu.
Yfirlýsing forstjóra Stáltaks frá 11. júlí 2000, sem fullyrt sé að Slippstöðin ehf. hafi vanefnt, hafi ekki verið hluti af hinum undirritaða kjarasamningi frá 12. maí 2000, eins og ljóst sé af kjarasamningnum sjálfum og yfirlýsingum og bókunum sem honum fylgdu. Með kjarasamningnum frá 12. maí 2000, hafi fylgt sérstök yfirlýsing, þar sem fyrirtækið hafi lofað að skerða ekki 10% yfirborgun á launataxta í væntanlegum viðræðum starfsmanna um fyrirtækjasamninginn. Yfirlýsing forstjóra frá 11. júlí 2000 hafi þannig fráleitt verið hluti af kjarasamningnum frá 12. maí 2000. Hún hafi verið gefin út einhliða af forstjóra til iðnaðarmanna á Akureyri í tengslum við undirritun fyrirtækjasamningsins við starfsmenn tveimur mánuðum síðar, löngu eftir að friðarskylda samkvæmt kjarasamningi frá 12. maí s.á. hafði stofnast, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938.
Yfirlýsing þáverandi forstjóra frá 11. júlí 2000 hafi byggst á því að samræma skyldi launakjör starfsmanna Stáltaks hf. í Reykjavík og á Akureyri. Það hafi verið töluvert hagsmunamál fyrir Stáltak árið 2000 að samræma launakostnað innan fyrirtækisins. Launataxtar og röðun í launaflokka og önnur kjör s.s. tímaskriftir og vinnutími, mötuneytiskostnaður o.fl. hafi verið mismunandi á Akureyri og í Reykjavík. Fjölmargir launaliðir hafi verið kostnaðarsamari á Akureyri heldur en í Reykjavík fyrir fyrirtækið Stáltak. Á Akureyri hafi verið fleiri flokkstjórar og taxti ófaglærðra aðstoðarmanna ekki til á kauptaxtaskrá enda höfðu ekki náðst samningar um það á Akureyri. Þetta hafi starfsmenn og fyrirtækið átt að meta og samræma og komast að niðurstöðu fyrir 1. janúar 2003.
Samræma hafi átt heildarlaunakjör iðnaðarmanna innan fyrirtækisins Stáltaks en ekki einungis launataxta þeirra. Ekkert loforð um óskilyrta hækkun launataxta frá 1. janúar 2003 hafi verið gefið til starfsmanna á Akureyri. Þá hefði yfirlýsing forstjórans verið orðuð með öðrum hætti. Óþarfi hafi þá verið að tala um samræmingu launa og annarra kjara iðnaðarmanna og að þau skyldu “að fullu samræmd”.
Eftir að fyrirtækið Stáltak hf. hætti rekstri í Reykjavík sumarið 2001 var reksturinn fluttur til þriggja dótturfélaga, Slippstöðvarinnar ehf. á Akureyri, Kælismiðjunnar Frost ehf., sem yfirtók rekstur kælideildar og Stálsmiðjunnar ehf., sem tók yfir reksturinn í Reykjavík. Þá varð ljóst að forsenda samræmingar vinnu væri ekki lengur fyrir hendi. Þessi dótturfélög hafi verið í 100% eigu Stáltaks á árinu 2001 eða þar til Stálsmiðjan ehf. var seld 11 starfsmönnum um áramótin 2001-2002, sbr. framlagðan kaupsamning.
Slippstöðin á Akureyri ehf. hafi tekið við réttindum og skyldum samkvæmt kjarasamningi og fyrirtækjasamningi. Slippstöðin ehf. hafði hins vegar ekki starfsmenn, útibú og rekstur í Reykjavík ólíkt því sem Stáltak hf. hafði í júlí árið 2000 þegar framangreind yfirlýsing var gefin og tveir ólíkir fyrirtækjasamningar voru gerðir. Forsenda samræmingar hafi því verið brostin og ómögulegt að framkvæma hana. Samræming heildarlaunakjara starfsmanna hafi átt að vera innan fyrirtækis Stáltaks vegna iðnaðarstarfsemi fyrirtækisins í Reykjavík og á Akureyri.
Viðurkenningarkrafa stefnanda sé ekki byggð á raunverulegum launatöxtum hjá Stáltaki hf. í Reykjavík, sem í gildi voru þann 1.1. 2003. Í stefnu komi fram að stefnandi hafi “framreiknað laun starfsmanna Stáltaks í Reykjavík“ með áfangahækkun kjarasamningsins frá árinu 2000. Þessi kröfugerð sé ótrúleg því engir launataxtar hafi verið í gildi hjá Stáltaki í Reykjavík eftir að það hætti starfsemi sumarið 2001 og seldi rekstur Stálsmiðjunnar ehf. um áramótin 2001-2002. Engir raunverulegir launataxtar hafi verið lagðir fram. Engin forsenda sé til að framreikna eldri launataxta sem ekki séu lengur í gildi. Útreikningur stefnanda á nýjum 10 ára launataxta, 1.023 kr., sé þannig hreinn tilbúningur stefnanda. Enginn slíkur launataxti sé í gildi í Reykjavík enda sé engin starfsemi lengur í Reykjavík á vegum stefnda, eins og óumdeilt sé í málinu. Forsendur hafi því verið brostnar fyrir samræmingu launakjara í Reykjavík og á Akureyri. Samkvæmt yfirlýsingunni hafi átt að samræma launakjör allra iðnaðarmanna fyrirtækisins (Stáltaks). Samræming hafi átt að taka til allra launakostnaðarliða fyrirtækisins en ekki einvörðungu mismunandi launataxta eða yfirborgana eftir landssvæðum.
Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991. Málsóknin er að mati stefnda tilefnislaus og málatilbúnaður fái ekki staðist.
Niðurstaða
Mál þetta varðar ágreining um gildi og túlkun yfirlýsingar framkvæmdastjóra Stáltaks hf., dags. 11. júlí 2000, um samræmingu launa og kjara iðnaðarmanna fyrirtækisins í Reykjavík og á Akureyri.
Hinn 15. apríl 2000 var gerður kjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Samiðnar- sambands iðnfélaga, f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju, hins vegar. Með kjarasamningi þessum var síðastgildandi kjarasamningur aðila framlengdur til 31. janúar 2004. Sérstakur samningur um kaup og kjör starfsmanna hjá Stáltaki hf. á Akureyri var undirritaður hinn 12. maí 2000. Með þeim samningi var fyrri kjarasamningur aðila, dags. 24. september 1997, framlengdur til 31. janúar 2004. Samningur þessi var gerður milli Samtaka atvinnulífsins vegna Stáltaks hf. annars vegar og Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, Einingar- Iðju og þriggja annarra stéttarfélaga, hins vegar. Í samningi þessum er að finna sérstakan kafla (XVII. kafla) um fyrirtækjasamninga. Slíkur samningur var síðan gerður hinn 11. júlí 2000 er ber heitið “Samkomulag um vinnureglur, álög og kauptaxta milli Stáltaks hf. og iðnaðarmanna á Akureyri.” Er samningur þessi undirritaður fyrir hönd Stáltaks hf. annars vegar og vegna starfsmanna fyrirtækisins hins vegar.
Óumdeilt er að greind yfirlýsing framkvæmdastjóra Stáltaks hf., sem gefin var sama dag og fyrrnefndur fyrirtækjasamningur var gerður, var forsenda þess að samningar náðust um fyrirtækjasamninginn, enda var hann samþykktur eftir að yfirlýsingin lá fyrir. Samkvæmt þessu verður að virða yfirlýsinguna sem þátt í fyrirtækjasamningnum. Í XVII. kafla, gr. 17.1., í sérkjarasamningi aðila frá 12. maí 2000 er að finna skilgreiningu á hugtakinu fyrirtækjasamningur. Þar segir svo: “Fyrirtækjasamningur (vinnustaðasamningur), í skilningi þessa kafla, er samningur milli fyrirtækis og starfsmanna, allra eða tiltekins hluta, um aðlögun kjarasamnings að þörfum vinnustaðarins. Fyrirtækjasamningur, sem gerður er á grundvelli þessa kafla, er ekki kjarasamningur, enda eru samtök atvinnurekenda og stéttarfélög ekki samningsaðilar?” Sömu skilgreiningu er og að finna í V. kafla gr. 5.1. í aðalkjarasamningi frá 15. apríl 2000. Ekki verður séð að aðilar kjarasamnings frá 12. maí 2000 hafi átt aðild að eða samþykkt umræddan fyrirtækjasamning, sem eingöngu var á milli starfsmanna Stáltaks hf. á Akureyri og fyrirtækisins.
Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á kjarasamningi eða út af ágreiningi um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Ákvæði laga nr. 80/1938 um valdsvið Félagsdóms, sem er sérdómstóll, ber að túlka þröngt. Að þessu athuguðu og með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að málið varði kjarasamning í skilningi greinds ákvæðis 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, sbr. og Fd. X:40. Ber því samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, að vísa málinu frá Félagsdómi án kröfu.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 100.000 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.
Stefnandi, Alþýðusamband Íslands f.h. Samiðnarsambands iðnfélaga vegna Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, greiði stefnda, Samtökum atvinnulífsins vegna Slippstöðvarinnar ehf.,100.000 kr. í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Gunnar Sæmundsson
Valgeir Pálsson