Beint að efninu: Ísland.is fær nýja ásýnd og þjónusta efld
Ísland.is hefur fengið nýja ásýnd og merki sem endurspeglar kröfur nútímans um sjálfvirkni, einfaldleika og stafrænar lausnir. Vefurinn verður stórefldur á þessu ári og þjónusta bætt, m.a. með rafrænum eyðublöðum sem fela í sér mikinn tímasparnað og einfaldari samskipti. Markmiðið er að einstaklingar og fyrirtæki geti nálgast opinbera þjónustu með einföldum hætti á einum stað og er fangað í nýju slagorði: Beint að efninu.
Markmið ríkisstjórnarinnar er að stafræn samskipti verði meginsamskiptaleið einstaklinga og fyrirtækja við hið opinbera en áætlað er að á næstu þremur til fimm árum geti ríkið sparað um 9,6 milljarða á ári í kjölfar innleiðingar á stafrænni þjónustu. Þjóðhagslegur ávinningur felur þó í sér enn meiri hagræðingu því bæði einstaklingar og fyrirtæki munu upplifa mikinn tímasparnað og einföldun í samskiptum sínum við hið opinbera, auk þess sem innleiðingin hefur jákvæð umhverfisleg áhrif. Sem dæmi má nefna að frá 1. maí senda stofnanir ríkisins alla reikninga rafrænt sem sparar um 200 milljónir árlega í prentkostnað og sendingargjöld.
Undanfarið hefur verið unnið að því í samstarfi verkefnastofu um Stafrænt Ísland í fjármála- og efnahagsráðuneytinu við dómsmálaráðuneytið og sýslumenn að ljúka fyrsta áfanga í innleiðingu rafrænna eyðublaða hjá sýslumönnum. Alls verða yfir 50 eyðublöð færð á stafrænt form og verður hægt að undirrita þau með rafrænum skilríkjum í síma. Fyrstu fimm rafrænu eyðublöðin eru tilbúin til notkunar á Ísland.is og vef sýslumanna, en þau snúa að mikilvægum fjölskyldumálum:
- Beiðni foreldris með sameiginlega forsjá um breytt lögheimili barns
- Svar við úrskurði um ákvörðun um utanlandsferð barns
- Beiðni um aukið meðlag
- Beiðni um úrskurð um einfalt meðlag
- Beiðni um niðurfellingu eða lækkun aukins meðlags