Hoppa yfir valmynd
3. maí 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Samið um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis í Hafnarfirði

Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra og Lúðvík Geirsson bæjarstjóri
Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra og Lúðvík Geirsson bæjarstjóri

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, undirrituðu í dag samning um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis á Völlum í Hafnarfirði. Áætlað er að heimilið verði tilbúið til notkunar haustið 2012.

Samkvæmt samningnum mun Hafnarfjarðarbær leggja heimilinu til lóð og annast hönnun og byggingu þess. Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun á 40 árum greiða Hafnarfirði hlutdeild í húsaleigu vegna húsnæðisins sem ígildi stofnkostnaðar. Félags- og tryggingamálaráðherra gekkst nýlega fyrir lagabreytingu sem heimilar Íbúðalánasjóði að lána sveitarfélögum fyrir öllum byggingarkostnaði hjúkrunarheimila og er samkomulagið gert á þeim grunni. Sambærilegur samningur hefur þegar verið gerður um byggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ og unnið er samningsgerð við sjö sveitarfélög til viðbótar. Alls er gert ráð fyrir uppbyggingu 360 hjúkrunarrýma í þessum níu sveitarfélögum.

Félags- og tryggingamálaráðherra sagði við undirritun samningsins í dag að nú væri hafið fyrir alvöru löngu tímabært átak í öldrunarþjónustu. „Með þessu verður mögulegt að loka öllum tví- og þríbýlum á hjúkrunarheimilum og bæta til muna aðstæður aldraðra sem ekki geta búið lengur á eigin heimili. Það er líka afar ánægjulegt að geta ráðist í svona mikilvægar framkvæmdir þegar lægð er í efnahagslífinu en með þeim skapast fjöldi starfa í byggingariðnaði.“

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sagði að þetta væri stór áfangi í öldrunar- og heilbrigðisþjónustu í bænum. „Breið samstaða hefur verið í bæjarstjórn, hjá öldungaráði bæjarins og meðal bæjarbúa að fylgja eftir áætlunum um uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Völlum. Lóðin og skipulag er til reiðu og undirbúningur fyrir framkvæmdir er kominn á fulla ferð. Þetta er stór dagur fyrir okkur Hafnfirðinga.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta