Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Jökulsárlón og nærliggjandi svæði friðlýst sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs

Frá friðlýsingunni í dag - mynd

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu Jökulsárlóns og umfangsmikilla svæða sem liggja að lóninu. Um leið er svæðið fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Þar með nær þjóðgarðurinn frá hæsta tindi landsins niður að fjöru. Þessi breyting felur í sér að hluti þjóðvegar 1 liggur nú í gegn um þjóðgarð í fyrsta sinn.

Friðlýsingin tekur til jarðarinnar Fells og nærliggjandi þjóðlenda. Gengið var frá kaupum ríkisins á Felli í Suðursveit í janúar sl. Jörðin Fell nær yfir Jökulsárlón að hluta og á landamerki að þjóðlendum vestan vegna lónsins og norðaustur af Felli. Með friðlýsingunni nú eru þessi svæði felld inn í Vatnajökulsþjóðgarð, alls um 189 ferkílómetrar. Er Vatnajökulsþjóðgarður þar með 14.141 ferkílómetrar að flatarmáli.

Sérstaða landsvæðisins er mjög mikil. Það er mótað af framgangi og hopun jökla og einkennist af sérstæðum jökulöldum. Ein helsta náttúruperla svæðisins er Jökulsárlón sem er stærsta og þekktasta jaðarlón á landinu. Með friðlýsingunni nær Vatnajökulsþjóðgarður nú einnig yfir stóran hluta Breiðamerkursands og meginhluta Fjallsárlóns. Á öllu þessu svæði er rekin umfangsmikil ferðaþjónusta.

Með því að fella svæðið inn í Vatnajökulsþjóðgarð er verndun og stjórnun þess betur samræmd, m.a. hvað varðar umgengni og öryggi ferðamanna. Svæðið er hluti rekstrareiningar suðursvæðis þjóðgarðsins og svæðisráð sem er undir formennsku sveitarfélagsins Hornafjarðar. Framundan eru krefjandi verkefni við uppbyggingu innviða og landvörslu á svæðinu.

Þá styrkir friðlýsingin vinnu við tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs sem náttúruminja á heimsminjaskrá UNESCO sem unnið hefur verið að um nokkurt skeið.

Vatnajökulsþjóðgarður eftir friðlýsingu (pdf-skjal)

 Svæðið eftir stækkun:

Útlínur sýna svæðið sem hefur verið friðlýst.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta