Frumvarp um greiðsluaðlögun bílalána lagt fyrir Alþingi á næstu dögum
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnar í morgun frumvarp til laga um tímabundna heimild til greiðsluaðlögunar bílalána til einstaklinga. Frumvarpið verður lagt fyrir Alþingi á næstu dögum.
Greining sem Seðlabanki Íslands gerði nýlega sýnir að greiðslubyrði bílalána vegur afar þungt í skuldum íslenskra heimila og ógnar í mörgum tilvikum húsnæðisöryggi fólks. Í greiningunni felst skýr niðurstaða um að engin einstök aðgerð sé árangursríkari til þess að létta skuldabyrði þeirra sem eru í mestum vanda en greiðsluaðlögun bílalána. Með henni megi forða mörg þúsund einstaklingum og fjölskyldum frá mjög alvarlegum greiðsluerfiðleikum.
Gengistryggð lán hafa hækkað allt að 80% meira en verðtryggð lán til bílakaupa. Með fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda verður þessi umframhækkun tekin til baka að stærstum hluta. Þó verður reiknað 15% álag á lánin vegna hagstæðari vaxtakjara sem lántakendur nutu fyrir fall krónunnar og þeirrar áhættu sem fólst í töku gengistryggðra lána.
Samkvæmt frumvarpinu getur lækkun á höfuðstól bílaláns aldrei numið hærri fjárhæð en 3 milljónum króna.
Komi til þess að lánveitandi leysi til sín bifreið skuldara en eftirstöðvar lánsins nema hærri fjárhæð en söluverð bifreiðarinnar er kveðið á um að lánveitandi geti ekki gengið að íbúðarhúsi skuldarans til að innheimta kröfur sínar. Greiði skuldari helming skuldarinnar á næstu þremur árum skulu eftirstöðvarnar falla niður.
Gert er ráð fyrir að lánveitandi beri allan kostnað vegna afgreiðslu umboðsmanns skuldara á skilmálabreytingunni.