Hoppa yfir valmynd
5. september 2014 Utanríkisráðuneytið

Þátttaka efld í störfum Atlantshafsbandalagsins

Leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Wales lauk í dag, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, sátu fundinn fyrir Íslands hönd.

Á fundum aðildarríkja fyrr í dag tilkynnti forsætisráðherra um þær fyrirætlanir íslenskra stjórnvalda að efla þátttöku sína og framlög í þágu eigin varna og Atlantshafsbandalagsins. Hyggjast stjórnvöld fjölga borgaralegum sérfræðingum í störfum bandalagsins og auka fjárframlög í einstök verkefni þess, þ.á m. í Úkraínu. Þá munu stjórnvöld auka stuðning við loftrýmisgæslu hér á landi, þ.m.t. við þyrlubjörgunarþjónustu. 

Á fundunum voru leiðtogar aðildarríkjanna sammála um að snúa af braut lækkandi framlaga til varnarmála og samþykktu meðal annars sérstaka viðbragðsáætlun sem gerir ráð fyrir auknum viðbragðsflýti herafla og aukinni viðveru í austanverðri Evrópu. 

Í máli sínu lagði forsætisráðherra áherslu á mikilvægi Atlantshafstengslanna og sameiginlegra varna á tímum breytts öryggislandslags í austanverðri Evrópu. Minnti ráðherra einnig á norðurslóðir og mikilvægi þess að aðildarríki séu meðvituð um þróun mála þar. Þakkaði ráðherra þeim ríkjum sem sinnt hafa loftrýmisgæslu á Íslandi sem þjónaði þýðingarmiklu hlutverki í því tilliti. Einnig lagði ráðherra áherslu á gildi vefvarna og öryggis á hafinu, sem og framfylgd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Þá lýsti forsætisráðherra yfir áhyggjum af uppgangi ISIL hryðjuverkasamtakanna í Írak og Sýrlandi. 

Á fundi með forseta Úkraínu í NATO-Úkraínunefndinni, sem haldinn var í gær, áréttaði forsætisráðherra stuðning og samstöðu með stjórnvöldum í Úkraínu, og fordæmdi framferði Rússlandsstjórnar í landinu og ólögmæta innlimun Krímskaga. Hvatti ráðherra til þess að friðsamlegra leiða verði leitað til lausnar deilunni.

Á fundi með þátttökuríkjum alþjóðaaðgerðarinnar í Afganistan, sem einnig var haldinn í gær, áréttaði forsætisráðherra áframhaldandi stuðning íslenskra stjórnvalda við Afganistan eftir að núverandi aðgerð alþjóðaliðsins lýkur þar í árslok, en Afganistan er eitt af forgangsríkjum Íslands í þróunarsamvinnu. Sagði ráðherra mikilvægt að festa í sessi þann árangur sem náðst hefði, m.a. á sviði mannréttinda.

Leiðtogafundurinn í Wales var síðasti ráðherrafundur undir stjórn núverandi framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagins, Anders Fogh Rasmussen, sem lætur af embætti í lok mánaðarins. Hinn 1. október nk. mun Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hefja störf sem framkvæmdastjóri.

Á vef Atlantshafsbandalagsins, nato.int, má finna yfirlýsingar sem samþykktar voru á leiðtogafundinum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta