Hoppa yfir valmynd
13. október 2023 Utanríkisráðuneytið

Úttekt á fyrirkomulagi styrkveitinga fyrir meistara- og doktorsnema í gegnum þjálfunaráætlanir GRÓ

Nemendur í meistara- og doktorsnámi á vegum Jarðhitaskólans skoða eldgos. - mynd

Ný óháð úttekt á fyrirkomulagi styrkveitinga fyrir meistara- og doktorsnema í gegnum þjálfunaráætlanir GRÓ staðfestir að styrkveitingar til framhaldsnáms séu í takt við hlutverk GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu. Þær styðja einnig við stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Í úttektinni kemur fram að styrkjaprógrammið sé skynsamlegt framhald 5-6 mánaða þjálfunarinnar á Íslandi og eitt af meginhlutverkum GRÓ. Í úttektinni kemur fram að nemendur hafa haft veruleg áhrif heima fyrir og vísbendingar eru um að framlag þeirra hafi haft jákvæð áhrif á samstarfsstofnanir í efnaminni ríkjum. 

Úttektin er óháð og byggir á spurningakönnun meðal nemenda, rýnihópum, viðtölum við helstu haghafa og skoðun á fyrirliggjandi gögnum, þ.m.t. fyrirkomulagi erlendis á sambærilegum verkefnum. 

Í úttektinni eru 10 megintillögur lagðar fram:

  • GRÓ ætti að leggja styrkveitingar á framhaldsstigi upp sem stefnumiðað áframhald af 5-6 mánaða þjálfun/diplómanámi sem endurspeglar hvernig vönduð menntun getur hámarkað áhrif þróunarsamvinnu til að ná markmiðum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og heimsmarkmiðanna.
  • Skólarnir fjórir, í samvinnu við GRÓ, eru hvattir til að skoða ólíka kosti til að þróa samræmda klasanálgun við styrkveitingar með það fyrir augum að auka hagkvæmni og skilvirkni.
  • Skólarnir fjórir ættu að leita leiða til að auka þátttöku ólíkra samstarfsstofnana í styrkjaprógramminu, sem leið til að auka skuldbindingu þeirra og efla getu einstaklinga og stofnana.
  • GRÓ er ráðlagt að setja upp sérstaka fjárhagsáætlun til fimm ára sem byggir á spá og mati á þörfum núverandi nemenda til að auðvelda áætlangerð til lengri tíma sem spannar alla skólana.
  • GRÓ og skólarnir fjórir ættu að þróa áætlun um kynningu og öflun fjármuna til viðbótar við grunnfjármögnun utanríkisráðuneytisins.
  • GRÓ og skólarnir fjórir eru hvattir til að leita tækifæra til þverfaglegrar framkvæmdar í gegnum breytingakenningu 2022-2027 og vöktunar hennar, og tryggja að betur sé fjallað um þverlæg málefni líkt og kynjajafnrétti.
  • Utanríkisráðuneytið ætti að tryggja að staða forstöðumanns GRÓ sé til þriggja ára hið minnsta til að tryggja samfellu í stjórnun og stofnanaminni.
  • Skólarnir fjórir ættu að halda áfram að taka forystu í ákvarðanatöku sem varðar menntun og rannsóknir í ljósi þess að akademískt frelsi skólanna hefur sýnt fram á góðan árangur til þessa.
  • GRÓ og skólarnir fjórir ættu að þróa sameiginlegan ramma fyrir styrkveitingar sem byggir á bestu starfsháttum og setja tengil á heimasíðu GRÓ fyrir allar upplýsingar sem tengjast styrkjaprógramminu.
  • GRÓ, í samvinnu við skólana, er hvatt til að skoða fýsileika þess að gera formlegt samkomulag við samstarfsháskóla á Íslandi og alþjóðlega til að auka akademíska og félagslega velferð styrkhafa, og til að styrkja tengslin milli akademíu og þróunarsamvinnu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi
14. Líf í vatni
5. Jafnrétti kynjanna
7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta