Ný heilbrigðisstefna kynnt á opnum fundi á Akureyri 12. júní
Efnt verður til opinna kynningarfunda um nýsamþykkta heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í öllum heilbrigðisumdæmum landsins og verður fyrsti fundurinn haldinn í Hofi á Akureyri 12. júní næstkomandi. Fjallað verður um hvað felst í stefnunni, hvaða breytingar hún er líkleg til að hafa í för með sér og hvers vegna hún skiptir svo miklu máli, hvort heldur í þéttbýli eða í dreifðari byggðum landsins.
Heilbrigðisstefna – stefna fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi 3. júní síðastliðinn. Kallað hefur verið eftir stefnu í heilbrigðismálum hér á landi um árabil og hafa nokkrar atrennur verið gerðar að slíkri stefnumótun frá því að heilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi árið 2001 rann sitt skeið árið 2010. Samþykkt stefnunnar markar því tímamót.
Í meginatriðum snýst heilbrigðisstefnan um um hvernig skapa megi heildstætt heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn sem tryggir sjúklingum samfellda þjónustu á réttu þjónustustigi þar sem saman fara gæði, öryggi, skilvirkni og hagkvæmni.
Fundurinn í Hofi 12. júní hefst kl. 17.00.
Dagskrá:
- Kynning stefnunnar: Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra
- Sýn forstjóra: Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands
- Sýn forstjóra: Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri
Að loknu erindi hvers frummælanda gefst fundargestum kostur á að beina til þeirra fyrirspurnum. Eftir stutt kaffihlé verða pallborðsumræður.
- Pallborðsumræður: Þátttakendur í pallborði auk frummælenda verða María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, Valdimar O. Hermannsson, bæjarstjóri á Blönduósi og Elsa B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu.
Fundarstjóri verður Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.
Athygli er vakin á því að streymt verður beint frá fundinum og verður streymið aðgengilegt á vef sjónarpsstöðvarinnar N4, vef Stjórnarráðsins; www.stjornarradid.is og á vefsvæði heilbrigðisráðuneytisins; www.hrn.is.