UN Women vinnur að auknu öryggi kvenna á mörkuðum á Fiji
„Alla mína ævi hef ég byggt sjálfsmynd mína á því að vera eiginkona og móðir. Ég var ekki alin upp í þeirri trú að ég gæti verið leiðtogi. Þetta er svo sannarlega ný áskorun fyrir mig að tala máli kvenna og berjast fyrir réttindum okkar. Ég er svo þakklát UN Women fyrir að veita mér þetta sjálfstraust og trú á eigin hæfileika og getu. Það er ómetanlegt að fá verkfæri til að bæta vinnuaðstæður og standa vörð um öryggi og hagsmuni sölukvennanna hér á mörkuðunum,“ segir Susanna, ein þeirra kvenna sem hafa notið góðs af verkefni UN Women á Fiji eyjum.
UN Women er með verkefni sem nefnist „Markets 4 Change“ á Fiji, Salómonseyjum og Vanuatu í Suður-Kyrrahafi sem miðar að því að valdefla konur efnahagslega við störf sín á sölumörkuðum. Að sögn Stellu Samúelsdóttur framkvæmdastýru UN Women á Íslandi sem heimsótti Fiji á dögunum hefur verið stofnað markaðsráð þar sem konur eru í fararbroddi.
„Þannig er konum veitt ákvörðunarvald um vinnustaðinn, þær greina þarfir sínar og UN Women tryggir að tekið sé mið af þeim þörfum. Í kjölfarið hefur öryggi kvenna verið bætt á mörkuðum með einföldum en áhrifaríkum lausnum eins og fjölga salernum kvenna, sölubásum er stillt þannig að konur snúi aldrei bak í viðskiptavini markaðanna auk þess sem útbúin hafa verið örugg svefnpláss fyrir sölukonur sem koma langt að sem kemur í veg fyrir ofbeldi og þjófnaði. Síðast en ekki síst veitir UN Women konum leiðtogaþjálfun og námskeið í fjármálalæsi, rekstri og stjórnun,“ segir Stella.
Í Suður-Kyrrahafi mælist ofbeldi gegn konum og stúlkum með því hæsta í heiminum, að sögn Stellu, en 68% kvenna hafa verið beittar líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. „Í gegnum tíðina hafa fyrir fram mótaðar hugmyndir um hlutverk kynjanna haldið aftur af konum við að taka virkan þátt á vinnumarkaði. Kynhlutverk og staða aftrar konum við að láta til sín taka utan heimilisins, þeim hefur reynst erfitt að fá hljómgrunn og hafa takmarkað vald til ákvarðanataka bæði innan heimilisins sem og utan þess,“ segir hún.
Á bilinu 75-90% söluaðila á mörkuðum á Suður-Kyrrahafseyjum eru konur. Þær vinna að sögn Stellu langa daga og fá lág laun við slæmar vinnuaðstæður. Hún segir að þrátt fyrir að þær myndi meirihluta seljenda á mörkuðum sé þeim haldið utan við ákvarðanatökur og stjórnun markaðanna.
„Suður-Kyrrahafseyjar eru 330 talsins og líkt og gefur að skilja eru samgöngur flóknar í ljósi fjölda eyjanna. Um 80% íbúa eyjanna búa í dreifbýli og hafa fyrst og fremst lífsviðurværi af landbúnaði, fiskveiði og ræktun. Ræktun og fiskveiði af landi er fyrst og fremst á herðum kvenna auk þess sem umönnunar- og heimilisstörf eru alfarið unnin af konum. Síðast en ekki síst eru konur í flestum tilfellum þær sem selja afurðir á mörkuðum í þéttbýli,“ segir Stella Samúelsdóttir.
Því er við að bæta að UN Women er ein af lykilstofnunum í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands en eins og kunnugt er leggur Ísland mikla áherslu á jafnrétti kynjanna á heimsvísu og utanríkisráðuneytið styður því myndarlega við þessa áherslustofnun.