Mál nr. 2/2003: Dómur frá 28. maí 2003
Ár 2003, miðvikudaginn 28. maí, er í Félagsdómi í málinu nr. 2/2003
Alþýðusamband Íslands f.h.
Starfsgreinasambandsins vegna
Verkalýðsfélagsins Hlífar,
Bíliðnafélagsins - Félags blikksmiða,
Félags járniðnaðarmanna,Rafiðnaðarsambandsins vegna
Félags íslenskra rafvirkja og
Félags rafeindavirkja,
Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar og
Matvæla- og veitingasambands Íslands
vegna Félags matreiðslumanna
(Eva B. Helgadóttir hdl.)
gegn
Samtökum atvinnulífsins f.h.
Alcan á Íslandi hf.
(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)
kveðinn upp svofelldur
d ó m u r:
Mál þetta, sem dómtekið var 5. þessa mánaðar, er höfðað 20. janúar 2003.
Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, f.h. Starfsgreinasambandsins, Sætúni 2, Reykjavík, vegna Verkalýðsfélagsins Hlífar, Reykjavíkurvegi 64, Hafnarfirði, Bíliðnafélagsins - Félags blikksmiða, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík, Félags járniðnaðarmanna, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík, Rafiðnaðarsambandsins, Stórhöfða 31, Reykjavík, vegna Félags íslenskra rafvirkja og Félags rafeindavirkja, Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar, Lækjargötu 34d, Hafnarfirði, og Matvæla- og veitingasambands Íslands, Stórhöfða 31, Reykjavík, vegna Félags matreiðslumanna.
Stefndi er Samtök atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Íslenska álfélagsins hf., nú Alcan á Íslandi hf., Straumsvík.
Dómkröfur stefnanda
Að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að skerða sérstakan lífeyri samkvæmt grein 6.2 í kjarasamningi aðila með hliðsjón af starfshlutfalli því sem starfsmaður sinnir við starfslok. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu auk álags er nemi virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda
Gerð er krafa um að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Málavextir
Ákvæði í gr. 6.2 í kjarasamningi Íslenska álfélagsins (ISAL), nú Alcan á Íslandi, stefnda í máli þessu, og hlutaðeigandi verkalýðsfélaga á rætur að rekja til samnings aðila frá árinu 1989 þar sem fjallað var um þá hugmynd að ISAL greiddi starfsmönnum, sem náð hafa 67 ára aldri, sérstakan lífeyri til að auðvelda þeim starfslok.
Í 1.mgr. greinar 6.2 segir meðal annars svo:
„Almennir starfsmenn ISAL sem orðnir eru 67 ára og hafa starfað hjá fyrirtækinu í 10 ár eða lengur eiga rétt á að sækja um sérstakan lífeyri sem geti gilt þar til viðkomandi nær 70 ára aldri.”
Miðað var við að hinn sérstaki lífeyrir gæti numið allt að 50% af verðmæti fyrri launa þegar tillit hefur verið tekið til skattgreiðslu. Gengið var frá útfærslu þessa með samkomulagi um sérstakan lífeyri árið 1990. Í 3. mgr. gr. 6.2 er ákvæði um hvernig reikna skuli lífeyrinn út og er þar miðað við meðallaun starfsmanna. Til útskýringar er sérstaklega tekið fram að miðað sé við að allir starfsmenn fái sama lífeyri, óháð fyrri launum, en heildarlífeyrisiðgjöld verði óbreytt til viðkomandi lífeyrissjóðs þannig að lífeyrisréttur verði eins og ekki hefði komið til flýttra starfsloka, sbr. fylgiskjal nr. 32 með kjarasamningnum.
Tilefni máls þessa er að í nóvember 2001 hugðist Guðbjörg Valdimarsdóttir, starfsmaður stefnda, hagnýta sér þau réttindi sem gr. 6.2 kveður á um til að láta af störfum en hún varð 67 ára 19. nóvember 2001. Guðbjörg hóf störf hjá stefnda á árinu 1980 og sinnti 100% starfshlutfalli í rúm 11 ár en í minnkaði við sig vinnu í febrúar 1992 og sinnti frá þeim tíma 50% starfi. Að ósk Guðbjargar reiknaði aðaltrúnaðarmaður starfsmanna út hver yrði lífeyrisgreiðsla hennar samkvæmt gr. 6.2. Stefndi féllst ekki á útreikninginn og telur að henni beri sérstakur lífeyrir miðað við 50% starf.
Í máli þessu deila aðilar um hernig beita beri ákvæðinu í tilviki þeirra sem eru í hlutastarfi við starfslok.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að þegar málsaðilar sömdu um réttindi samkvæmt ákvæðinu hafi það verið skilningur manna að rétturinn skapaðist við tiltekinn aldur eftir fullt starf í að minnsta kosti 10 ár og fæli í sér rétt til ákveðinna greiðslna þar til 70 ára aldri væri náð án tillits til starfshlutfalls og launa. Þannig hefði það ekki heldur áhrif á til hækkunar ef starfsmaður hefði unnið fullt starf lengur en 10 ár eða unnið mikla yfirvinnu á starfsævinni né heldur launaflokkur eða starfsheiti. Af þessari viðmiðum hafi báðir málsaðilar haft hag af enda töluverður sparnaður að ekki þurfi að reikna út laun og vinnuframlag meðal annars með tilliti til starfshlutfalls hvers og eins frá ráðningardegi. Í kjarasamningi aðila sé útreikningur sérstaks lífeyris útfærður á eftirfarandi hátt:
„Við meðallaun í starfi, þ.e. meðaltal reglulegra launa fastráðinna almennra starfsmanna ISAL sbr. gr. 1.3.12, er bætt ellilífeyri en dregið frá lífeyrissjóðsiðgjald sem telst 4% af meðallaunum, svo og staðgreiðsluskattur.”
Skýrt orðalag ákvæðisins kveði á um meðaltal reglulegra launa fastráðinna starfsmanna. Hvergi sé minnst á starfshlutfall eða skerðingu á þeim grunni. Samkvæmt orðanna hljóðan eigi þannig ekki að mismuna starfsmönnum eftir því hvort þeir vinna hlutastarf eða fullt starf rétt áður en hin flýttu starfslok verða. Sá skilningur komi bersýnilega fram á fylgiskjali 32 með kjarasamningnum þar sem segi að allir starfsmenn skuli fá sama lífeyri óháð fyrri launum. Með þessu hafi verið komið í veg fyrir að starfsmenn gætu haft áhrif á lífeyri sinn hvort sem var með auknu eða minnkuðu vinnuframlagi rétt fyrir hin flýttu starfslok.
Ákvæðið sé sérstaks eðlis og einungis að finna í kjarasamningi málsaðila svo vitað sé. Með ákvæðinu hafi málsaðilar komist að samkomulagi um að gera starfsmönnum til margra ára kleift að hætta störfum þremur árum fyrr en ella. Allalgengt sé að starfsmenn, sem náð hafa 65 ára aldri, hafi þegar minnkað við sig vinnu einmitt sökum aldurs. Með túlkun stefnda yrði réttur til flýttra starfsloka innihaldslaus að mati stefnanda. Markmiðið með þessu hafi verið að stuðla að því að starfsmenn gætu hætt störfum þremur árum fyrr, eða 67 ára. Með því að skerða lífeyrinn í samræmi við starfshlutfall leiði það til þess að hinn sérstaki lífeyrir ríði ekki baggamun lengur í því hvort starfsmaðurinn geti lifað af honum og þar með hætt störfum. Með þeirri túlkun nái ákvæðið tæpast markmiði sínu. Ef starfsmaður hagnýtir sér þannig rétt til hlutastarfs væri hann þar með nánast útilokaður frá því að hagnýta sér rétt til flýttra starfsloka. Ef nokkuð samræmi eigi að vera milli þessara ákvæða geti lífeyrir vegna flýttra starfsloka aldrei skerst vegna hlutastarfs ef skilyrði greinarinnar um fullt starf í tíu ár er uppfyllt.
Stefnandi styður málsókn sína einnig við þá staðreynd að stefndi hafi þegar gert upp sérstakan lífeyri við fjölda starfsmanna í hlutastarfi án skerðingar. Stefndi hafi til að mynda ótvírætt viðurkennt rétt starfsmanna í 81% starfi til óskerts lífeyris í flýttum starfslokum með einhliða ákvörðun og án samráðs við stefnanda. Hins vegar vilji stefndi láta starfsmenn með minna starfshlutfall sitja við lakara borð þar sem lífeyrir þeirra skerðist í samræmi við starfshlutfallið, þó þeir hafi unnið fullt starf í tíu ár, eins og ákvæðið áskilur. Komið hafi upp ágreiningur um túlkun ákvæðisins sem lyktað hafi með því að stefndi hafi greitt lífeyrinn í samræmi við kröfur stefnanda. Stefndi telji sig ekki hafa viðurkennt þá túlkun stefnanda þrátt fyrir greiðslu í samræmi við kröfur stefnanda. Stefnandi telji hins vegar venju í uppgjörum vegna sérstaks lífeyris hafa skapast við eldri uppgjör sem beri að líta til við túlkun ákvæðisins. Uppgjörin hafi farið fram nákvæmlega eins og óskað hafi verið eftir og skýrt orðalag ákvæðisins kveði á um. Stefnandi mótmælir því einnig að um nokkurs konar örlætisgerning hafi verið að ræða þar sem stefndi hafi ekki greitt fyrr en lögfræðilegum álitsgerðum hafi verið skilað á báða bóga og stefndi í málaferli fyrir Félagsdómi.
Hið umdeilda ákvæði hafi verið óbreytt um árabil án þess að stefndi hafi haft nokkurt frumkvæði til þess að fá því breytt. Ágreiningur vegna ákvæðisins hafi komið upp fyrst árið 1997 og kjarasamningur málsaðila verið endurskoðaður síðast árið 2001 án nokkurra breytinga á umþrættu ákvæði. Stefnandi hafi ekki hlutast til um breytingu á ákvæðinu þar sem ágreiningsmál hafi verið leyst í samræmi við kröfur stefnanda. Ef stefndi var ósáttur við skuldbindingar sínar hafi hann haft fullt tilefni og tækifæri til þess að gera kröfu um að ákvæðinu yrði breytt.
Málsástæður og lagaök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu á því að tilgangur sérstaks lífeyris við flýtt starfslok sé að gera starfsmönnum kleift að flýta starfslokum án verulegrar tekjuskerðingar og án þess að tapa lífeyrisréttindum. Verði að skoða ákvæði gr. 6.2 og útreikningsdæmi í fylgiskjali 32 í því ljósi. Viðmiðunarlaunin við útreikning þessa sérstaka lífeyris séu meðallaun fastráðinna almennra starfsmanna og því óháð launaflokki og launaupphæð viðkomandi starfsmanns. Miðað sé því við að allir starfsmenn fái sama lífeyri, óháð fyrri launum, en sem fyrr að teknu tilliti til starfshlutfalls. Enginn fyrirvari sé gerður í samningnum um að hlutastarfsmenn skuli njóta óskerts greiðsluréttar án tillits til starfshlutfalls. Texti með umræddu útreikningsdæmi um að allir starfsmenn fái sama lífeyri, óháð fyrri launum, feli einfaldlega í sér áréttingu á því að mismunandi launaflokkar, vaktaálagsprósentur og annað álag hafi ekki áhrif enda séu útreikningarnir byggðir á meðallaunum. Þessi texti breyti ekki stöðu hlutavinnufólks að neinu leyti. Til þess að svo væri hefði orðalagið þurft að vera skýrt í þá veru.
Það sé almenn grundvallarregla í vinnurétti að laun séu greidd í samræmi við vinnuframlag. Allar launatölur í kjarasamningi aðila séu þannig miðaðar við fullt starf. Hlutavinnufólk fái, eðli máls samkvæmt, greitt miðað við starfshlutfall. Af hálfu stefnda hafi ávallt verið litið svo á að við útreikning lífeyris við flýtt starfslok skuli, sem endranær, miða við starfshlutfall. Engin rök standi til þess að starfsmaður, sem verið hafi t.d. í hálfu starfi og þegið laun í samræmi við það, eigi við útreikning þessa sérstaka lífeyris að fá sömu greiðslur og starfsmenn í fullu starfi. Því síður að starfsmaður í 35% starfi eigi, svo annað dæmi sé tekið, að auka tekjur sínar við flýtt starfslok. Um greiðslu sérstaks lífeyris gildi því sama meginregla og um greiðslu launa, greiða skuli í hlutfalli við vinnuframlag við starfslok. Starfsmaður, sem verið hefur í hálfu starfi, eigi því rétt á 50% af sérstökum lífeyri. Ef starfsmaður, sem verið hefur í hlutastarfi, fengi fullan sérstakan lífeyri væri jafnræðis milli starfsmanna ekki gætt. Gæti sá starfsmaður jafnvel verið að auka tekjur sínar með að flýta starfslokum á meðan tekjur fullvinnandi starfsmanna skerðast.
Við fyrri afgreiðslur sérstaks lífeyris hlutastarfsmanna hafi ofangreindur skilningur einnig verið lagður til grundvallar af hálfu fyrirtækisins. Vísist í því sambandi til lögfræðiálits Jakobs R. Möller hrl. auk bréfa Ísal til Þóris Bjarnasonar, dags. 31. desember 1998, og Steinvarar Bjarnadóttur, dags. sama dag, en það séu einu starfsmennirnir með starfshlutfall fyrir neðan 80% sem áður hafi nýtt sér rétt til sérstaks lífeyris vegna flýttra starfsloka. Afgreiðsla á málum þeirra hafi byggt á sérstökum aðstæðum og þá aðallega löngum starfsaldri í fullu starfi auk þess sem tekið hafi verið fram að greiðslur til þeirra væru umfram samningsbundnar skyldur fyrirtækisins og sköpuðu ekki fordæmi. Ranghermt sé því að fyrirtækið hafi fallið frá túlkun sinni eftir að athugasemdir hafi verið gerðar við framkvæmd þess.
Eftirfarandi verklagsregla hafi verið ákveðin af framkvæmdastjórn í árslok 1996:
„Þegar almennur starfsmaður sem ráðinn er í hlutastarf fer í flýtt starfslok skal sérstakur lífeyrir hans miðast við að laun hans í starfi séu sem svarar starfshlutfalli hans af meðallaunum almennra fastráðinna starfsmanna. Ef starfshlutfallið er 80% eða hærra skal þó miða við full meðallaun, þ.e. venjulegan sérstakan lífeyri.”
Í þessu felist engin viðurkenning á rétti starfsmanns, heldur sé um að ræða ákvörðun umfram rétt til hagsbóta m.a. fyrir þá starfsmenn sem nýta sér heimild til hlutastarfs samkvæmt fylgiskjali 19 með kjarasamningnum. Samkvæmt henni eigi þeir starfsmenn, sem uppfylla þar til greind skilyrði, rétt til styttingar vinnuskyldu um allt að tvo mánuði á ári og geti þannig lækkað starfshlutfall sitt sem því nemi eða í allt að 81,6%. Ekki hafi heldur verið krafist endurskoðunar á gr. 6.2 um sérstakan lífeyri af hálfu stéttarfélaganna við endurnýjun kjarasamninga til að treysta rétt hlutastarfs- manna.
Á árabilinu 1991-1998 hafi 79 almennir starfsmenn fyrirtækisins átt þennan rétt. Um helmingur þeirra hafi áður verið í hlutastarfi, með starfshlutfall á bilinu 80-94%, en starfsmenn, sem náð hafa 55 ára aldri, eigi þann rétt eftir 28 ára samfellt starf og 60 ára eftir 5 ára samfellt starf. Aðeins tveir af fyrrgreindum 79 starfsmönnum hafi verið í eiginlegu hlutastarfi. Deilt hafi verið um ákvörðun sérstaks lífeyris þeirra og sú orðið niðurstaðan að ákveðið hafi verið að greiða þeim óskertan lífeyri með tilliti til sérstakra aðstæðna og þá aðallega langs starfsaldurs í fullu starfi. Við þá afgreiðslu hafi verið tekið skýrt fram að hún væri umfram samningsbundnar skyldur og sérstaklega áréttað í bréfi til lögmanns hlutaðeigandi stéttarfélaga að fyrirtækið liti ekki svo á að hún skapaði fordæmi.
Við framkvæmd sérstaks lífeyris hafi verið komið mjög til móts við starfsmenn sem verið hafa í hlutastarfi í tiltölulega stuttan tíma eða að litlu leyti. Meginreglan sé hins vegar skýr. Það sé auk þess óeðlilegt og andstætt almennum reglum vinnuréttar og samningsvenju að starfsmenn, sem verið hafa í raunverulegu hlutastarfi jafnvel mestan eða allan sinn starfsferil, eigi að bera jafnt úr býtum og þeir sem verið hafi í fullu starfi og geti jafnvel aukið tekjur sínar við flýtt starfslok. Samræmist slíkt ekki því markmiði sem að sé stefnt með samningsákvæðinu.
Niðurstaða
Mál þetta á undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
Í málinu er ágreiningur um skilning á grein 6.2 í gildandi kjarasamningi aðila sem undirritaður var 11. febrúar 2001 og gildir til 30. nóvember 2004. Grein þessi fjallar um sérstakan lífeyri við flýtt starfslok, eins og það er orðað, og á þetta ákvæði sér ekki hliðstæðu í kjarasamningum hér á landi eftir því sem fram er komið í málinu. Hinn sérstaki lífeyrir á rætur að rekja til 5. gr. kjarasamnings aðila frá 21. september 1989, sbr. samkomulag frá 9. febrúar 1990 í framhaldi af kjarasamningnum.
Í 1. mgr. greinar 6.2 í kjarasamningnum er tekið fram að almennir starfsmenn ISAL, sem orðnir eru 67 ára og hafa starfað hjá fyrirtækinu í 10 ár eða lengur, eigi rétt á að sækja um sérstakan lífeyri sem geti gilt þar til viðkomandi nær 70 ára aldri. Skuli slík umsókn gerð með þriggja mánaða fyrirvara hið minnsta. Við það sé miðað að starfsmaður fari ekki í fulllaunað starf hjá öðrum atvinnurekanda. Í 3. og 4. mgr. greinar 6.2 er kveðið á um útreikning hins sérstaka lífeyris. Þar kemur meðal annars fram að þessi sérstaki lífeyrir skuli reiknaður miðað við meðallaun í starfi, það er meðaltal reglulegra launa fastráðinna almennra starfsmanna, sbr. grein 1.3.12 í kjarasamningnum þar sem regluleg laun eru skilgreind, að viðbættum ellilífeyri en að frádregnum lífeyrissjóðsiðgjöldum og staðgreiðslusköttum. Útkoman, svonefnd meðalnettólaun, er síðan lögð til grundvallar útreikningi hins sérstaka lífeyris eftir þargreindum aðferðum. Þá er í grein 6.2 fjallað um endurreikning hins sérstaka lífeyris vegna almennra launabreytinga, greiðsluskyldu ISAL á lífeyrissjóðsiðgjaldi til að tryggja full réttindi, áhrif vinnustöðvana á greiðsluskyldu vegna hins sérstaka lífeyris og um endurskoðun vegna breyttra forsendna, sbr. 5., 6., 7. og 8. mgr. greinarinnar. Í 9. mgr. greinar 6.2 er vísað til dæma um útreikning sérstaks lífeyris og iðgjalda til lífeyrissjóðs í sérstöku fylgiskjali nr. 32 með kjarasamningnum. Í fylgiskjali þessu er, auk forsendna og dæma, tekið fram að miðað sé við „ ... að allir starfsmenn fái sama lífeyri óháð fyrri launum en heildarlífeyrisiðgjöld verði óbreytt til viðkomandi lífeyrissjóðs þannig að lífeyrisréttur verði eins og ekki hefði komið til flýttra starfsloka.”
Í málinu er tekist á um hvernig túlka beri greind ákvæði um hinn sérstaka lífeyri í þeim tilvikum þegar starfsmaður er í hlutastarfi við starfslok og töku lífeyrisins. Telur stefnandi að óheimilt sé að skerða hinn sérstaka lífeyri miðað við starfshlutfall við þær aðstæður og vísar meðal annars til orðalags greinar 6.2 í kjarasamningnum, tilgangsins með ákvæðinu og framkvæmdar stefnda á því. Af hálfu stefnda er hinu gagnstæða haldið fram og einkum byggt á því að sama regla eigi að þessu leyti að gilda um greiðslu hins sérstaka lífeyris og gildir almennt við greiðslu launa, það er að greiða skuli í hlutfalli við starfshlutfall.
Ljóst er að hinum sérstaka lífeyri er ætlað að auðvelda starfsmönnum að hætta fyrr en ella og brúa bilið frá 67 ára aldri til 70 ára aldurs þegar gert er ráð fyrir að lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóði taki við, sbr. 5. gr. kjarasamningsins frá 21. september 1989 þar sem forsendur og markmið með hinum sérstaka lífeyri koma fram. Jafnframt er búið svo um hnútana að þetta úrræði rýri ekki lífeyrisréttindi þeirra starfsmanna sem nýta sér það. Samkvæmt þessu og þar sem vinnuframlagi er ekki fyrir að fara meðan taka hins sérstaka lífeyris varir ber hann augljós einkenni lífeyrisgreiðslna, enda þótt vinnusambandssjónarmiða gæti að nokkru, meðal annars vegna áhrifa vinnustöðvana á greiðsluskyldu. Eins og hinum sérstaka lífeyri er farið samkvæmt fyrrgreindum samningsákvæðum þykir nærtækast að virða hann sem samningsbundnar eftirlaunaskuldbindingar stefnda fremur en vinnulaun, eins og stefndi byggir á. Hefur þetta þýðingu við skýringu á umræddum samningsákvæðum. Ekki verður séð að þar sé tekið sérstaklega á því hvernig með skuli fara þegar svo stendur á að viðkomandi starfsmaður er í hlutastarfi við starfslok, enda verður ekki fallist á með stefnanda að tilvitnað ákvæði í fylgiskjali 32 með kjarasamningnum taki hér af skarið, en þar er bersýnilega vísað til þess útreikningsgrundvallar meðallauna sem kveðið er á um í grein 6.2.
Eins og hinum sérstaka lífeyri er háttað samkvæmt greindum samningsákvæðum er ljóst að réttur til hans er ekki áunninn á sama hátt og almennt gildir varðandi lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum, að því undanskildu að réttur til þessa lífeyris er bundinn við 10 ára starfstíma hjá stefnda. Við blasir að komið geta upp tilvik þar sem starfsmaður lýkur starfsferli sínum í hlutastarfi eftir langt starf hjá stefnda í fullu starfi. Er slík aðstaða einkar raunhæf hjá stefnda þar sem sérstök samningsákvæði greiða fyrir minni vinnuskyldu með hækkandi aldri, sbr. fylgiskjal nr. 19 með kjarasamningi aðila. Geta því komið upp tilvik þar sem ósanngjarnt má telja að hinn sérstaki lífeyrir reiknist miðað við starfshlutfall í starfslok en dæmi eru um að slík vandamál, sem tengd eru launaviðmiðun lífeyrisréttinda, séu leyst í regluverki lífeyrissjóða, sbr. t.d. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þar sem berum orðum er miðað er við fullt starf. Fram er komið í málinu að um helmingur þeirra, sem hafa nýtt sér hinn sérstaka lífeyri, var í hlutastarfi við starfslok, 80% til 94% starfi. Þá er fram komið að stefndi hefur sett sér verklagsreglur til að koma til móts við þessa starfsmenn og tryggja þeim viðmiðun við full meðallaun. Enn fremur er upplýst um tvö tilfelli þar sem viðkomandi starfsmenn höfðu verið í tiltölulega lágu starfshlutfalli um árabil en fengu eigi að síður sérstakan lífeyri ákvarðaðan miðað við full meðallaun. Er hér um að ræða tilvik þeirra Steinvarar Bjarnadóttur og Þóris Bjarnasonar, sbr. bréf stefnda til þeirra, dagsett 31. desember 1998. Stefndi hefur hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að þessi tilvik séu fordæmisgefandi.
Taka verður undir það með stefnda að óeðlilegt sé að starfsmaður, sem að jafnaði hefur verið í hlutastarfi, njóti fulls sérstaks lífeyris þannig að hagur hans batni við hin flýttu starfslok. Á hinn bóginn taka samningsákvæði aðila um hinn sérstaka lífeyri ekki af skarið um það álitaefni sem á reynir í máli þessu. Þá hefur ekkert komið fram við meðferð málsins sem til þess er fallið að upplýsa hver hafi verið ætlan samningsaðila við samningsgerðina um rétt starfsmanna í hlutastarfi til hins sérstaka lífeyris. Ræðst því niðurstaða málsins á því hvernig túlka skal umrædd samningsákvæði. Í því sambandi verður ekki horft fram hjá framkvæmd ákvæðisins.
Svo sem áður greinir hefur tveimur starfmönnum stefnda verið greiddur fullur sérstakur lífeyrir við starfslok þrátt fyrir að þeir hafi verið í hlutastarfi við starfslok, annar í 52% starfi og hinn í 50% starfi. Verður því ekki séð að út frá hlutlægum mælikvarða sé neinn munur á aðstöðu starfsmanns þess, sem mál þetta varðar, Guðbjargar Valdimarsdóttur, og þess starfsmanns sem gegndi 50% starfi við starfslok og nánast enginn milli Guðbjargar og þess starfsmanns sem var í 52% starfi er hann lét af störfum. Yrði því um mismunun að ræða að ræða milli þess starfsmanns, sem var í 50% starfi við starfslok og Guðbjargar, ef greiða ætti henni lægri sérstakan lífeyri en þeim umræddum starfsmanni sem var í sama starfshlutfalli og hún við starfslok. Þá tók stefndi það upp hjá sjálfum sér að túlka ákvæðið á þann veg að þeir starfsmenn, sem eru í 80% starfi eða meira við starfslok, eigi rétt á sérstökum lífeyri miðað við fullt starf. Þegar framangreint er virt heildstætt er það niðurstaða dómsins að fallast beri á stefnukröfuna en þó þannig, með hliðsjón af framkvæmd stefnda sérstaklega, að miða beri við að starfsmaður stefnda sé í 50% starfi við starfslok til þess að hann eigi rétt á óskertum sérstökum lífeyri samkvæmt grein 6.2 í kjarasamningi aðila.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Dómsorð
Viðurkennt er að stefnda, Alcan á Íslandi hf., er óheimilt að að skerða sérstakan lífeyri samkvæmt grein 6.2 í kjarasamningi stefnda og stefnanda, Verkalýðsfélagsins Hlífar, Bíliðnaðarfélagsins ? Félags blikksmiða, Félags járniðnaðarmanna, Rafiðnaðarsambands Íslands vegna Félags íslenskra rafvirkja og Félags rafeindavirkja, Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar, Félags byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði, Matvæla- og veitingasambands Íslands vegna Félags matreiðslumanna, hafi starfsmaður stefnda í umræddum stéttarfélögum gegnt að lágmarki 50% starfi við starfslok.
Stefndi, Samtök atvinnulífsins vegna Alcan á Íslandi hf., greiði stefnanda, Alþýðusambandi Íslands vegna Verkalýðsfélagsins Hlífar, Bíliðnaðarfélagsins ? Félags blikksmiða, Félags járniðnaðarmanna, Rafiðnaðarsambands Íslands vegna Félags íslenskra rafvirkja og Félags rafeindavirkja, Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar, Félags byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði, Matvæla- og veitingasambands Íslands vegna Félags matreiðslumanna, 250.000 krónur í málskostnað.
Helgi I. Jónsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Sératkvæði Valgeirs Pálssonar
Fyrirmæli um hinn sérstaka lífeyri við flýtt starfslok eru í kjarasamningi aðila, einkum grein 6.2, og eru þau rakin í forsendum meiri hluta dómenda. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að lífeyririnn sé greiddur sem laun til þeirra sem öðlast hafa rétt til hans jafnvel þótt ekki sé krafist vinnuframlags á móti. Skilyrði fyrir greiðslu lífeyrisins er m.a. að starfsmaður fari ekki í fulllaunað starf hjá öðrum atvinnurekanda. Þá fellur greiðsla lífeyrisins niður, ef vinnustöðvun hefur staðið í sex mánuði og hefst ekki að nýju fyrr en vinnustöðvuninni lýkur. Verður samkvæmt þessu að telja að slík ráðningartengsl séu milli stefnda og þeirra starfsmanna, sem njóta hinna sérstöku lífeyrisréttinda, að greiðsla þeirra sé ígildi launa. Við skýringu á ákvæðum kjarasamningsins um lífeyrinn og greiðslu hans verður að fara eftir almennum skýringarreglum vinnuréttar um túlkun kjarasamninga.
Réttur starfsmanns samkvæmt kjarasamningi til launa og annarra greiðslna, sem leidd eru af launum hans, taka að jafnaði mið af starfshlutfalli hans. Í grein 6.2. í kjarasamningnum er ekki kveðið á um það hvernig haga skuli greiðslum hins sérstaka lífeyris, þegar starfsmaður hefur verið í hlutastarfi. Þegar svo háttar, þegar sótt er um lífeyrinn, að starfsmaður er í hlutastarfi, ber að túlka hið umdeilda samningsákvæði á þann veg að hinn útreiknaða lífeyri skuli hverju sinni greiða í því hlutfalli, er svarar starfshlutfalli umsækjanda.
Á fylgiskjali 19 með kjarasamningi aðila er að finna sérstaka yfirlýsingu um reglur um rétt til styttri vinnuskyldu (hlutastarfs) við 60 ára aldur, þar sem starfsmönnum stefnda við 60 ára aldur eftir a.m.k. 5 ára starf er veittur réttur til hlutastarfs (styttingar vinnuskyldu allt að tveimur mánuðum á ári) með þeim réttindum og fyrirvörum sem nánar eru tilgreind í yfirlýsingunni. Sama rétt eiga ennfremur starfsmenn við 55 ára aldur eftir a.m.k. 28 ára samfellt starf hjá stefnda, þó að hámarki sem nemur styttingu vinnuskyldu um einn mánuð á ári.
Til fyllingar samningsákvæðinu í grein 6.2 um hinn sérstaka lífeyri og í ljósi síðastgreindrar yfirlýsingar um rétt til styttri vinnuskyldu setti framkvæmdastjórn stefnda í árslok 1996 sér reglur, svohljóðandi: “Þegar almennur starfsmaður sem ráðinn er í hlutastarf fer í flýtt starfslok skal sérstakur lífeyrir hans miðast við [að] laun hans í starfi séu sem svarar starfshlutfalli hans af meðallaunum almennra fastráðinna starfsmanna. Ef starfshlutfallið er 80% eða hærra skal þó miða við full meðallaun, þ.e. venjulegan sérstakan lífeyri.”
Fyrir liggur í málinu að um helmingur þeirra, sem fengu greiddan hinn sérstaka lífeyri á árabilinu 1991 til 1998, höfðu áður verið í hlutastarfi með starfshlutfall á bilinu 80% til 94%, en fengu lífeyrinn engu að síður greiddan óskertan. Hefur stefndi borið því við að í þeim tilvikum hafi verið um að ræða starfsmenn, sem hafi öðlast rétt til styttri vinnuskyldu (hlutastarfs) á grundvelli fyrrgreindrar yfirlýsingar á fylgiskjali 19 með kjarasamningnum. Samkvæmt ákvæði þessu hafi starfshlutfall þeirra verið 80% eða meira. Til að tryggja þessum starfsmönnum óskertan lífeyri hafi framkvæmdastjórn ISAL sett fyrrgreinda reglu í árslok 1996. Ástæðum að baki þessarar ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar hefur ekki verið mótmælt sérstaklega af stefnanda. Verður að telja að með nefndri ákvörðun hafi þeim sem hafa áunnið sér rétt til styttingar á vinnuskyldu á grundvelli ákvæða í kjarasamingnum verið tryggður réttur til óskerts lífeyris. Á hinn bóginn er í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar áréttuð sú skoðun stefnda að meginregla skuli að öðru leyti vera sú að starfsmaður í hlutastarfi skuli eiga rétt á hinum sérstaka lífeyri sem svari starfshlutfalli hans.
Í tveimur tilvikum, öðrum en þeim sem hér að framan greinir, hefur stefndi greitt tilgreindum starfsmönnum sínum óskertan lífeyri þótt starfshlutfall þeirra hafi verið minna en 80%. Kveður stefndi þá ákvörðun sína hafa byggst á sérstökum aðstæðum í hvoru tilviki, þ.e. langs starfsaldurs og góðrar frammistöðu í starfi. Í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda frá 18. desember 1998 gerði stefndi grein fyrir þessari ákvörðun sinni. Er þar tekið fram að hér sé um tvö einangruð tilvik að ræða sem ekki eigi eftir að koma upp aftur. Er sérstaklega tekið fram að litið sé svo á að tilvik þessi skapi ekki fordæmi. Ekki er um önnur tilvik að tefla samkvæmt gögnum málsins, þar sem starfsmönnum stefnda í hlutastarfi hefur verið greiddur óskertur lífeyrir. Tilvik þau, sem hér hefur verið getið, eru svo sérstaks eðlis að ekki verður á það fallist að með þeim hafi skapast venja eða stefndi hafi á það fallist í verki að starfsmönnum í hlutastarfi skuli í öllum tilvikum greiddur óskertur lífeyrir, enda var stefnda frjálst að umbuna viðkomandi starfsmönnum á þann hátt sem gert var án þess að það skyldi hafa áhrif á launakjör annarra starfsmanna.
Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið unnt að taka kröfur stefnanda til greina. Samkvæmt því verður atkvæði mitt að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum sé rétt að málskostnaður falli niður.
Valgeir Pálsson