Ísland á meðal 10 þjóða sem leiða IMPACT hóp HeforShe
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, er einn tíu þjóðarleiðtoga sem leiða nýtt verkefni HeforShe, svokallað IMPACT 10x10x10's en tilkynnt var í dag hvaða ríki fara fyrir verkefninu. Leiðtogarnir tíu munu takast á hendur mikilvægar skuldbindingar til að ná jafnrétti bæði innanlands, sem og á heimsvísu. Skuldbindingarnar eru unnar í samstarfi við UN Women, jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna, sem hleypti HeforShe verkefninu af stokkunum í september 2014 með ávarpi Emmu Watson góðgerðarsendiherra UN Women. Markmið HeforShe er að ná til milljarðs karla um heim allan til stuðnings jafnrétti.
IMPACT 10x10x10 verkefnið var fyrst kynnt í janúar á World Economic Forum í Davos. Það leiðir saman leiðtoga tíu þjóða, tíu fyrirtækja og tíu menntastofnana um allan heim. Allir þrjátíu leiðtogarnir hafa skuldbundið sig til að takast á við mismunandi þætti kynjamisréttis en skuldbindingar Íslands snúa m.a. að því að útrýma launamun á Íslandi fyrir 2022, jafna hlut kynjanna í fjölmiðlum fyrir 2020 og fá fleiri karla til liðs við jafnréttisbaráttuna bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Hópurinn mun svo vinna saman til að nýta reynsluna af framkvæmd verkefnanna til að hvetja aðra leiðtoga til að taka upp sömu málefni í sínum ríkjum, fyrirtækjum og háskólum.
UN Women valdi þjóðarleiðtogana en auk forsætisráðherra Íslands eru m.a. í hópnum: Sauli Niinistö, forseti Finnlands; Michael D. Higgins, forseti Írlands; Joko Widodo, forseti Indónesíu; Shinzō Abe, forsætisráðherra Japans; Arthur Peter Mutharika, forseti Malaví; Klaus Werner Iohannis, forseti Rúmeníu; Paul Kagame, forseti Rúanda; og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Frekari upplýsingar um alla leiðtogana og skuldbindingar þeirra má finna áhttp://www.heforshe.org/impact/
Um UN Women
UN Women er stofnun Sameinuðu þjóðanna um jafnréttismál og valdeflingu kvenna. Henni er ætlað að stuðla að auknu jafnrétti um allan heim sem leiðandi afl fyrir réttindum kvenna og stúlkna.
Um HeForShe
UN Women kom HeForShe á fót til að fá karla og drengi til að láta jafnrétti sig varða og fjarlægja félagslegar og menningarlegar hindranir sem koma í veg fyrir að konur og stúlkur geti notið sín til fulls. Frá því að HeforShe var hleypt af stokkunum þann 20. september 2014 hafa hundruð þúsunda karla um allan heim sýnt viljann í verki og gengið til liðs við HeforShe.