Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tímamótasamþykkt um vinnuskilyrði skipverja á ILO-þingi

Fimmtudaginn 23. febrúar lauk þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Alþjóðavinnumálaþinginu, með afgreiðslu nýrrar alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði skipverja. Samþykktin verður ein fjögurra grundvallarsamþykkta sem fjalla um málefni á sviði siglinga. Hinar þrjár eru samþykktir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) um menntun, þjálfun, vaktstöður og skírteini sjómanna (STCW), öryggi mannslífa á höfunum (SOLAS) og um varnir gegn mengun hafsins (MARPOL). Með samþykktinni fer Alþjóðavinnumálastofnunin inn á nýjar brautir að því er varðar framsetningu alþjóðlegra reglna á sviði vinnuréttar og vinnuverndar. Í fyrsta skipti er að finna í sömu samþykktinni skuldbindandi ákvæði auk reglna sem eru leiðbeinandi fyrir aðildarríki.

Alþjóðasamþykktin um vinnuskilyrði skipverja hefur að geyma ákvæði um lágmarksréttindi að því er varðar aldur skipverja, vinnutíma, hvíldartíma, aðbúnað, fæði, vistarverur og hollustuhætti um borð í skipum öðrum en fiskiskipum. Ítarleg ákvæði eru um skyldur fánaríkja og hafnarríkja hvað varðar skoðun og eftirlit með starfsskilyrðum og lífskjörum skipverja um borð. Unnið hefur verið að smíði alþjóðasamþykktarinnar í tæp fimm ár. Drög að henni hafa verið til umfjöllunar á fjölmörgum undirbúningsfundum. Samþykktinni er ætlað að leysa af hólmi 68 alþjóðasamþykktir um málefni skipverja sem hafa verið afgreiddar á Alþjóðavinnumálaþingum. Sú elsta er frá árinu 1920.

Þótt Alþjóðavinnumálaþingið hafi afgreitt samþykktina einróma gengur hún ekki í gildi fyrr en 30 aðildarríki, sem samanlagt hafa 33 af hundraði skipaflota heims miðað við brúttótonnatölu, hafa fullgilt hana.

Nítugasta og fjórða Alþjóðavinnumálaþingið var haldið dagana 6. til 23. febrúar. Alls sendu 106 af 178 aðildarríkjum ILO fulltrúa til þingsins. Samtals tóku 1.135 fulltrúar þátt í þinginu. Þess skal getið að samkvæmt stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er skylt að senda til þingsins fulltrúa atvinnurekenda og launafólks, í þessu tilviki fulltrúa útgerðarmanna og skipverja, auk fulltrúa stjórnvalda. Af hálfu Íslands tóku þátt í þinginu Jón H. Magnússon sem fulltrúi útgerðarmanna og Ægir Steinn Sveinþórsson var fulltrúi skipverja. Sverrir Konráðsson, Siglingastofnun Íslands, og Gylfi Kristinsson, félagsmálaráðuneyti, tóku þátt í þinginu af hálfu stjórnvalda.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta