Ísland eykur framlag sitt til mannúðarmála
Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að tvöfalda kjarnaframlög sín til tveggja mannúðarstofnana, Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), vegna alvarlegs mannúðarástands víðsvegar um heim. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum þurfa rúmlega 300 milljónir manna á mannúðaraðstoð að halda á þessu ári. Hefur þeim fjölgað um tæpar 40 milljónir það sem af er ári og nær tvöfaldast frá því áður en COVID-19 faraldurinn braust út. Viðbótarframlagið nemur alls 200 milljónum króna og renna hundrað milljónir til hvorrar stofnunar.
„Ástand heimsmála er viðkvæmt og það þjónar bæði hagsmunum okkar Íslendinga og er siðferðisleg skylda okkar að leggja af mörkum til þess að draga úr þeirri neyð sem ríkir víða um heim og getur orðið kveikjan að enn meiri hörmungum. Innrás Rússlands í Úkraínu hefur haft mjög slæm áhrif á aðgengi að matvöru, leitt til hærra verðs og mikils óstöðugleika í framleiðslu og afhendingu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Fjöldi fólks á flótta í heiminum er yfir hundrað milljónir og hafa aldrei verið fleiri. „Mér finnst mikilvægt að Ísland bregðist við þessu ástandi og þess vegna hækkum við framlög okkar til þessara áherslustofnana Íslands í þróunar- og mannúðarmálum nú,“ segir Þórdís Kolbrún.
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna er leiðandi á sviði matvælaaðstoðar og fæðuöryggis. Stofnunin hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2020 fyrir baráttu þeirra gegn hungri, fyrir að stuðla að bættum aðstæðum fyrir friði á átakasvæðum og fyrir aðgerðir til að afstýra því að hungur sé notað sem vopn í átökum.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna stendur vörð um réttindi og velferð flóttamanna, einstaklinga á vergangi í heimalandi, ríkisfangslausra, hælisleitenda og einstaklinga sem snúa aftur til síns heimalands. Hlutverk stofnunarinnar er að veita vernd, skjól, lífsafkomu og grunnþjónustu.
Kjarnaframlög eru óeyrnamerkt og fyrirsjáanleg framlög til mannúðaraðstoðar og gerir stofnununum kleyft að bregðast við hratt og örugglega þar sem neyðin er mest. Að auki veitir Ísland neyðarframlög vegna neyðartilvika og er sú upphæð breytileg á milli ára.