Hoppa yfir valmynd
3. október 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tímamótasamningur í orkuöflun

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ásamt fulltrúum Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna, Eikar fasteignafélags, Alor og ráðuneytisins. við undirritun samningsins. - mynd

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, Eik fasteignafélag hf. og Alor ehf. hafa gert með sér samstarfssamning sem kveður á um uppsetningu á búnaði til þess að framleiða  og geyma birtuorku sem framleidd verður á þaki byggingar að Borgartúni 26. Í byggingunni er umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið með starfsstöðvar sínar, sem og fleiri opinberir aðilar.

Hugtakið sólarorka er vel þekkt, en réttara er þó að tala um birtuorku, þar sem ekki er nauðsynlegt að hafa sólskin til að framleiða orkuna. Ör tækniþróun hefur gert það að verkum að nú duga tiltekin birtuskilyrði til orkusöfnunar.

Samningurinn kveður á um eina stærstu uppsetningu á birtuorkubúnaði hér á landi, en settar verða upp 70 birtusellur á þakinu og er áætlað að þær muni framleiða tæplega 28.000 kWst árlega. Auk þess verður sett upp 50 kWst rafhlaða sem mun auka nýtingu kerfisins með því að geyma rafmagn þegar birtuorkuframleiðsla er ekki til staðar og veita tímabundið varaafl fyrir hluta byggingarinnar. Ráðuneytið og Framkvæmdasýslan munu nýta þá birtuorku sem framleidd verður á þaki byggingarinnar.

Þetta er í fyrsta sinn sem ráðuneyti orkumála tekur þátt í grænni orkuframleiðslu með beinum hætti og er með samningnum því brotið blað í sögu orkuöflunar á Íslandi. Verkefnið er sett af stað í kjölfarið á gerð skýrslu um bætta orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar sem gefin var út á vegum starfshóps ráðuneytisins í apríl sl.

„Nýting birtuorku á Íslandi hefur hingað til verið afar takmörkuð, en það vil ég sjá breytast hratt. Samkvæmt áætlunum gæti framleiðsla birtuorku náð a.m.k. 400 GWst árið 2040. Eigi þau markmið að nást þá þurfum við að hefjast handa. Markmið þessa verkefnis er að tryggja að stjórnvöld verði leiðandi í þessari þróun og greini þær hindranir í kerfinu sem þarf að ryðja úr vegi. Með nýtingu birtuorku nú verður lagður grunnur að þátttöku virkra notenda í kerfinu, sem framleiða, nýta og selja eigin orku inn á markaðinn”, segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Í dag er um 7% af raforkunotkun heimsins framleidd með birtuorku, en árið 2030 er gert ráð fyrir að hlutfallið verið komið upp í 16-20%. Á hinum Norðurlöndunum er birtuorka þegar nýtt í miklum mæli og þau hafa sett sér metnaðarfull markmið um aukna framleiðslu á næstu árum. Hér á landi eru einnig dæmi um vel heppnaða birtuorkuframleiðslu, líkt og á stöðum með svipuð birtuskilyrði, eins og í Norður-Noregi.

„Þetta verkefni markar tímamót með því að sameina ólíka aðila úr opinbera geiranum, einkageiranum og nýsköpun, með það að markmiði að ryðja brautina fyrir innleiðingu orkugjafa sem hefur hingað til verið lítið nýttur á Íslandi. Ég hef trú á því að þetta verkefni verði aðeins upphafið að einhverju mun stærra. Birtuorkutæknin er háþróuð, hana er hægt að innleiða strax og hún er einn hagkvæmasti orkukostur í heiminum,“ segir Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra og meðstofnandi Alor.

Segja má því að samningurinn gefi tóninn fyrir framfarir á sviði orkuskipta og stuðli að aukinni raforkuframleiðslu hér á landi.

„Við erum stolt af því að vera fyrsta fasteignafélagið á Íslandi til þess að framleiða birtuorku. Eik vinnur stöðugt að því að gera rekstur fasteigna félagsins sjálfbærari og styður nú með beinum hætti að framförum á sviði orkumála hér á landi,“ segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags.

„Það felast mikil tækifæri að taka þátt í þessu verkefni fyrir Framkvæmdasýsluna – Ríkiseignir. Eignasafnið er stærsta fasteignasafn landsins og það verður áhugavert að skoða möguleika á að þróa frekari birtuorkuverkefni,“ segir Óskar Jósefsson, forstjóri Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta