Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Styrkir til sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst og stofnunar nýs rannsóknasjóðs sameinaðs háskóla

Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst. - mynd

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið veitir Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst 250 milljóna króna stofnframlag í nýjan rannsóknasjóð sameinaðs háskóla auk 200 milljón króna styrks til að undirbúa sameiningu skólanna.

Háskólinn á Akureyri (HA) og Háskólinn á Bifröst (HB) sendu á haustdögum 2023 sameiginlega umsókn til ráðuneytisins um fjármagn til að vinna að auknu samstarfi og mögulegri sameiningu skólanna. Umsóknin var liður í áherslum ráðuneytisins um aukið samstarf og mögulega sameiningu háskóla á Íslandi. Í umsókn HA og HB kom fram að samruni skólanna myndi styrkja háskólamenntun hér á landi til muna og um leið samkeppnisstöðu landsins í síbreytilegum heimi örrar tækniþróunar. 

Á haustdögum 2023, var settur á fót stýrihópur á vegum háskólanna tveggja sem vinna skyldi að fýsileikagreiningu um aukið samstarf og hugsanlega sameiningu þeirra. Í skýrslu stýrihópsins, sem skilað var til ráðherra í desember 2023, kom m.a. fram að sameining háskólanna gæti leitt til stóraukinna tækifæra í rannsóknastarfi um allt land. Í því sambandi væri stofnun rannsóknasjóðs sameinaðs háskóla lykilatriði í því skyni að styrkja rannsóknateymi og stoðþjónustu rannsókna og skapa aukin tækifæri til sóknar í alþjóðlega sjóði og þátttöku í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum.

Framlag ráðuneytisins nú er til að unnt sé að setja sjóðinn á laggir sem allra fyrst óháð annarri fjármögnun en bundnar eru vonir við að sjóðurinn geti vaxið umtalsvert til lengri tíma. M.a. verður unnið að því að hluti af söluandvirði eigna Háskólans á Bifröst renni til hans. Jafnframt verður leitast eftir stuðningi atvinnulífsins sem sameinaður háskóli ætlar sér að vinna náið með.

Sameinaður háskóli yrði álíka stór og Háskólinn í Reykjavík m.t.t. nemendafjölda, með um 3.500 nemendur og 300 starfsmenn og mikla vaxtarmöguleika, þökk sé faglegri stefnumótun, öflugu gæðakerfi og leiðandi stöðu á sviði fjarnámstækni. Þá myndi það styrkja samkeppnisstöðu sameinaðs háskóla enn frekar að báðir háskólarnir bjóða í dag námsleiðir og rannsóknir sem ekki er til að dreifa hjá öðrum háskólum hér á landi. Myndi sú sérstaða jafnframt nýtast til enn frekari sóknar og uppbyggingar á nýjum námsbrautum og námsgreinum. Þá hafa báðir skólarnir verið brautryðjendur í stafrænu fjarnámi og sameinaður háskóli gæti þannig orðið til þess að stórauka aðgengi að háskólanámi á öllum stigum, án tillits til búsetu, aldurs, bakgrunns eða atvinnuþátttöku. Að sama skapi hefði sameinaður háskóli burði til að vera umbreytandi afl í íslensku þjóðlífi og gæti stuðlað að auknu jafnrétti til náms á Íslandi með því að bæta aðgengi fjölbreyttra hópa að háskólanámi.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fagnar niðurstöðum greiningarvinnu stýrihópsins og þeim metnaði sem fram kemur í vilja og hugmyndum beggja skóla um samstarf sín á milli. Í því skyni hefur ráðherra ákveðið að veita 250 milljóna króna stofnframlag til nýs rannsóknasjóðs sameinaðs háskóla, til að veita brautargengi þeim rannsóknatækifærum sem falist geta í sameinuðum háskóla HA og HB. Auk þess mun ráðuneytið veita 200 milljónum króna til að vinna að þeim verkefnum sem snúa að undirbúningi sameiningar háskólanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta