Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 473/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 473/2016

Fimmtudaginn 23. febrúar 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. desember 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. mars 2016, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur og ákvörðun stofnunarinnar, dags. 7. september 2016, um að synja beiðni hans um rökstuðning.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. mars 2016, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hafi verið synjað á þeirri forsendu að bótaréttur væri fullnýttur. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun með erindi, dags. 24. ágúst 2016. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. september 2016, var beiðni kæranda synjað á þeirri forsendu að frestur til að óska eftir rökstuðningi á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri liðinn.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 7. desember 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. desember 2016, var kæranda tilkynnt að kæra vegna ákvörðunar frá 7. mars 2016 hefði borist að liðnum kærufresti og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Skýringar bárust frá kæranda með bréfi, dags. 29. desember 2016.

Með bréfi, dags. 16. desember 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna ákvörðunar frá 7. september 2016. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 2. janúar 2017, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi synjað umsókn hans um atvinnuleysisbætur þrátt fyrir að hann hafi sent vottorð um atvinnuþátttöku. Kærandi óski því eftir leiðréttingu fyrir tímabilið 1. febrúar 2016 til 1. júlí 2016. Þá hafi Vinnumálastofnun neitað að veita honum rökstuðning á grundvelli þess að beiðni þess efnis hafi borist of seint.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þriggja mánaða kærufrestur vegna ákvörðunar stofnunarinnar frá 7. mars 2016 væri liðinn og því bæri að vísa máli kæranda frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga skuli bera fram beiðni um rökstuðning innan 14 daga frá því að aðila hafi verið tilkynnt um ákvörðunina. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi þann 24. ágúst 2016 vegna ákvörðunar frá 7. mars 2016 og því hafi þeirri beiðni verið synjað.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. mars 2016, um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur og ákvörðun stofnunarinnar, dags. 7. september 2016, um að synja beiðni hans um rökstuðning. Fyrst verður vikið að þeim þætti kærunnar er lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. mars 2016.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal kæra til nefndarinnar berast innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Kæra vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 7. mars 2016 barst úrskurðarnefndinni þann 7. desember 2016. Samkvæmt framangreindu barst kæran úrskurðarnefndinni að liðnum lögboðnum kærufresti. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá þegar hún berst að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. sama ákvæðis. Ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga mælir þannig fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn. Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 7. mars 2016 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 16. desember 2016, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í máli hans. Í skýringum kæranda kemur fram að ástæða þess að hann hafi ekki lagt fram kæru fyrr sé athugunarleysi hans um að hægt væri að kæra framangreinda ákvörðun Vinnumálastofnunar. Með hliðsjón af skýringum kæranda er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Þeim þætti kærunnar er lýtur að synjun Vinnumálastofnunar á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Verður þá vikið að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. september 2016 um að synja beiðni kæranda um rökstuðning. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga skal bera fram beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina og skal stjórnvald svara henni innan 14 daga frá því að hún barst. Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. mars 2016 með erindi, dags. 24. ágúst 2016. Samkvæmt því barst beiðni kæranda um rökstuðning að liðnum lögboðnum 14 daga fresti en fyrir liggur að kæranda var leiðbeint um framangreindan frest í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. mars 2016. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um rökstuðning.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. september 2016, um að synja beiðni A, um rökstuðning er staðfest. Þeim þætti kærunnar er lýtur að synjun Vinnumálastofnunar á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta