80 fyrirtæki og stofnanir tóku þátt í Framadögum
Framadagar háskólanna voru haldnir á dögunum í Háskólanum í Reykjavík. Framadagar hafa verið haldnir árlega frá árinu 1995 og eru viðburður þar sem fyrirtæki og stofnanir fá tækifæri til að kynna sig og starfsemi sína fyrir háskólanemum. Í þetta sinn tóku ríflega 80 fyrirtæki og stofnanir þátt í viðburðinum.
Frá upphafi hafa ýmsar ríkisstofnanir kynnt starfsemi sína á Framadögum og í ár tóku eftirfarandi stofnanir þátt: Einkaleyfastofa, Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands, Landpítali, Nýsköpunarmiðstöð, Rannís, Samgöngustofa, Skipulagsstofnun og Vinnumálastofnun auk fulltrúa úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem kynntu Stjórnarráðið sem heild.
Markmiðið með þátttöku ráðuneytisins var m.a. að efla jákvæða ímynd ríkisins sem vinnuveitanda og að sýna hina miklu breidd sem er til staðar í verkefnum ríkisins, milli starfsgreina og í stærð stofnana. Ef horft er til hlutfallslegrar skiptingar starfsmanna eftir menntun þá hafa um 65% ríkisstarfsmanna lokið formlegri háskólagráðu sem er umtalsvert hærra hlutfall en á almennum vinnumarkaði og er hlutfallið jafnvel ívið hærra hjá Stjórnarráðinu þar sem um 77% starfsmanna hafa lokið námi í háskólagrein. Einna algengast er að starfsmenn Stjórnarráðs hafi lokið námi í lögfræði, hagfræði, viðskiptafræði, stjórnmála- eða stjórnsýslufræðum.
Framadagar eru haldnir að erlendri fyrirmynd, þ.e. svokallaðir Career days. Þeir eru á vegum AIESEC alþjóðlegs félags háskólastúdenta. Markmið þeirra er að auka tengsl milli atvinnulífsins og háskólanna í landinu. Þá eru þeir kjörinn vettvangur fyrir stofnanir til að kynna sig og starfsemi sína fyrir háskólanemum, sem eru hugsanlegir framtíðarstarfsmenn.
Framadagar voru haldnir 10. febrúar 2016.