Opið fyrir umsóknir í Hljóðritasjóð
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Hljóðritasjóð. Veittir eru styrkir til að taka upp nýja, frumsamda íslenska tónlist. Umsóknarfrestur er til 15. september 2023 kl. 15:00.
Þetta er í síðasta skipti sem úthlutun fer fram með þessum hætti, en gert er ráð fyrir að opnað verði fyrir umsóknir í nýjan Tónlistarsjóð, sem Hljóðritasjóður verður hluti af, fyrir árið 2024 haustið 2023. Tónlistarsjóður verður í umsýslu nýrrar Tónlistarmiðstöðvar samkvæmt nýjum lögum um tónlist.
Tónlistarmiðstöð var stofnuð með formlegum hætti í Hörpu í gær. Á árunum 2023-2025 er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum til stofnunar Tónlistarmiðstöðvar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar.
Tónlistarmenn, jafnt einstaklingar sem hljómsveitir, útgáfufyrirtæki og aðrir er koma að hljóðritun tónlistar geta sótt styrk í Hljóðritasjóð um en styrkir eru veittir til ákveðinna verkefna að hámarki til eins árs.
Hlutverk Hljóðritasjóðs er að efla íslenska hljóðritagerð í tónlist til útgáfu hljóðrita, samkvæmt reglum um Hljóðritasjóð.
Umsóknum og lokaskýrslum skal skilað rafrænt. Hafi umsækjandi hlotið styrk áður, þarf að skila inn loka- eða áfangaskýrslu til að ný umsókn verði tekin til umfjöllunar. Framhaldsstyrkir eru ekki veittir til verkefna sem áður hafa hlotið styrk úr sjóðnum.
Skilyrði styrkveitingar er að hljóðrit hafi ekki komið út á þeim tíma sem umsókn er móttekin af stjórn Hljóðritasjóðs. Umsókn er gild vegna hljóðrits sem kemur út eftir að sótt hefur verið um styrk en áður en úthlutun hefur farið fram.
Nánari upplýsingar má finna á vef Hljóðritasjóðs. Umsóknarfrestur er til 15. september 2023 kl. 15:00
Sjá einnig: Tónlistarmiðstöð formlega stofnuð og ný stjórn kynnt