Áætlaður fjárhagslegur ávinningur ríkissjóðs vegna Kaupþings/Arion banka rúmir 150 ma.kr.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur til nánari skýringar tekið saman yfirlit yfir fjárhagsleg áhrif vegna endurreisnar Arion banka í kjölfar fjármálaáfallsins 2008 og tekna af stöðugleikaframlagi Kaupþings í ríkissjóð í tengslum við samning slitabúsins við Seðlabanka Íslands vegna veitingar undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Áður hefur komið fram að þessi áhrif nema samanlagt ríflega 150 ma.kr. og sundurliðast sú fjárhæð sem hér segir:
Upphaflegt framlag vegna stofnunar Arion banka | -9,9 | |
Vaxtagjöld af RIKH 18 vegna hlutafjárframlags | -6,7 | |
Eignarhlutir í Arion banka | 9,9 | |
Arðstekjur frá Arion banka | 2,7 | |
Aukning á virði Arion banka við beitingu kaupréttar | 13,5 | |
Kaupréttarverð | 23,4 | |
Samtals ávinningur af hlutafjárframlagi til Arion banka | 9,6 | |
Fjármögnun víkjandi lána | -29,4 | |
Viðbótarframlag vegna víkjandi lána | -6,5 | |
Vaxtagjöld af RIKH 18 vegna fjármögnunar víkjandi lána | -6,7 | |
Tekjur af víkjandi lánum | 8,3 | |
Virði víkjandi láns | 35,9 | |
Samtals ávinningur af víkjandi lánum án gengisáhrifa | 1,7 | |
Nettó tekjur ríkisins af framlögum vegna stofnunar Arion Banka | 11,2 | |
Matsvirði stöðugleikaeigna | ||
Þar af skuldabréf vegna Arion banka | 84,0 | |
Þar af áætlað vegna afkomuskiptasamnings vegna Arion banka | 19,5 | |
Þar af aðrar eignir | 23,8 | |
Vaxtatekur af skuldabréfi vegna Arion banka | 8,2 | |
Áætluð breyting á virði annarra stöðugleikaeigna | 4,4 | |
Samtals tekjur af stöðugleikaeignum | 139,9 | |
Nettó heildartekjur ríkisins vegna Kaupþings og Arion banka | 151,1 |
Til skýringar á einstökum liðum skal eftirfarandi tekið fram:
Byrjunarstofnframlag ríkissjóðs vegna hinna nýju viðskiptabanka var staðgreitt í október 2008, en við endanlega stofnfjármögnun þeirra á árunum 2009 og 2010 voru hlutafjárframlög og víkjandi lán fjármögnuð með útgáfu skuldabréfa, en stofnaður var sérstakur skuldabréfaflokkur með breytilegum vöxtum í þessu skyni (RIKH 18). Við endanlega fjármagnsskipan Arion banka voru framlög ríkissjóðs samtals 39,3 ma.kr., sem skiptust í hlutafé annars vegar og víkjandi lán hins vegar. Síðar fékk Arion banki viðbót í formi víkjandi lána að fjárhæð 6,5 ma.kr. Ríkissjóður hefur frá upphafi greitt Arion banka 13,3 ma.kr. í vexti af þeim skuldabréfum sem bankanum voru afhent. Víkjandi lán ríkissjóðs til Arion banka voru tvö, alls að fjárhæð 35,9 ma.kr og voru þau að fullu uppgreidd um mitt ár 2016. Alls fékk ríkissjóður 8,3 ma.kr. í vaxtatekjur af þeim víkjandi lánum, en áhrif þeirra lánveitinga eru hér sýnd án gengisáhrifa. Hlutafjárframlag til Arion banka var metið 9,9 ma.kr. en söluverð hlutarins við nýtingu kaupréttar Kaupþings nam 23,4 ma.kr.
Stöðugleikaframlög slitabús Kaupþings í upphafi árs 2016 voru metin á alls 127,3 ma.kr. Stærstur hluti þeirra var í formi skuldabréfs sem Kaupþing gaf út til ríkissjóðs með veði í hlutabréfum Arion banka að fjárhæð 84 ma.kr. og nema ætlaðar vaxtatekjur af því skuldabréfi 8,2 ma.kr. Þá er afkomuskiptasamningur í tengslum við sölu á Arion banka metinn á 19,5 ma.kr. Matsvirði annarra eigna nemur 23,8 ma.kr. og loks er áætluð breyting á virði þeirra um 4,4 ma.kr.