Hoppa yfir valmynd
2. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2021-Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 8/2021

 

Þvottavél í eldhúsi séreignar.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 2. febrúar 2021, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 8. mars 2021, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 17. mars 2021, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 2. júní 2021.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls fimm eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í kjallara hússins en gagnaðili er eigandi íbúðar á hæðinni þar fyrir ofan og risi. Ágreiningur er um hvort gagnaðila sé heimilt að hafa þvottavél og þurrkara í eldhúsi íbúðar sinnar.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að óheimilt sé að vera með þvottavél og þurrkara í eldhúsi í íbúð gagnaðila.

Í álitsbeiðni kemur fram að leigjandi gagnaðila sé með þvottavél og þurrkara í eldhúsi íbúðarinnar. Þvottavélin sé í gangi hálfan sólarhringinn alla daga. Húsið hafi verið byggt árið 1952 og sé með trégólfi með smá steypu ofan á. Á meðan þvottavélin og þurrkarinn séu í gangi nötri allt og skjálfi hjá álitsbeiðanda. Gólfið sé ekki gert fyrir þessi tæki og ekki heldur fráveitu- eða raflagnir hússins. Þá séu kröfur um hljóðvist ekki uppfylltar.

Í byggingarreglugerð segi að gólf þvottaherbergis skuli vera vatnshelt með niðurfalli og þannig frá gengið að ekki skapist hættuleg hálka þegar það blotni. Loft og veggir skuli þola gufu og raka. Þvottaherbergi skuli vera loftræst um opnanlegan glugga eða með vélrænni loftræstingu. Lágmarksstærð þvottaherbergis fyrir íbúð sé 3 fermetrar.

Þvottaherbergið eigi þannig að vera þrír fermetrar en gagnaðili hafi breytt því í íbúð sem sé ólögleg. Húsið sé forskalað, einangrað með dagblöðum.

Í greinargerð gagnaðila er gerð grein fyrir ýmsum samskiptavandkvæðum aðila sem ekki þykir ástæða til að greina nánar frá hér.

Leigjandi gagnaðila sé ekki með þurrkara í íbúðinni, enda sé það ekki hægt sökum plássleysis. Þá virði hún þær reglur sem gildi í fjölbýlishúsum og hún hafi þvottavélina ekki í gangi eftir klukkan 22:00 á kvöldin.

Þvottavélin sé staðsett í íbúð gagnaðila þar sem uppþvottavél hafi áður verið. Þvottavélin sé tengd við sömu raf- og frárennslislagnir og uppþvottavélin hafi verið. Samkvæmt upplýsingum rafvirkjameistara sé sama nýting á rafmagni á þvottavél og uppþvottavél og eldhætta sé ekki meiri þótt þvottavél sé staðsett í rýminu.

Rafvirkjameistarinn hafi skoðað íbúðina og niðurstaða hans sé sú að raflagnir í eldhúsinu þoli þvottavél. Hann hafi þó gert athugasemdir við að koparvírar í rafmagnstöflu hússins væru brenndir. Bruninn hafi stafað af því að álitsbeiðandi setji of mikið álag á raflagnirnar í íbúð sinni sem hafi orsakað bruna í vírum.

Eldhús sé skilgreint sem votrými. Nú séu allar nýlegar þvottavélar með slöngurofsloka. Það þýði að fari þvottavél að flæða þá klippi þvottavélin á vatnið svo að takmarkað vatn renni úr vélinni.

Fullyrðing um að húsið sé forskalað með timburgólfi með smá steypu sé röng. Húsið sé steypt og þar af leiðandi sé steypt gólf á milli hæða.

Á teikningum hússins megi sjá að ekki sé gert ráð fyrir þvottahúsi fyrir íbúð gagnaðila nema í kjallara hússins. Það sé ekkert þvottahús inni í íbúðinni sjálfri og það kosti bæði töluvert rask og fjármuni að útbúa þvottahús innan íbúðarinnar. Staðsetning þvottavélarinnar sé tímabundin ráðstöfun og skapi það ekki sérstaka eld- eða vatnsflóðahættu samkvæmt þeim upplýsingum sem gagnaðili hafi aflað frá sérfræðingum.

Fullyrðing um að þvottaherbergi fyrir íbúð gagnaðila eigi að vera í sérstæðu húsi eigi ekki við nein rök að styðjast. Þar hafi aldrei verið útbúið þvottaherbergi fyrir íbúðina og rýmið hafi ekki verið nýtt sem slíkt. Gagnaðili hafi tímabundið flutt vélarnar þar inn eftir að álitsbeiðandi hafi látið henda út þvottavél hennar og þurrkara úr sameiginlegu þvottahúsi.

III. Forsendur

Deilt er um heimild gagnaðila til að hafa þvottavél í eldhúsi íbúðar sinnar en upplýst er að leigjandi gagnaðila sé ekki með þurrkara eins og álitsbeiðandi heldur fram.

Í 3. tölul. 13. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, kemur fram að ein af helstu skyldum eigenda sé að taka eðlilegt og sanngjarnt tillit til annarra eigenda við hagnýtingu séreignar. Í 1. mgr. 26. gr. sömu laga segir að eigandi hafi einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem greini í lögum þessum eða öðrum lögum sem leiði af óskráðum grenndarreglum eða eðli máls eða byggist á löglegum ákvörðunum og samþykktum húsfélagsins. Í 2. mgr. sömu greinar segir að eiganda sé skylt á sinn kostnað að halda allri séreign sinni vel við og haga afnotum og hagnýtingu hennar með þeim hætti að aðrir eigendur eða afnotahafar í húsinu verði ekki fyrir ónauðsynlegu og óeðlilegu ónæði, þ.e. meiri ama, ónæði og óþægindum en óhjákvæmilegt sé og eðlilegt þyki í sambærilegum húsum.

Álitsbeiðandi segir að ónæði stafi af því að þvottavél sé nú staðsett í eldhúsinu. Hún sé í gangi alla daga og hjá álitsbeiðanda nötri allt og skjálfi þegar hún sé í gangi.

Með hliðsjón af því að notkun þvottavéla í séreignum fellur almennt undir eðlileg afnot séreignar og að engin gögn liggja fyrir sem staðfesta að þvottavélin valdi röskun á svefnfriði á næturnar telur kærunefnd ekki unnt að fallast á kröfu álitsbeiðanda.

 


 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 2. júní 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                                      Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta