Hoppa yfir valmynd
14. júní 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fab Lab Suðurnesja eykur tæknilæsi og frumkvöðlamennt í nærsamfélagi

Frá undirritun samnings um Fab Lab smiðju á Suðurnesjum. - mynd

Samningur og samstarfsyfirlýsing um Fab Lab smiðju á Suðurnesjum voru undirrituð í dag. Fab Lab eru stafrænar smiðjur sem gefa fólki og fyrirtækjum tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Fab Lab á Suðurnesjum verður tólfta smiðjan til að opna hér á landi. Að samningnum koma háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Reykjanesbær og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum.

,,Það er ánægjulegt að við munum sjá FabLab verða að veruleika hér á Suðurnesjunum. Það vantaði aðgengi að stafrænni smiðju á þessu svæði en reynslan hefur sýnt okkur að fjölmörg tækifæri opnast með FabLab smiðjum, fyrir fólk á öllum aldri og atvinnulífið. Bæði tækifæri fyrir nýjar hugmyndir og til að styrkja þá starfsemi sem fyrir er,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

,,Ég er ótrúlega ánægður með að hafa skrifað undir samning um Fab Lab smiðju á Suðurnesjum í dag. Fab Lab smiðjurnar eru frábært vettvangur til að styðja við sköpunarkraft fólks og gera því einfaldara fyrir að þróa nýsköpunarhugmyndir sínar áfram, en smiðjan verður opin öllum skólastigum og almenningi. Ég hlakka mikið til að sjá verkefnið verða að veruleika hér á Suðurnesjunum og opna þannig fjölmörg tækifæri í nærsamfélaginu," segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Vettvangur fyrir fjölbreytta tæknilega skapandi vinnu

Markmið starfsemi Fab Lab Suðurnesja í Reykjanesbæ er að auka þekkingu og leikni nemenda, kennara, almennings og innan atvinnulífs á persónumiðaðri nýsköpunarvinnu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Verkefninu er ætlað að styðja við þátttöku og áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum og auka tæknilæsi, skapandi starf og frumkvöðlamennt. Þá er markmið verkefnisins enn fremur að skapa vettvang fyrir þróun og prófun hugmynda og efla þannig samkeppnishæfni í nærsamfélagi.

Stefnt er að því að Fab Lab Suðurnesja í Reykjanesbæ verði hluti samstarfsnets Fab Lab smiðja á Íslandi auk þess að tengjast alþjóðaneti Fab Lab smiðja, Fab Foundation við Massachusetts Institute of Technology (MIT) háskólann í Bandaríkjunum. Markmið þess samstarfsvettvangs er að tryggja þekkingaryfirfærslu og faglega þróun starfsmanna.

Auk samningsaðila koma fjölmargir aðilar að verkefninu en að samstarfsyfirlýsingu koma, auk samningsaðila, Suðurnesjabær, Grindavíkurbær, Sveitarfélagið Vogar, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Fisktækniskóli Íslands, Þekkingarsetur Suðurnesja og Keilir - miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta