Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 346/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 346/2020

Miðvikudaginn 26. ágúst 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. júlí 2020, kærði Þ. B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. mars 2020 þar sem kæranda var synjað um styrk vegna kaupa á bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um styrk hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna kaupa á bifreið. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. mars 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að kærandi væri inniliggjandi á stofnun og uppfyllti því ekki tilskilin skilyrði.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. júlí 2020. Með bréfi, dags. 13. júlí, var umboðsmanni kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Athugasemdir lögmanns kæranda bárust með bréfi, dags. 20. júlí 2020.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. mars 2020, um að synja kæranda um greiðslu bifreiðastyrks og farið sé fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar verði endurskoðuð.

Í kæru segir að atvik séu þau að beiðandi hafi lamast […] í slysi […] og hafi frá X dvalið fyrst á hjúkrunarheimilinu C fram til X 2017, en þá hafi hann verið fluttur á X vegna veikinda. Hafi farið svo að hann hafi dvalið á X allt fram til X 2019 þegar hann hafi fengið inni á D og dvelji þar nú. Kærandi  hafi með beiðni til Tryggingastofnunar óskað eftir samþykki á 50-60% styrk til kaupa á bifreið samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Með það í fyrirrúmi að hafa bifreið til umráða sem fjölskyldumeðlimir hans gætu nýtt til að geta haft óskert frjálsræði til þess að koma kæranda á milli staða, hvort heldur til náms, lækninga, sjúkraþjálfunar eða annarra tómstunda eða samverustunda með fjölskyldu.

Í athugasemdum kæranda, dags. 20. júlí 2020, segir að ástæða þess að kæra hafi ekki borist úrskurðarnefnd velferðarmála innan kærufrests sé sú að fordæmalaust ástand hafi geisað í landinu og fundi á milli lögmanns kæranda og kæranda sjálfs hafi ítrekað verið slegið á frest vegna Covid-19. Loksins þegar hægt hafi verið að fara yfir málin milliliðalaust hafi tími kæranda verið liðinn og sé það miður. Það hafi samt sem áður verið ákveðið að senda inn kæruna og vísa þá til ástands í þjóðfélaginu því til stuðnings að kæra komist að. Eins og gefi að skilja hafi ekki verið forsvaranlegt af hálfu lögmanns að kæra málið nema hafa rætt við kæranda milliliðalaust svo að réttmæt rök kæmust að. Ástand kæranda sé þannig að ekki sé hægt að vera í sambandi í gegnum tölvupóst eða aðra miðla. Talmál geti verið óskýrt og því sé ekki hægt að funda í gegnum síma eða aðra miðla.

Bent sé á að staða kæranda sé sú að hann sé […] og hafi verið allt frá því að hann hafi […]. Því hafi engin áhætta verið tekin með fundi á tímum Covid-19, auk þess sem aðgangur að sjúkrarýmum sem hans hafi beinlínis verið bannaður á stórum hluta kærutímans. Hafi kærandi því verið í algjörri sóttkví á kærutímanum.

Af ofangreindum rökum séu veigamiklar ástæður fyrir því að kæra verði tekin til greina.

III.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. mars 2020 þar sem kæranda hafi verið synjað um styrk vegna kaupa á bifreið.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu fjórir mánuðir og fjórir dagar frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. mars 2020, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. júlí 2020. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 5. mars 2020 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í athugasemdum kæranda, dags. 20. júlí 2020, kemur fram að ástæða þess að kæra hafi ekki borist til úrskurðarnefndar velferðarmála innan kærufrests sé sú að fordæmalaust ástand hafi geisað í landinu og fundi á milli lögmanns og kæranda hafi ítrekað verið slegið á frest vegna Covid-19. Ekki hafi verið forsvaranlegt af hálfu lögmanns að kæra málið nema hafa rætt við kæranda milliliðalaust, en ástand kæranda sé þannig að ekki sé hægt að vera í sambandi við hann í gegnum tölvupóst eða aðra miðla.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekkert því til fyrirstöðu að lögmaður kæranda, sem falið var að gæta hagsmuna hans í þessu máli, myndi kæra ákvörðun Tryggingastofnunar innan kærufrests, þrátt fyrir að Covid-19 veiran hafi geisað í þjóðfélaginu á hluta þess tíma. Enn fremur hafi ekki verið slík þörf fyrir milliliðalaus samskipti lögmanns og kæranda að afsakað geti að kæran hafi borist úrskurðarnefnd velferðarmála rúmum mánuði eftir að kærufrestur rann út, enda liggur fyrir að eiginkona kæranda er umboðsmaður hans.

Í ljósi framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að kærandi geti sótt um bifreiðastyrk á ný.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta