Hoppa yfir valmynd
14. júní 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 645/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. júní 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 645/2024

í stjórnsýslumálum nr. KNU24050021 og KNU24050022

Endurteknar umsóknir og beiðnir um frestun réttaráhrifa í málum [...], [...] og barns þeirra

I.       Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 287/2024, dags. 21. mars 2024, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. október 2023, um að taka umsóknir [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir M) og [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir K) og barns þeirra, [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum 22. mars 2024.

Hinn 3. maí 2024 bárust kærunefnd endurteknar umsóknir kærenda og beiðnir um frestun réttaráhrifa. Kærendur lögðu fram greinargerð í málinu 3. maí 2024 ásamt fylgigögnum. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kærenda bárust kærunefnd frá Vinnumálastofnun 6. maí 2024, stoðdeild ríkislögreglustjóra 8. og 17. maí 2024 og Útlendingastofnun 17. maí 2024. Viðbótargögn bárust frá kærendum 3. júní 2024.

Endurteknar umsóknir kærenda byggja á 35. gr. a laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá krefjast kærendur þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað, sbr. 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga.

II.        Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð sinni gera kærendur kröfu á grundvelli 35. gr. a laga um útlendinga um að endurteknar umsóknir þeirra verði teknar til meðferðar í ljósi nýrra upplýsinga varðandi heilsufar þeirra og barns þeirra. A þurfi á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu að halda. Kærendur og barn þeirra séu enn stödd hér á landi en þeim hefur verið tilkynnt, af stoðdeild ríkislögreglustjóra, að til standi að flytja þau til viðtökuríkis á næstu vikum. Í greinargerð vísa kærendur til framlagðra heilbrigðisgagna um heilsufar og aðstæður A og þess að hann hafi fengið sérhæfða heilbrigðisþjónustu hér á landi. Kærendur gera athugasemd við umfjöllun kærunefndar í úrskurði í máli kærenda frá 21. mars 2024, þess efnis að A sé ekki búinn að vera undir sérstöku eftirliti eða í meðferð vegna sjúkdóms hans hér á landi og að ekkert bendi til þess að frekari gögn um heilsufar kærenda og A geti haft áhrif á niðurstöðu málsins. Kærendur vísa til skorts á rannsókn við fyrri málsmeðferð kærunefndar og brýna fyrir nefndinni að taka fullt tillit til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Enn fremur gera kærendur athugasemd við umfjöllun kærunefndar um aðgengi A að heilbrigðisþjónustu í viðtökuríki. Ekki sé að finna umfjöllun um þær raunverulegu og persónubundnu móttökur sem muni bíða kærenda verði þau send til Spánar. Um þetta vísa kærendur til ákvörðunar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 69. mgr., þar sem gerð var krafa um að horft yrði til raunverulegra og fyrirsjáanlegra afleiðinga við endursendingu (e. foreseeable consequences of an expulsion).

Kærendur gera athugasemd við umfjöllun kærunefndar um spítala í Barcelona á Spáni og vísa til þess að þau muni ekki fara þangað verði þau endursend til Spánar. Kærendur leggja áherslu á að A sé ekki aðeins fatlaður heldur glími einnig við alvarlegan sjúkdóm. Kærendur telja að A muni ekki fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, aðra þjónustu og stuðning vegna fötlunar hans í ljósi þeirra vankanta sem séu á aðgengi að hæliskerfinu á Spáni. Kærendur og barn þeirra geti því átt erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar og vænst þess að þar verði staða þeirra verulega síðri en staða almennings. Kærendur telji að í ljósi sérstakra og fordæmislausra aðstæðna A vegna heilsufars hans og framlagðra gagna séu sýnilega auknar líkur á því að fallist verði á fyrri umsókn kærenda og A. Vísa þau einnig til alþjóðlegra meginreglna um hagsmuni barna og 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Kærendur telja að verði þau endursend til Spánar sé ekki víst að þau fái aðgang að spænska hæliskerfinu og eiga á hættu að lenda á götunni. Þá sé aðgangur að heilbrigðiskerfinu ekki tryggður fyrir kærendur og barn þeirra og sú sérhæfða læknismeðferð sem A þarfnist muni ekki standa honum til boða á Spáni. Auk þess vísa kærendur til þess að hatursglæpum fari fjölgandi í landinu.

Kærendur byggja kröfu sína um að mál þeirra verði tekið til efnismeðferðar, eins og áður, á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, þar sem sérstakar ástæður séu uppi í málinu. Skuli hagsmunir A hafðir að leiðarljósi við matið. Jafnframt gera kærendur kröfu um að fresta réttaráhrifum fyrri úrskurðar kærunefndarinnar, dags. 21. mars 2024, með vísan til 2. málsl. 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

  1. Endurteknar umsóknir samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga

    Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn hans samkvæmt 24. gr. laganna.

    Með vísan til upplýsinga um málsmeðferð í máli kærenda sem bárust kærunefnd frá Vinnumálastofnun 6. maí 2024, stoðdeild ríkislögreglustjóra 8. og 17. maí 2024 og Útlendingastofnun 17. maí 2024 eru kærendur og barn þeirra að öllum líkindum stödd á landinu og því fyrra skilyrði 35. gr. a laga um útlendinga uppfyllt.

    Kærendur byggja endurteknar umsóknir sínar á því að mál þeirra skuli tekið til efnismeðferðar þar sem ný gögn og upplýsingar liggi fyrir í málinu um heilsufar þeirra og barns þeirra. Andlegri heilsu kærenda fari hrakandi sem og líkamlegri heilsu barnsins vegna meðfædds sjúkdóms. Nýju upplýsingarnar sýni einnig að A hafi hlotið sérhæfða heilbrigðisþjónustu hér á landi vegna sjúkdóms hans og fötlunar. Þá stafi kærendum og barni þeirra veruleg óvissa af því að vera flutt úr landi þar sem kærendur telji að barnið muni ekki fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu og stuðning vegna fötlunar hans í ljósi þeirra vankanta sem séu á aðgengi að verndarkerfinu á Spáni. Með úrskurði kærunefndar í máli kærenda, dags. 21. mars 2024, var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ekki talið að kærendur hefðu slík tengsl við landið að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Spænsk stjórnvöld beri ábyrgð á meðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

    Meðfylgjandi endurtekinni umsókn kærenda er læknisvottorð sérfræðings í taugalækningum barna og unglinga vegna A, dags. 26. apríl 2024, læknisvottorð frá Heilsugæslunni Hlíðum vegna A, dags. 23. apríl 2024, vottorð sjúkraþjálfara vegna A, dags. 4. apríl 2024, sjúkraskrá A fyrir tímabilið 13. júlí 2023 til 2. apríl 2024, tölvubréf frá Reykjavíkurborg með upplýsingum um þjónustu við A, dags. 18. apríl 2024, samskiptaseðill hjúkrunar frá Heilsugæslunni Sólvangi, dags. 21. júní 2023, ódagsett yfirlýsing [...] Samtakanna á Íslandi, komunótur K frá Göngudeild sóttvarna, dags. 17. maí til 23. október 2023 og komunótur M frá Göngudeild sóttvarna, dags. 17. maí til 16. október 2023. Skýrslur sálfræðings vegna M og K bárust kærunefnd 3. júní 2024.

    Í framangreindum læknisvottorðum kemur m.a. fram að [...] sjúkdómurinn, sem A sé með, ágerist með tímanum. Hann notist við hjólastól, taki lyfin[...] , sé í reglulegu eftirliti hjá lungna-, hjarta-, tauga- og bæklunarlækni og þurfi á reglulegri sjúkraþjálfun að halda. Hann sé einnig í eftirliti hjá næringarfræðingi vegna yfirþyngdar og noti kæfisvefnsvél. Telja læknar að A þurfi á áframhaldandi eftirliti sérfræðinga að halda og rof á þeirri þjónustu sem hann þegar njóti geti verið honum lífshættuleg. Í vottorð sjúkraþjálfara, dags. 4. apríl 2024, kemur m.a. fram að á tímabilinu 9. október 2023 til 4. apríl 2024 hafi A mætt í sjúkraþjálfun í alls 44 skipti. A þurfi aðstoð við flest allar athafnir daglegs lífs, hafi ekki standgetu og fari allar sínar leiðir í rafmagnshjólastól. Við skoðun sjúkraþjálfara hafi komið í ljós aukin liðkreppa í hnjám, báðum ökklum og í olnbogum. Í kjölfarið hafi A hitt bæklunarskurðlækni barna og stoðtækjafræðing og fengið ökklaspelkur til að varna frekari kreppum. Í sjúkraskrá A, dags. 13. júlí 2023 til 2. apríl 2024, koma fram ítarlegar upplýsingar um líkamlega getu A og almenna heilsu. Þar segir m.a. að hann hafi misst göngugetu í byrjun árs 2023, hann notist við hjólastól og þurfi að fara reglulega í sjúkraþjálfun. Hann sé sjálfstæður drengur og vilji reyna að gera sem mest sjálfur. Hann finni sjaldan fyrir verkjum, sofi vel og sé í stuðningsmeðferð fyrir hjartað í verndandi skyni sem líti vel út. Svefnrannsókn frá því í febrúar 2024 hafi komið eðlilega út. Auk þess líði honum betur andlega eftir að hafa komið hingað til lands þar sem hann hafi verið lagður í einelti af skólafélögum sínum og kennurum í heimaríki. Hafi kærendur lært æfingar og teygjur til að gera heima með A. Fyrir liggur tölvubréf frá Reykjavíkurborg, dags. 18. apríl 2024, þar sem staðfest er að A sé í þjónustu hjá borginni og fái m.a. aðstoð við að komast í sjúkraþjálfun og læknisheimsóknir. Í yfirlýsingu [...] -samtakanna á Íslandi er fyrirhugaðri brottvísun kærenda og A mótmælt og vísað til þess að óvíst sé hvort A muni fá sömu sérhæfðu heilbrigðisþjónustuna í viðtökuríki eins og hann hefur fengið hér á landi. Auk þess er lýst yfir áhyggjum að A muni missa sérútbúna rafmagnshjólastólinn sinn verði fjölskyldunni brottvísað til Spánar.

    Kærendur hafa borið fyrir sig að glíma bæði við andlega erfiðleika vegna veikinda sonar þeirra og finni fyrir álagi og streitu við umönnun hans. Samkvæmt komunótum K frá Göngudeild sóttvarna, dags. 11. til 31. júlí 2023, kvaðst K hafa verið með verki í hægri fæti en að ekkert sérstakt hafi komið fyrir, heyrn hennar fari versnandi og hún fái verki í bakið við að sjá um son sinn. Kærendur hafi ákveðið að flytja til Íslands í þeirri von að sonur þeirra fengi læknisaðstoð eftir að hafa misst allan mátt í fótum í byrjun árs 2023 og læknir í heimaríki hafi greint þeim frá því að hann myndi ekki ganga aftur. Hafi K hitt sálfræðing á Göngudeild sóttvarna í þrjú skipti 24. maí, 31. júlí og 23. október 2023. Í komunótu K frá Göngudeild sóttvarna, dags. 24. maí 2023, kemur m.a. fram að sjálfsmatslisti hafi leitt í ljós alvarleg þunglyndiseinkenni og alvarleg einkenni kvíða. Í komunótu K frá Göngudeild sóttvarna, dags. 31. júlí 2023, kemur m.a. fram að hún sé undir talsverðu álagi og streitu. Í komunótu K frá Göngudeild sóttvarna, dags. 23. október 2023, kemur m.a. fram að sjálfsmatslisti hafi leitt í ljós miðlungs alvarleg einkenni þunglyndis og miðlungs einkenni kvíða. Þá hafi K greint frá því að sérfræðilæknar hér á landi hafi staðfest að heilsu A muni hraka og að ekkert sé hægt að gera. Hafi sálfræðingurinn m.a. bent K á að hún sé að upplifa sorg. Hinn 22. maí 2024 hafi K mætt í eitt fjarviðtal hjá sálfræðingi sem starfi erlendis. Í skýrslu umrædds sálfræðings, dags. 24. maí 2024, kemur m.a. fram að K glími við verulegar áskoranir við umönnum A, eigi erfitt með svefn og líðan hennar hafi aftur versnað síðustu vikur. Að öðru leyti staðfestir skýrslan það sem hefur komið fram í framangreindum heilbrigðisgögnum.

    Í komunótu M frá Göngudeild sóttvarna, dags. 11. júlí 2023, kvaðst M vera heilsuhraustur en fái verki í bakið þar sem hann þurfi að lyfta syni sínum mikið, sé með suð í eyrum (e. tinnitus), slæmur í maganum og með brotnar tennur. Hafi M hitt sálfræðing á Göngudeild sóttvarna í þrjú skipti 24. maí og 10. og 24. júlí 2023. Hann hafi átt annan tíma hjá sálfræðingi 16. október 2023 sem hann hafi ekki mætt í vegna tannpínu. Í komunótu M frá Göngudeild sóttvarna, dags. 24. maí 2023, kemur m.a. fram að sjálfsmatslisti hafi leitt í ljós alvarleg þunglyndiseinkenni, alvarleg einkenni kvíða og sjálfsvígshugsanir. Í komunótu M frá Göngudeild sóttvarna, dags. 10. júlí 2023, kemur m.a. fram að hann sé undir miklu álagi og streitu. Í komunótu M frá Göngudeild sóttvarna, dags. 24. júlí 2023, kemur m.a. fram að sjálfsmatslisti hafi leitt í ljós alvarleg þunglyndiseinkenni og alvarleg einkenni kvíða. Þá teljist sjálfsvígshætta hans aukin en ekki yfirvofandi. Hann upplifi mikla streitu, vonleysi og eigi erfitt með svefn. Hinn 22. maí 2024 hafi M mætt í eitt fjarviðtal hjá sálfræðingi sem starfi hjá erlendis. Í skýrslu umrædds sálfræðings, dags. 24. maí 2024, kemur m.a. fram að hann glími við verulegar áskoranir við umönnum A. Að öðru leyti staðfestir skýrslan það sem hefur komið fram í framangreindum heilbrigðisgögnum.

    Við meðferð máls kærenda og barns þeirra hjá kærunefnd lágu fyrir upplýsingar um að A sé með [...] sjúkdóminn, hann notist við hjólastól og þurfi aðstoð við flest allar athafnir daglegs lífs. Þá lágu einnig fyrir upplýsingar um að kærendur glími við andlega erfiðleika, s.s. mikla streitu og álag. Það er mat kærunefndar að framangreind heilsufarsgögn hafi aðeins að geyma nýrri og ítarlegri upplýsingar um aðstæður og líðan kærenda og barns þeirra hér á landi og séu aðeins til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð máls kæranda hjá nefndinni. Í úrskurði kærunefndar frá 21. mars 2024, kemur fram að kærendur hafi aðeins dvalið í þrjá daga í viðtökuríki. Kærunefnd telur ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður á Spáni og raktar voru ítarlega í úrskurði nefndarinnar, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærendur geti fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þar í landi. Kærunefnd ítrekar að meðferð við sjúkdómi A og sú þjónusta sem hann þarf á að halda vegna hans er aðgengileg í viðtökuríki. Telur kærunefnd því að aðstæður kærenda og barns þeirra tengdar heilsufari séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kærenda og barns þeirra geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Framangreind gögn teljast ekki vera nýjar upplýsingar sem gefa tilefni til þess að fallast á endurteknar umsóknir kærenda eða breyta fyrra mati kærunefndar.

    Fyrir liggur að stjórnvöld í viðtökuríkinu hafa viðurkennt skyldu sína til þess að taka við kærendum og barni þeirra og umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærunefnd ítrekar það sem kemur fram í úrskurði í máli kærenda frá 21. mars 2024, að athugun nefndarinnar hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að ætla að aðstæður í viðtökuríki séu þess eðlis að endursending kærenda þangað sé í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða að þeim sé ekki tryggð raunhæf leið til að ná fram rétti sínum þar í landi, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar bera stjórnvöld viðtökuríkis ábyrgð á umsóknum kærenda og barns þeirra um alþjóðlega vernd og er skylt að tryggja að þau verði ekki endursend í slíkar aðstæður annars staðar. Líkt og fram kemur í úrskurði kærunefndar í máli kærenda og barns þeirra sæta umsóknir einstaklinga sem eru endursendir til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar hefðbundinni málsmeðferð. Sé umsókn um alþjóðlega vernd synjað er hún kæranleg til spænska innanríkisráðuneytisins og er einnig hægt að bera lögmæti synjunar undir þarlenda dómstóla. Umsækjendur um alþjóðlega vernd á Spáni eigi rétt á félagslegri aðstoð, heilbrigðisþjónustu og lögfræðiaðstoð.

    Kærunefnd áréttar að samkvæmt 31. og 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skuli miðla upplýsingum um heilsufar umsækjenda um alþjóðlega vernd til yfirvalda í viðtökuríki, að uppfylltum skilyrðum ákvæðanna, þannig að flutningur viðkomandi fari fram með þeim hætti að heilsufari þeirra verði ekki stefnt í hættu. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um þetta af fulltrúum stoðdeildar Ríkislögreglustjóra. Þá kemur fram í viðtökusamþykki Spánar að slíkum upplýsingum skuli miðlað til þeirra fyrir flutning kærenda og A þangað til lands. Nefndin hefur farið yfir framlögð heilsufarsögn og afstöðu þeirra sérfræðinga sem þar koma fram. Nefndin hefur jafnframt farið yfir aðstæður á Spáni og ítrekar að kærendur og A geti fengið fullnægjandi heilbrigðisaðstoð þar í landi. Spánn sé einnig framarlega í rannsóknum á [...] sjúkdómnum og heilbrigðisstofnanir landsins hafa tekið virkan þátt í þeim, sérstaklega Sant Joan de Déu (SJD) barnasjúkrahúsið í Barcelona. Þá er jafnframt ljóst að þau lyf sem A þarf á að halda séu aðgengileg á Spáni. Þá ítrekar kærunefnd það sem þegar hefur komið fram að kærendur hafi ekki lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Spáni og hafi því ekki reynslu af verndarkerfi landsins.

    Vegna tilvísunar kærenda til ákvörðunar Mannréttindadómstóls Evrópu frá 2. apríl 2013 í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) telur kærunefnd að aðstæður kærenda séu ekki sambærilegar við þær aðstæður sem uppi voru í framangreindu máli. Framangreint mál varðaði einstæða konu með ung barn sem þegar hafði hlotið alþjóðlega vernd á Ítalíu er hún sótti um vernd í Hollandi. Í ákvörðun Mannréttindadómstólsins kemur m.a. fram að horfa yrði til raunverulegra og fyrirsjáanlegra afleiðinga við endursendingu málsaðila til Ítalíu. Við matið hafi dómstóllinn annars vegar horft til almennra aðstæðna í landinu og hins vegar persónulegra aðstæðna málsaðila. Kærendur koma til með að snúa aftur til Spánar þar sem þau hafa ekki lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd og því hafi þau ekki reynslu af móttökukerfinu þar í landi. Ekki er hægt að leggja til grundvallar að aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd séu sambærilegar við þær sem voru á Ítalíu á þeim tíma sem umræddur dómur var kveðin upp og þær sem bíða kærenda og barns þeirra á Spáni nú.

    Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að skilyrði ákvæðis 35. gr. a laga um útlendinga, um að nýjar upplýsingar liggi fyrir í máli þeirra sem leiði til þess að sýnilega auknar líkur séu á að fallist verði á fyrri umsóknir þeirra samkvæmt 24. gr. laga um útlendinga, séu ekki uppfyllt í máli kærenda. Ekki hafa komið fram upplýsingar í máli kærenda og barns þeirra sem breyta framangreindu mati kærunefndar.

    Að framangreindu virtu er kröfu kærenda um endurteknar umsóknir vísað frá. 

  2. Krafa um frestun réttaráhrifa samkvæmt 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga 

Samkvæmt 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn beint að því stjórnvaldi sem tók þá ákvörðun sem leitað er endurskoðunar á og frestar hún ekki réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Því stjórnvaldi sem hefur endurtekna umsókn til skoðunar er þó heimilt að fresta réttaráhrifum fyrri ákvörðunar, enda hafi umsækjandi óskað eftir því þegar hin endurtekna umsókn var lögð fram og sýnt fram á brýna nauðsyn þess að fresta framkvæmd.

Þar sem endurteknum umsóknum kærenda er vísað frá telur nefndin ekki ástæðu til að fresta réttaráhrifum á meðan umsóknirnar eru til meðferðar. Að framangreindu virtu er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðunum Útlendingastofnunar hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Endurteknum umsóknum kærenda er vísað frá.

Kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa er hafnað.

 

The appellants’ subsequent applications are dismissed.

The appellants’ requests to suspend the implementation of the decisions are denied.

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum