Hoppa yfir valmynd
19. mars 2011 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Alþingi samþykkti 15. mars. sl. breytingar á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna nr. 91/2010 sem felast m.a. í fyrirkomulagi á talningu atkvæða og kæruleiðum vegna ólögmætis atkvæðagreiðslunnar. Breytingarlögin eru nr. 23/2011.

Breytingin felur í sér að atkvæði verða talin í hverju kjördæmi fyrir sig  eins og við alþingiskosningar en ekki á einum stað  á vegum landskjörstjórnar, eins og áður var gert ráð fyrir í lögunum. Jafnframt er gerð sú breyting að til þess að spurning eða tillaga sem borin er upp í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þurfi hún að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða. Um gildi seðla fer samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis. Þannig er t.d. skýrt kveðið á um að auðan kjörseðil skuli meta ógildan.  

Með breytingunni er kveðið á um að landskjörstjórn skipi umboðsmenn í hverju kjördæmi sem hafi það hlutverk að gæta ólíkra sjónarmiða við atkvæðagreiðsluna, talningu atkvæða og úrlausn ágreiningsmála. Að lokinni talningu atkvæða sendir yfirkjörstjórn landskjörstjórn eftirrit gerðabóka ásamt þeim kjörseðlum sem ágreiningur hefur verið um milli umboðsmanna og yfirkjörstjórna. Þegar landskjörstjórn hefur fengið í hendur eftirrit gerðabóka allra yfirkjörstjórna og ágreiningsseðla auglýsir hún með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman til fundar til að úrskurða um gildi ágreiningsseðlanna og lýsa úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að umboðsmönnum gefist færi á að vera viðstaddir. Að því loknu tilkynnir landskjörstjórn ráðuneytinu um niðurstöður sínar.

Þá er sú breyting gerð á lögunum að landskjörstjórn er falið úrskurðarvald um lögmæti atkvæðagreiðslunnar og kveðið á um að gallar á kosningu leiði ekki til ógildingar hennar, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta