Samstaða á fundi ráðherra Evrópuríkja um að herða á landamæraeftirliti
Ólöf Nordal innanríkisráðherra sat í dag neyðarfund dómsmála- og innanríkisráðherra Evrópuríkja í Brussel þar sem fjallað var um forgangsaðgerðir ríkjanna í baráttunni við hryðjuverk. Innanríkisráðherra segir að í máli ráðherra á fundinum hafi komið fram mikil samstaða um aðgerðirnar og samhugur hafi verið með Frökkum vegna hryðjuverkanna í París föstudaginn 13. nóvember. Einnig kom fram að árásirnar í París hafi ekki verið einungis á Frakka heldur á Evrópu alla, viðhorf og lifnarðahætti Evrópubúa.
Ólöf Nordal segir tvennt snúa að Íslandi: ,,Það eru í fyrsta lagi aðgerðir til að styrkja eftirlit á ytri landamærum, svo sem að nýta meira heimildir um ókerfisbundið eftirlit á landamærum, meðal annars á borgurum ríkja Evrópusambandsins og borgara á Evrópska efnahagssvæðinu. Í öðru lagi er það bætt skráning í Schengen-upplýsingakerfið, þar á meðal skráning fingrafara og mynda vegna grunaðra hryðjuverkamanna,“ segir ráðherra og bendir á að hér sé ekki um viðbótarheimildir að ræða heldur einungis það að nýta frekar þær heimildir sem liggi fyrir.