Hoppa yfir valmynd
21. júní 2019 Forsætisráðuneytið

795/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019

Úrskurður

Hinn 14. júní 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 795/2019 í máli ÚNU 18080003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 10. ágúst 2018, kærði A ákvörðun Landspítala-Háskólasjúkrahúss (LSH), dags. 17. júlí 2018, um að synja beiðni um aðgang að upplýsingum um nöfn lækna sem framkvæmdu magahjáveitu- og magaermisaðgerðir á árunum 2006 til 2016, sundurliðað eftir árum, ráðningarsamband þeirra við LSH auk fastra launakjara sundurliðaðra á sama hátt eftir árum.

Ákvörðun LSH var tekin í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 738/2018, þar sem beiðni kæranda var vísað til nýrrar meðferðar hjá spítalanum. Í síðari ákvörðun LSH kemur í fyrsta lagi fram að ekkert eitt skjal eða gagn hafi verið til hjá spítalanum sem veitt hafi getað svar við öllum þáttum fyrirspurnar kæranda við meðferð beiðni hans. Ekkert fyrirliggjandi gagn sé hjá spítalanum sem svari öllum þeim atriðum sem nú séu til umfjöllunar. Því næst er vikið að því hvort unnt sé að svara einstökum þáttum fyrirspurnarinnar, þ.e. nöfn þeirra lækna sem framkvæmdu umræddar aðgerðir, ráðningarsamband þeirra við LSH, starfssvið og föst launakjör.

Varðandi starfssviðið tekur LSH fram að til að framkvæma aðgerðir af þessu tagi þurfi sérmenntun á sviði skurðlækninga, einkum á sviði kviðarhols og meltingarfæra. Aðgerðir af þessu tagi væru framkvæmdar á aðgerðarsviði, nánar tiltekið á kviðarhols- og þvagfæradeild og starfssvið læknanna væri kviðarholsskurðlækningar. Um nöfn viðkomandi lækna tekur LSH fram að upplýsingar séu fengnar úr sjúkraskrám sjúklinga, sem vistaðar séu í sérstökum gagnaskrám á tölvutæku formi. Unnt hafi verið að veita tölfræðilegar upplýsingar úr þessum tölvukerfum, þó að LSH hafi þurft að vinna þær sérstaklega til að koma þeim á form sem afhenda mætti kæranda. Öðru máli gegni hins vegar um kröfu kæranda um að upplýst verði um það hvaða læknar framkvæmdu aðgerðirnar og hvert ráðningarsamband hafi verið við LSH. Um sjúkraskrár ríki sérstök trúnaðarskylda og aðgangur að þeim sé varinn með sérstökum lögum nr. 55/2009. Til að staðreyna hvaða læknar framkvæmdu hverja aðgerð fyrir sig þurfi að fara inn í sjúkraskrá hvers sjúklings og kanna skráningu á aðgerð viðkomandi. Sú vinna sé tímafrek og LSH sé auk þess með öllu óheimill aðgangur að sjúkraskrám einstakra sjúklinga í þessum tilgangi. Þá bendir LSH sérstaklega á að samkvæmt greinargerð með frumvarpi sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 nái upplýsingaréttur almennings almennt ekki til gagnagrunna eða skráa sem fyrir liggi hjá stjórnvöldum. Á LSH liggi fyrir gögn um ráðningarsamband og launakjör einstakra starfsmanna greind eftir nöfnum viðkomandi starfsmanns.

Í hinni kærðu ákvörðun er vikið að efni 4. tölul. 6. gr., sbr. 7. gr., upplýsingalaga og færð fyrir því rök að jafnvel þó ekki liggi fyrir gögn um nöfn lækna sem framkvæmdu tilteknar aðgerðir, ráðningarsamband þeirra við spítalann og launakjör, væru slík gögn undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt ákvæðinu. Kæranda var hins vegar bent á að takmarka mætti beiðni við skurðlækna á kviðarhols- og þvagfæradeild spítalans.

Í kæru kemur fram að kærandi telji augljóst að í upphafi málsins hafi verið ákveðið að synja honum um umbeðnar upplýsingar og svo reynt með öllum ráðum að verja þá ákvörðun. Slíkt sé í andstöðu við eðlilega afgreiðslu þar sem stjórnvaldi beri að taka afstöðu til fyrirliggjandi gagna, hagsmuna og laga. Kærandi mótmælir þeirri staðhæfingu LSH að leyfi vísindasiðanefndar þurfi til að fletta megi í sjúkraskrám til að finna nöfn lækna sem hafa framkvæmt skurðaðgerðir. Samantekt nafna úr sjúkraskrám geti ekki talist vera vísindarannsókn. Þá segir kærandi það ekki rétt að fara þurfi inn í hverja einustu sjúkraskrá til að finna nöfnin. Forritin Saga og Askja geri það að verkum að hægt sé fyrirhafnarlaust að finna lækna sem gert hafi ákveðnar aðgerðir á ákveðnum tímum.

Kærandi mótmælir því að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Ekki sé gerð sú krafa að allt sem fyrirspurn lúti að skuli rúmast í einu gagni. Gögnin séu til og liggi fyrir, ekki þurfi að útbúa ný gögn heldur aðeins safna saman upplýsingum sem þegar séu til í fyrirliggjandi gögnum. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til minnisblaðs forsætisráðuneytisins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 5. febrúar 2014, þar sem fjallað sé um 7. gr. upplýsingalaga og túlkun ákvæðisins. Þá bendir kærandi á grein um árangur magahjáveituaðgerða í Læknablaðinu, þar sem fram komi að klínískum upplýsingum um sjúklinga hafi verið safnað í gagnagrunn offituaðgerða sem sé hluti af sjúkraskrárkerfi LSH. Þá hafi upplýsinga verið aflað úr sjúkraskrám allra sem gengust undir aðgerðina á tilteknu tímabili.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 19. ágúst 2018, var LSH kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem hún lýtur að.

Í umsögn LSH, dags. 31. ágúst 2018, er í upphafi vísað til þeirra röksemda sem fram komu í hinni kærðu ákvörðun. Hins vegar telur LSH nauðsynlegt að leiðrétta staðhæfingar kæranda í kæru. LSH hafnar kenningum kæranda um ástæður þess að spítalinn synjaði beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum upplýsingum. Hvað varðar tilvísanir kæranda til greinar lækna í Læknablaðinu bendir LSH á að í 12. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 komi fram að allur aðgangur að sjúkraskrám sé óheimill nema til hans standi lagaheimild samkvæmt lögum um sjúkraskrár eða öðrum lögum. Um aðgang að sjúkraskrám til vísindarannsókna fari hins vegar eftir lögum nr. 44/2014, þar sem gerður sé greinarmunur á gagnarannsóknum og rannsóknum á mönnum. Þá sé gerður greinarmunur á vísindasiðanefnd og siðanefndum heilbrigðisrannsókna, en þær síðarnefndu starfi innan heilbrigðisstofnana. LSH telur að hugtakið rannsókn beri að túlka rúmt, þannig að það taki til hvers konar könnunar, skoðunar eða annarrar öflunar upplýsinga án tillits til þess í hvaða tilgangi þeirra er aflað. Meginmáli skipti hvaðan upplýsinga sé aflað. Til að nálgast umbeðnar upplýsingar þurfi að safna þeim saman úr sjúkraskrám þeirra einstaklinga sem gengust undir aðgerðirnar og í ljósi ákvæða laga nr. 55/2009 verði það ekki gert nema til þess liggi sérstök heimild.

LSH tekur fram að engu máli skipti þótt spítalinn hafi yfir að ráða sérútbúnum tölvukerfum, svo sem Sögu og Öskju, enda geri kærandi ekki greinarmun á getu LSH til að nálgast umbeðnar upplýsingar annars vegar og heimildum til að nálgast þær hins vegar. Þá sé réttur almennings til aðgangs að gagnaskrám utan við rétt almennings til upplýsinga samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga.

Með bréfi, dags. 6. september 2018, var umsögn LSH kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum um kæruna í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 16. september 2018, kemur fram að kærandi fái ekki séð að umsögnin bæti nokkru við það sem áður hafi komið frá LSH. Kærandi mótmælir túlkun LSH á hugtakinu starfssamband í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Hugtakið vísi til réttar og skyldna starfsmanna sem seldir séu undir stjórnsýsluvald, sbr. athugasemdir við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laganna og úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 748/2018.

Kærandi andmælir fullyrðingu LSH að leyfi vísindasiðanefndar þurfi til að fara megi í sjúkraskrár og finna nöfn lækna. Kærandi kveðst hafa sent nefndinni fyrirspurn sem hafi staðfest að ekki væri um vísindarannsókn að ræða. Þá bendir kærandi á að upplýsingar um aðgerðalækna hljóti að liggja fyrir í öðrum gögnum en sjúkraskrám, t.d. í launabókhaldi og víðar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um nöfn lækna sem framkvæmdu magahjáveitu- og magaermisaðgerðir á árunum 2006 til 2016, sundurliðað eftir árum, ráðningarsamband þeirra við LSH auk fastra launakjara sundurliðaðra á sama hátt eftir árum. Hin kærða ákvörðun um synjun beiðni kæranda er byggð á því að umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, þar sem safna þurfi þeim saman úr sjúkraskrám sjúklinga.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er tekið fram að skylt sé ef þess sé óskað að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þá er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna, en það á við þegar gögn eru afhent að hluta ef takmarkanir eiga við um aðra hluta þeirra. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga. Þá kemur einnig fram að hafi sá, sem beiðni um upplýsingar er beint til, ekki fengið viðkomandi gagn afhent við meðferð máls en einvörðungu haft aðgang að upplýsingum úr því í gagnagrunni sem ekki tilheyrir honum sjálfum þá teljist gagn að jafnaði ekki fyrirliggjandi í þessu sambandi.

Úrskurðarnefndinni þykir rétt að taka fram að í gildistíð eldri upplýsingalaga var fjallað um afhendingu upplýsinga úr gagnagrunnum og skrám, m.a. í máli nr. A-447/2012. Í því máli var ekki talið skylt að afhenda gögn úr gagnagrunni, m.a. þar sem umbeðnar upplýsingar tilheyrðu ekki tilteknu máli í skilningi þágildandi 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í eldri upplýsingalögum var ekki að finna þá reglu sem 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 hefur að geyma. Svo stjórnvaldi verði gert skylt að afhenda upplýsingar úr gagnagrunnum eða skrám þurfa þær upplýsingar nú aðeins að vera fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, hvort sem þær tilheyra tilteknu máli eða ekki. Því er ekki unnt að fallast á það með LSH að það komi sjálfkrafa í veg fyrir upplýsingarétt kæranda að umbeðnar upplýsingar sé að finna í gagnagrunni, eins og fram kemur í umsögn spítalans.

Eins og málið liggur fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál þykir ljóst, að þær upplýsingar sem kærandi óskar eftir aðgangi að, er að finna í sjúkraskrám sem LSH varðveitir á grundvelli laga um sjúkraskrár nr. 55/2009, sbr. einnig ákvæði laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að draga í efa þá fullyrðingu LSH að upplýsingarnar sé ekki að finna í öðrum gögnum í vörslum spítalans. LSH telur sér hins vegar óskylt að safna saman upplýsingum um lækna sem framkvæmt hafa tilteknar aðgerðir úr sjúkraskrám á grundvelli ákvæða upplýsingalaga og raunar óheimilt samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2009 og laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði nr. 44/2014.

Eins og beiðni kæranda er sett fram, og þegar tekið er tillit til þess hvernig umbeðnar upplýsingar eru varðveittar í vörslum LSH, lýtur beiðnin að því að upplýsingum verði safnað saman úr mörgum fyrirliggjandi gögnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur margsinnis komist að þeirri niðurstöðu að í upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum felist ekki réttur til að útbúin verði ný gögn eða upplýsingar teknar saman úr fyrirliggjandi gögnum, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar nr. 698/2017 og 748/2018. Ekki skiptir máli í þessu sambandi þótt spítalinn geti búið til yfirlit um umbeðnar upplýsingar með sérstökum forritum en úrskurðarnefndin tekur fram að spítalanum kann að vera heimilt að afgreiða beiðni kæranda með því að búa slíkt yfirlit til, sbr. 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, enda standi aðrar lagareglur því ekki í vegi, þar á meðal ákvæði laga um þagnarskyldu og persónuvernd.

Samkvæmt framangreindu verður að leggja til grundvallar að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá LSH í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá. Að fenginni þessari niðurstöðu telur nefndin óþarft að taka afstöðu til þess hvort ákvæði laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 eða annarra laga takmarki rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum upplýsingum.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 10. ágúst 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir      Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta