Frumvörp forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um Seðlabanka Íslands samþykkt í ríkisstjórn
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi frumvarp forsætisráðherra um Seðlabanka Íslands og frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.
Með frumvörpunum er lagt til að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið verði sameinuð í eina stofnun. Markmið sameinaðrar stofnunar verða að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Lagðar eru til breytingar á stjórnskipan sem tengjast sameiningu stofnananna en lagt er til að einn varaseðlabankastjóri leiði málefni sem varða hvert þriggja meginmarkmiða Seðlabankans. Seðlabankastjóri ber ábyrgð á rekstri og stjórnun Seðlabankans í heild og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum bankans sem ekki eru öðrum falin. Þrjár nefndir munu taka ákvarðanir um beitingu tiltekinna valdheimilda bankans. Þær eru peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd. Nefndirnar eru skipaðar 5-7 aðilum, bæði embættismönnum Seðlabankans og utanaðkomandi sérfræðingum á viðkomandi sviðum. Bankaráð mun hafa eftirlit með því að Seðlabankinn starfi í samræmi við þau lög sem um starfsemina gilda.
Í frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins koma fram breytingar á þrjátíu lögum. Meðal annars eru breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Að auki eru lagðar til þær breytingar á öðrum lögum um fjármálastarfsemi sem nauðsynlegar eru vegna sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Af breyttu skipulagi Seðlabankans leiðir að lagt er til að kerfisáhættunefnd verði lögð niður og að hlutverki fjármálastöðugleikaráðs verði breytt.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Meginleiðarljós með þessari vinnu er að efla traust, gagnsæi og skilvirkni. Þær breytingar sem lagðar eru til í þessum frumvörpum eru að verulegu leyti byggðar á niðurstöðum þeirra sérfræðinga sem undanfarin ár hafa unnið skýrslur að beiðni stjórnvalda um besta fyrirkomulag stjórnskipunar peningamála, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits. Ég bind vonir við að þetta frumvarp reynist heillaspor fyrir íslenska efnahagsstjórnun.“