Hoppa yfir valmynd
16. desember 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 461/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 461/2020

Miðvikudaginn 16. desember 2020

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 24. september 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 13. ágúst 2020, um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir vinnuslysi X þegar hún var að […] og brenndist illa á vinstra handarbaki. Tilkynning um slys, dags. 27. apríl 2018, var send til Sjúkratrygginga Íslands sem samþykktu bótaskyldu. Með bréfi, dags. 19. desember 2019, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hefði verið metin 5%. Kærandi óskaði eftir endurskoðun á ákvörðuninni með tölvupósti 27. febrúar 2020 og lagði fram matsgerð D læknis og E lögmanns, dags. 6. nóvember 2019. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 13. ágúst 2020, var kæranda tilkynnt að niðurstaða endurupptöku málsins væri sú að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teldist 5%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. september 2020. Með bréfi, dags. 25. september 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 29. október 2020, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. október 2020. Engar athugasemdir bárust.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku verði endurskoðuð og að úrskurðarnefndin taki mið af matsgerð D læknis og E lögmanns, dags. 6. nóvember 2019, við mat á læknisfræðilegri örorku kæranda.

Í kæru segir að kærandi hafi orðið fyrir slysi X við starfa sinn fyrir F. Slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi brennst illa á vinstra handarbaki þegar hún hafi verið að […] og hlotið þriðja stigs bruna.

Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi, sem hafi borist lögmanni kæranda 23. desember 2019, hafi Sjúkratryggingar Íslands tilkynnt að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða í tilviki kæranda þar sem örorka hennar vegna slyssins hafi verið metin minni en 10%, eða 5%. Meðfylgjandi hafi verið matsniðurstaða G, tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands, en hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að einkenni kæranda væru best talin samrýmast kafla VII.A.d. í miskatöflum örorkunefndar og með vísan til þess teldist varanleg læknisfræðileg örorka hæfilega metin 5% (fimm af hundraði).

Þann 27. febrúar 2020 hafi verið óskað eftir því að Sjúkratryggingar Íslands myndu endurskoða fyrri ákvörðun með tilliti til matsgerðar D læknis og E lögmanns, dags. 6. nóvember 2019, en í þeirri matsgerð hafi varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins verið metin 10%.

Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 13. ágúst 2020, sem hafi borist lögmanni kæranda 21. ágúst 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að yfirferð yfir matsgerðirnar gæfi ekki tilefni til að breyta ákvörðun. Þá segi orðrétt:

„Mat G er vel rökstutt. Mat D og E virðist vera að álitum og er ekki rökstutt á nægilega skýran hátt hvernig þeir fá sínu miskatölu, 10 stig. Það er mat Sjúkratrygginga Íslands, að í tillögu G sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með vísan til miskataflan örorkunefndar (2020).“

Kærandi geti ekki sætt sig við framangreinda niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands og telji nauðsynlegt að nefndin endurskoði ákvörðunina með tilliti til fyrirliggjandi matsgerða.

Kærandi byggi á því að fyrirliggjandi matsgerð D læknis og E lögmanns sé ítarleg og vel rökstudd. Í matinu sé lagt til grundvallar að kærandi hafi hlotið varanlegan áverka á vinstri hendi sem hafi valdið verkjum á áverkasvæði og hreyfiskerðingu í fingrum ásamt breytingu á skyni. Með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar teljist miski hæfilega metinn 10 stig. Samkvæmt samtali við D matslækni hafi hann ekki talið hægt að heimfæra einkenni kæranda undir einn lið í miskatöflunum, en liður VII.A.d. hafi verið hafður til hliðsjónar.

Þá segir að í kafla um núverandi einkenni kæranda á bls. 4 í fyrrnefndri matsgerð sé meðal annars vísað til þess að hún sé með verki í örinu og þreytu í vinstri hendi. Verkirnir komi einnig til á næturnar. Þá sé litlifingur vinstri handar krepptur og hún eigi það til að missa hluti úr hendinni. Einnig sé vísað til einkennalýsingar kæranda þar sem hún kveðst alltaf finna fyrir verk framan á vinstri hönd þar sem áverkinn varð og einkenni aukist við allt álag, til dæmis við að lyfta þungu. Þá sé hreyfigetan skert og kraftur minnkaður. Kærandi hafi einnig lýst því að hún finni stundum fyrir náladoða og kláða á áverkasvæðinu og togi þegar hún hreyfi sig. Hún noti hanska til að verja sig í kulda og þurfi stundum að sofa með teygjusokk.

Í matsgerð þeirra D og E sé vísað til þess á bls. 5 að við skoðun hafi kærandi verið með hersli í örinu og hreyfiskerðingu í löngutöng, baugfingri og litlafingri. Þá sé í niðurstöðu varðandi miska vísað til þess að lagt sé til grundvallar að um sé að ræða varanlega áverka á vinstri hendi með hreyfiskerðingu í fingrum og verkjum í hendi ásamt breytingu á skyni.

Tekið er fram að með matsgerð G, tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands, dags. 15. nóvember 2019, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda aftur á móti aðeins verið metin 5%. Í matinu sé vísað til þess að skoðun gefi til kynna afleiðingar eftir brunasár á handarbaki, hreyfiskerðingu í tveimur fingrum, úthaldsleysi til vinnu, minnkaðan styrk í lófakreppu. Í niðurstöðu matsgerðarinnar segi að einkenni kæranda séu best talin samrýmast kafla VII.A.d. í miskatöflum örorkunefndar og með tilvísun til þess teljist varanleg læknisfræðileg örorka hæfilega metin 3% (þrjú af hundraði). Verkir, óþægindi og útlit á öri hafi hækkað matið í 5% (fimm af hundraði).

Af framangreindu sé ljóst að G meti aðeins hreyfiskerðingu í tveimur fingrum á meðan D og E leggi til grundvallar hreyfiskerðingu í þremur fingrum ásamt breytingu á skyni. Að mati kæranda taki G þannig ekki nægt tillit til allra einkenna hennar og láti hjá líða að meta henni miska vegna hreyfiskerðingar í baugfingri og breytingar á skyni. Þá sé ljóst að í báðum matsgerðum sé horft til liðar VII.A.d. í miskatöflum, en engu að síður mismunandi heimfærsla í töflurnar. Kærandi byggi á því að heildstætt mat á einkennum hennar þurfi að fara fram og ekki sé hægt að líta fram hjá því að hún búi við viðvarandi einkenni eftir brunann sem hái henni verulega í daglegu lífi og í vinnu. Að öllu framangreindu virtu telji kærandi að leggja eigi matsgerð D læknis og E lögmanns til grundvallar mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, enda endurspegli matið betur raunverulegt ástand handar kæranda eftir slysið X.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að 30. apríl 2018 hafi stofnuninni borist tilkynning um vinnuslys sem kærandi hafi orðið fyrir X. Að gagnaöflun lokinni hafi Sjúkratryggingar Íslands tilkynnt með bréfi, dags. 16. maí 2018, að um bótaskylt slys væri að ræða.

Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 19. desember 2019, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 5% vegna umrædds slyss. Sjúkratryggingar Íslands hafi sent kæranda bréf, samdægurs, þar sem henni hafi verið tilkynnt að ekki yrði því um greiðslu örorkubóta að ræða, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Beiðni um endurupptöku ofangreindrar ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku kæranda, ásamt matgerð D læknis og E lögmanns, hafi borist Sjúkratryggingum Íslands með tölvupósti 27. febrúar 2020 þar sem lögmaður kæranda hafi óskað eftir því að stofnunin tæki málið til endurskoðunar með tilliti til niðurstöðu matsgerðar D læknis og E lögmanns, dags. 6. nóvember 2019. Fyrri ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið endurupptekin 13. ágúst 2020 og hafi Sjúkratryggingar Íslands komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að víkja frá fyrri ákvörðun. Mat stofnunarinnar hafi verið að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teldist áfram hæfilega ákveðin 5%.

Fram kemur að kærandi hafi slasast við vinnu sína X þegar hún hafi […] og hlotið þriðja stigs bruna á vinstra handarbaki. Kærandi hafi verið flutt samstundis á bráðamóttöku Landsspítala til aðhlynningar þar sem gert hafi verið að brunasári. Þann X hafi síðan verið framkvæmd aðgerð vegna sára á handarbaki, skemmdur vefur hafi verið fjarlægður og húð tekin frá innanverðu læri og grædd á handarbak. Kærandi hafi farið aftur til starfa eftir um þrjá mánuði, fyrst um sinn í 75% starf, en eftir um tvo mánuði í fullt starf.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 19. desember 2019, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 5%. Við ákvörðun H,                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                      yfirtryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands, dags. 19. desember 2019, hafi verið byggt á örorkumatstillögu G, dags. 15. nóvember 2019, byggðri á 12. gr. laga nr. 45/2015. Örorkumatstillaga G hafi verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna, auk viðtals og læknisskoðunar, sem fram hafi farið 11. nóvember 2019. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögunni sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar.

Við endurákvörðunina 13. ágúst 2018 hafi legið fyrir matsgerð D læknis og E lögmanns vegna sama slyss, dags. 6. nóvember 2019, og því hafi fyrri ákvörðun verið endurskoðuð í ljósi þessarar matsgerðar. H, yfirtryggingalæknir Sjúkratrygginga Íslands, hafi farið yfir öll gögn að nýju og rýnt nýju matsgerðina. Það hafi verið mat stofnunarinnar að ekki væri ástæða til að víkja frá fyrri ákvörðun. Niðurstaðan hafi því orðið sú að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teldist áfram hæfilega ákveðin 5%.

Þá segir að kærð sé niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands um 5% varanlega læknisfræðilega örorku. Í kæru, dags. 24. september 2020, sé farið fram á að við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku verði tekið mið af matsgerð D læknis og E lögmanns, dags. 6. nóvember 2019, þar sem varanleg læknisfræðileg örorka kæranda sé metin 10%.

Sjúkratryggingar Íslands geri sömu athugasemdir og í rökstuðningi með endurákvörðun, dags. 13. ágúst 2020: Yfirferð yfir matsgerðirnar gefi ekki tilefni til að breyta ákvörðun. Mat G sé vel rökstutt. Mat D og E virðist vera að álitum og sé ekki rökstutt á nægilega skýran hátt hvernig þeir fái miskatölu sína, 10 stig. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögu G sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með vísan til miskataflna örorkunefndar (2020).

Í örorkumatstillögu G séu einkenni kæranda af völdum slyssins talin vera væg hreyfiskerðing í nærkjúkuliðum litlafingurs og löngutangar, áberandi ör á handarbaki, þreyta og úthaldleysi til vinnu en skyn í lófanum og á fingurgómum sé eðlilegt. Við matið hafi verið tekið mið af VII.A.d. í miskatöflum örorkunefndar en um sé að ræða þrjá fingur sem vanti 1 cm á að nái inn í lófa ásamt verkjum, óþægindum og útlit á öri og því sé niðurstaðan eins og áður segi 5 stig.

Í ljósi þess að engin ný gögn hafi verið lögð fram með kæru, sem taka þurfi afstöðu til, muni Sjúkratryggingar Íslands ekki svara kæru efnislega með frekari hætti og vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í fyrirliggjandi endurákvörðun, dags. 13. ágúst 2020, og örorkumatstillögu G læknis, dags. 15. nóvember 2019.

Loks segir að það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki sé ástæða til að víkja frá fyrri ákvörðun. Með vísan til framangreinds sé það mat stofnunarinnar að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teljist áfram hæfilega ákveðin 5%.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 19. desember 2019, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 5% og með endurákvörðun 13. ágúst 2020 var niðurstaðan staðfest.

Í bráðamóttökuskrá, undirritaðri af læknunum I og J, dags. X, segir meðal annars um slysið:

„X ára kvk. Bruni á vi. handarbaki kl. X, […] (starfar í F).

[…]

Skoðun

Alm: Skýr og vel áttuð. Neitar verkjum.

Vi. handarbak: Nær frá handarbaki radialt og yfir á vísifingur, um 1/5 af handarbaki. Ekki skyntilfinning í brunasári.

Umræða og afdrif

Á/P:  3°bruni vi. handarbaki

- Fær 2 stk parkódein í triage.

- Haft samb við K, lýtalækni. Út frá sögu talinn þriðja stigs bruni. Ráðleggur vaselín og þurrar grisjur yfir. Bóka sjúkling í tíma á gd. Lýtalækninga á miðvikudag nk (7/3). [...]

- Fær með sér heim nokkrar parkódein ef hún skyldi þurfa verkjastillingu en ráðlagt að láta reyna á panodil í fyrstu þó.“

Í tillögu G læknis að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, dags. 15. nóvember 2019, segir svo um skoðun á kæranda 11. nóvember 2019:

„ A kveðst vera X cm á hæð, X kg og rétthent og snýst skoðun nú um hendur. Það er að sjá ör yfir handarbaki vinstri handar og nær örið frá miðju miðhandarbeini litla fingurs á ská yfir miðja miðkjúku löngutangar og endar þar geislungs megin. Þar sem örið er breiðast er það um 3 cm upp á handarbakinu og svo endar það í um 1 cm breidd niður á löngutöng. Húð í þessu svæði er greinilega öðruvísi, en mjúk, hún er laus frá undirlagi og virðist vera velheppnaður húðflutningur sem gróið hefur vel. Það er hreyfiskerðing á fingrum sérstaklega litla fingri og löngutöng þannig að það eru eðlilegir hreyfiferlar í grunnliðum litla fingurs og löngutangar. Það er skert rétta í nærkjúkulið litla fingurs þar sem réttan nær aðeins að 20°, það vantar 20° á fulla réttu upp í 0°. Beygja mælist 90°, en á hægri hendi er beygja 100° og rétt fer upp í 0°. Það er einnig hreyfiskerðing á fjærkjúkulið litla fingurs þannig að á hægri er beygjan 40°, á vinstri er hún 20°, á báðum fingrum er rétta í 0°. Þá er einnig væg hreyfiskerðing á löngutöng þar sem fjærkjúkuliður á hægri beygist í 110° en á vinstri en beygjan aðeins 80°, það er full rétta á báðum fingrum upp í 0°. Þegar A er beðin um að hnýta hnefa er hún greinilega að hlífa vinstri hendinni og það virðist sem vanti um 1 cm á að þriðji, fjórði og fimmti fingur nái inn í lófa. Skyn í lófanum er eðlilegt. Háræðafylling eðlileg. Skyn á fingurgómum eðlilegt. Neglur eru eðlilegar. A neitar öllum óþægindum frá þeim stað innanvert á hægra læri þar sem húð var sótt.

Skoðun gefur því til kynna afleiðingar eftir brunasár á handarbaki, hreyfiskerðingu í tveimur fingrum og úthaldsleysi til vinnu, minnkaðan styrk í lófakreppu..“

Í útskýringu tillögunnar segir svo:

„Hér er um að ræða væga hreyfiskerðingu í nærkjúkuliðum litla fingurs og löngutangar. Það er um að ræða áberandi ör á handarbaki, þreytu og úthaldsleysi til vinnu. Hér vísast því í töflur Örorkunefndar kafli VII Ad, það er um að ræða þrjá fingur sem vantar 1 cm á að nái inn í lófa og telur undirritaður þá miska vegna þessa til 3 stiga. Verkir, óþægindi og útlit á öri hækkar matið í 5 stig.“

Í matsgerð D læknis og E lögmanns, dags. 6. nóvember 2019, segir svo um skoðun á kæranda 27. ágúst 2019:

„A er rétthent. Hún kemur vel fyrir og er saga hennar eðlileg. Hreyfingar og gangur er eðlilegur. Skoðun að öðru leiti bundin við vinstri hendi. Hún er með ör sem nær frá úlnlið ölnar megin og fram á löngutöng. Þetta er pulsulaga ör sem er 11 cm að lengd og 2 cm breitt. Í örinu er hersli sem liggur frá handarbaki fram á löngutöng. Það vantar 1 og ½ cm að hún nái löngutöng, baugfingri og litlafingri að lófa. Það er 30° réttiskerðing um nærlið litlafingurs. A réttir úr öðrum fingrum en á hægri hendi er hún með yfirréttu um liði fingra sem ekki er í löngutöng og baugfingri vinstri handar. Hún lýsir tilfinningaleysi í öri en óþægilegri tilfinningu við þreyfingu aftanvert á baugfingri og litlafingri. Báðir framhandleggir mælast 23 cm þar sem sverast er. Hún kreistir fingur vel með vinstri hendi en lakar en með hægri.“

Í samantekt og niðurstöðu matsgerðarinnar segir:

„Um er að ræða X ára almennt heilsuhrausta konu sem lenti í slysi því sem hér er til umfjöllunar fyrir einu og hálfu ári síðan. Í vinnuslysinu þann X varð tjónþoli fyrir brunaáverka á vinstri hendi þegar hún brenndi handarbak sitt á […]. Var um 3. stigs bruna að ræða og var gerð aðgerð þar sem húð var flutt frá læri á skemmda svæði. Tjónþoli var síðan í eftirliti hjá lýtalæknum og í meðferð hjá sjúkraþjálfara. Þá var hún skoðuð af handarskurðlækni vegna áverkans, en ekki eru fyrirhugaðar frekari aðgerðir. Á matsfundi lýsti tjónþoli verkjum og hreyfiskerðingu í fingrum. Við skoðun er hún með hersli í örinu og hreyfiskerðingar í löngutöng, baugfingri og litlafingri.

Matsmenn telja að í vinnuslysinu þann X hafi tjónþoli hlotið varanlegan áverka á vinstri hendi sem hafi valdið verkjum á áverkasvæði og hreyfiskerðingu í fingrum. Matsmenn telja, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og skoðun á matsfundi, orsakatengsl augljóslega fyrir hendi milli slyssins og núverandi einkenna, enda hafði tjónþoli ekki sögu um einkenni frá vinstri hendi fyrir slysið. Ekki telst líklegt að frekari meðferð muni breyta um einkenni í framtíðinni. Tímabært telst að leggja mat á varanlegar afleiðingar slyssins.“

Um mat á varanlegum miska í örorkumatsgerðinni segir:

„Við mat á varanlegum miska leggja matsmenn til grundvallar varanlega áverka á vinstri hendi með hreyfiskerðingum í fingrum og verkjum í hendi. Einnig breyting á skyni. Með hliðsjón af miskatöflu örorkunefndar telst miski hæfilega metinn 10 stig.“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2020 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Samkvæmt gögnum málsins bar slysið að með þeim hætti að kærandi var að reyna að […] og brenndist illa á vinstra handarbaki. Samkvæmt örorkumatstillögu G læknis, dags. 15. nóvember 2019, eru afleiðingar slyssins væg hreyfiskerðing í nærkjúkuliðum litlafingurs og löngutangar, áberandi ör á handarbaki, þreyta og úthaldsleysi til vinnu, auk þess sem þrjá fingur vanti 1 cm á að ná inn í lófa. Í örorkumatsgerð D læknis og E lögmanns, dags. 6. nóvember 2019, kemur fram að kærandi hafi hlotið varanlegan áverka á vinstri hendi með hreyfiskerðingum í fingrum og verkjum í hendi, auk breytingar á skyni.

Fyrir liggur að kærandi er með hreyfiskerðingu í fingrum III-V vinstri handar þar sem vantar um 1 til 1½ sentimetra á að fingur nái inn í lófa samkvæmt matsgerðum. Þá liggur fyrir að ör er á handarbaki og þreyta, verkir og úthaldsleysi er í hendi. Í lið VII.A.d. í töflum örorkunefndar kemur fram að þrír fingur sem vanti 2 sentimetra að lófa leiði til 9% örorku. Þar sem hreyfiskerðing í fyrrgreindum fingrum kæranda er um 1 til 1½ sentimetri telur úrskurðarnefndin ljóst að meta skuli örorku vegna hreyfiskerðingar hér töluvert minni en 9%. Þá liggur fyrir í sjúkraskrá að gripstyrkur er þokkalegur í höndinni. Verður því að meta viðbótarlæknisfræðilega örorku vegna öra, verkja og úthaldsleysis. Úrskurðarnefndin metur það að álitum þar sem ekki eru um það aðrar leiðbeiningar í miskatöflum. Heildarlæknisfræðileg örorka vegna slyssins telst því vera 8%.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 5% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því felld úr gildi. Varanleg læknisfræðileg örorka er ákvörðuð 8%.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 5% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir X, er felld úr gildi og varanleg læknisfræðileg örorka ákvörðuð 8%.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta