Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2006: Dómur frá 15. janúar 2007

Ár 2007, mánudaginn 15. janúar, er í Félagsdómi í málinu nr. 10/2006:

                                                         

Alþýðusamband Íslands f.h.

Flugfreyjufélags Íslands

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Samtaka ferðaþjónustunnar vegna

Icelandair ehf.

 

kveðinn upp svofelldur

d ó m u r:

Mál þetta, sem dómtekið var 8. þessa mánaðar, er höfðað 23. október 2006.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Lára V. Júlíusdóttir.

 

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, Borgartúni 22, Reykjavík.

 

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar, Borgartúni 5, Reykjavík, vegna Icelandair ehf., Reykja-víkurflugvelli, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda 

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi hafi brotið gegn kjarasamningi aðila með einhliða breytingum á starfsskyldum félagsmanna stefnanda, sem starfa hjá stefnda, sem fólu það í sér að félagsmönnum var gert skylt að bera saman brottfararspjöld og persónuskilríki farþega og komu til framkvæmda í júní 2006. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda.

 

Dómkröfur stefnda 

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

 

Málavextir

Stefnandi greinir þannig frá málavöxtum að félagið sé eina stéttarfélag flugáhafna í farþegarými farþegaflugvéla, flugfreyja og flugþjóna á Íslandi (hér eftir nefnd f/f) og starfi félagsmenn þess á vegum stefnda Icelandair, Iceland Express, Flugfélags Íslands og Air Atlanta. Á milli stefnanda og stefnda hafi verið í gildi kjarasamningur um árabil um störf flugfreyja og flugþjóna. Í apríl 1995 hafi nýtt ákvæði verið sett inn í kjarasamning aðila, svohljóðandi:

„Frá og með gildistöku samnings þessa taka f/f að sér að taka á móti brottfararspjöldum farþega og leiðbeina þeim við brottfararhlið hérlendis og erlendis, færslu á tjaldi í farþegarými svo og flutning á ofngrindum og matarvögnum á áfangastöðum erlendis.

[...]“

Þá hafi á sama tíma svohljóðandi yfirlýsing verið sett inn í kjarasamning aðila:

„Yfirlýsing III:

Vegna samkomulags milli Flugleiða h.f. og Flugfreyjufélags Íslands um leiðir til aukinnar þjónustu við brottför véla Flugleiða á Keflavíkurflugvelli vilja aðilar taka fram eftirfarandi: Þátttaka f/f í að taka á móti brottfararspjöldum farþega og leiðbeina þeim við brottfararhlið á Keflavíkurflugvelli og hlutdeild í sparnaði vegna þess er háð því að sátt sé um það við Verslunarmannafélag Suðurnesja að f/f sinni þessu starfi.

[...]“

Stefnandi kveður að í þessari breytingu á starfsskyldum f/f hafi falist að fjórða flugfreyja skyldi starfa við brottfararhlið og taka á móti brottfararspjöldum farþega og leiðbeina þeim, t.d. með handfarangur. Í kjölfar kjarasamningsbreytinganna sendi stefnandi félagsmönnum sínum bréf 3. ágúst 1995 þar sem nánari útskýringar voru gefnar á þessum nýju starfsskyldum. Í bréfinu var breytingin skýrð á þann veg að f/f ættu eingöngu að taka á móti brottfararspjöldum og leiðbeina fólki með handfarangur en í því fælist ekki að láta t.d. töskumiða á handfarangur eða fara með hann í farangurshólf. Þá ættu f/f ekki að taka þátt í því að leiðrétta tvíbókanir, aka hjólastólum eða gera annað það sem til fellur og felst ekki í kjarasamningi. Í 3. tbl. fréttabréfs til félagsmanna, sem gefið hafi verið út í kjölfar breytinganna, hafi  þessi skilningur félagsins verið áréttaður. Engar athugasemdir hafi borist frá stefnda við þennan skilning stefnanda heldur hafi þáverandi yfirflugfreyja stefnda, Áslaug K. Pálsdóttir, þvert á móti áréttað þennan skilning í bréfum sínum til félagsmanna stefnanda, dagsettum 27. júlí og 27. september 1995. Hafa starfsskyldur samkvæmt ákvæði kjarasamningsins því verið óumdeildar frá því hann tók gildi.

Um mánaðamótin maí/júní 2006 kveður stefnandi að sú ákvörðun hafi verið tekin einhliða af stefnda að fjórða f/f skyldi, fyrir brottför flugvéla frá Keflavík sem eru að ferðast innan Schengen svæðisins, sjá um að rífa af brottfararspjöldum og bera þau saman við persónuskilríki farþega við brottfararhlið. Þessi ákvörðun, sem hafi falið í sér nýjar starfsskyldur félagsmanna stefnanda, hafi verið tilkynnt f/f með bréfi yfirflugfreyju stefnanda í júní 2006. Strax í kjölfarið hafi stefnandi mótmælt þessum breytingum á starfsskyldum með bréfi, dagsettu 13. júní 2006, á þeim grundvelli að stefnandi taldi þær brjóta í bága við grein 20-1 í kjarasamningi aðila. Þann 20. júní hafi stefnandi komið fyrir bréfi í hólfum allra f/f þar sem mótmælin voru ítrekuð og félagsmönnum bent á að stefnandi teldi að um brot á kjarasamningi væri að ræða. Mótmælum stefnanda hafi verið svarað af Guðmundi Pálssyni, framkvæmdastjóra stefnda, með bréfi 28. júní 2006 þar sem fullyrt hafi verið að samanburður á brottfararspjöldum og persónuskilríkjum myndi ótvívætt falla undir starfsskyldur f/f og að ákvæði kjarasamnings yrði að túlka með hliðsjón af breytingum á aðstæðum á hverjum tíma. Þann 29. júní 2006 hafi félagsmönnum stefnanda, sem starfa fyrir stefnda, borist tölvubréf frá Rannveigu Eir Einarsdóttur, yfirflugfreyju stefnda, þar sem „misskilningur“ stefnanda á ákvæði kjarasamningsins hafi verið leiðréttur og hin nýja starfsskylda f/f ítrekuð. Stefnandi kveðst hafa ítrekað mótmæli sín við túlkun stefnda á framangreindu kjarasamningsákvæði og einhliða breytingum á starfsskyldum með bréfi til Guðmundar Pálssonar, dagsettu 4. júlí 2006, en við þeim hafi ekki verið brugðist af hálfu stefnda. Stefnandi kveður stefnda enn ekki hafa látið af breytingunni og sé félaginu því nauðugur sá kostur að höfða mál þetta til viðurkenningar á því að stefndi hafi með framangreindum breytingum brotið gegn ákvæðum gildandi kjarasamnings aðila.

 

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveður kröfu sína um viðurkenningu á kjarasamningsbroti stefnda reista á því að stefnda hafi verið óheimilt að breyta einhliða starfsskyldum þeirra f/f, sem fyrir félagið starfa, með því að skylda f/f til að bera saman brottfararspjöld og persónuskilríki farþega. Í breytingunni hafi falist brot á kjarasamningi aðila sem hvergi kveði á um slíkar starfsskyldur f/f. Þá kveður stefnandi að breytingin rúmist ekki innan greinar 20-1 í kjarasamningi þar sem sú starfsskylda „að taka á móti brottfararspjöldum farþega og leiðbeina þeim“ feli engan veginn í sér framangreindan samanburð.

Stefnandi kveður að á grundvelli greinar 20-1 í kjarasamningi milli aðila hafi aðilar orðið sammála um að í hagræðingarskyni skyldu f/f taka að sér störf sem áður höfðu ekki verið á þeirra starfssviði. Þessi störf hafi verið tilkomin eingöngu vegna aukinnar þjónustu við farþega við brottför, sbr. skýrt orðalag greinar 20-4. Stefnandi kveður þessi störf hafa verið nánar tilgreind í samningnum og þeim útskýringum stefnanda á honum sem fylgdu í kjölfarið sem stefndi hafi engar athugasemdir gert við heldur áréttað sjálfur í bréfum sínum til félagsmanna stefnanda. Um engin önnur verkefni eða störf hafi verið samið og því sé enga heimild að finna í kjarasamningi milli aðila til handa stefnda að fela f/f frekari verkefni einhliða. Verði að semja  sérstaklega um allar breytingar í þessa veru. Þá sé augljóst að stefndi hafi ótvírætt staðfest, með athugasemdalausri framkvæmd um árabil, skilning stefnanda á starfsskyldum f/f samkvæmt grein 20-1 í kjarasamningi.

Í hinum breyttu starfsskyldum felist skyldur f/f sem sannarlega tilheyra almennri öryggisgæslu í flugstöðvarbyggingum og falli slíkar skyldur ekki undir starfssvið f/f. Þvert á móti eigi rekstrarleyfishafi flugvallarins og flugvallaryfirvöld að sinna slíku öryggishlutverki. Það sé hlutverk f/f að hafa eftirlit með öryggisatriðum um borð í flugvélum, þ.e. í farþegarými, en öðru máli gegni um öryggi í flugstöðvarbyggingum. Kveður stefnandi það vera í samræmi við starfsskyldur f/f samkvæmt flugrekstrarhandbók stefnda og áratugalanga venju á starfssviðinu. Í hinum breyttu starfsskyldum felist ekki þjónustuhlutverk, sbr. orðalag greinar 20-4, heldur hlutverk sem snýr með beinum hætti að flugvernd og öryggi á flugvöllum eða flugstöðvarbyggingum. Allt starf, sem snýr að flugvernd og flugöryggi, sé og eigi að vera í höndum flugrekstraraðila en ekki f/f, sbr. reglugerð um flugvernd nr. 361/2005, reglugerð um flugafgreiðslu á íslenskum flugvöllum nr. 263/2002 og reglugerð um starfsemi, skyldur og eftirlit með Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli nr. 766/2000 með síðari breytingum. Eigi ekkert vegabréfaeftirlit sér stað meðal farþega innan Schengen-svæðisins og því sé augljóslega verið að fela f/f öryggishlutverk með umræddum samanburði.

Stefnandi hafnar fullyrðingum stefnda, sem fram komu í bréfi hans 28. júní 2006, í þá veru að orðalag kjarasamnings milli aðila verði að túlka með hliðsjón af breytingum á aðstæðum á hverjum tíma og að þannig sé sveigjanleiki í starfsskyldum hluti af vinnuumhverfi f/f. Við blasi að starfsskyldur f/f að þessu leyti séu ekki háðar aðstæðum hverju sinni og sérstaklega ekki þegar litið sé til þess að um allt annars konar starfsskyldur er að tefla. Með breytingunum séu flugverjar farnir að taka að sér öryggishlutverk og störf sem snúa að flugvernd utan flugvéla sem séu utan þeirra starfssviðs.

 

Málsástæður stefnda

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að hann hafi ekki brotið gegn kjarasamningi aðila. Sú breyting, sem hafi orðið á verkferlum við brottfarir frá Íslandi til áfangastaða í Evrópu og felist í því að um leið og rifið er af brottfararspjaldi skuli það borið saman við skilríki farþega, feli á engan hátt í sér óheimila breytingu á starfsskyldum félagsmanna stefnanda. Vinnuumhverfi flugfreyja sem og annarra starfsmanna sé í sífelldri þróun, viðfangsefnin séu breytingum háð, ný viðmið komi til og önnur falli niður. Með tilkomu sjálfsafgreiðslustöðva, svokallaðra kioska, hafi fyrrgreind vinnuregla verið sett af Icelandair, það er að í Keflavík séu brottfararspjöld borin saman við persónuskilríki farþega sem ferðast til Evrópu. Sé það gert til að ganga úr skugga um að einungis sá, sem skráður er sem farþegi samkvæmt farseðli, fari með flugvélinni. Með því sé verið að tryggja að einstaklingur ferðist ekki nema á eigin flugskjölum.

Aðstoð flugfreyju hljóti á hverjum tíma að taka mið af breyttum aðstæðum. Verði að skoða einstök ákvæði samningsins með tilliti til þess. Í tilgreindum skyldum flugfreyju felist einnig að leiðbeina farþegum við brottfararhlið. Innan þess orðalags rúmist meðal annars að leiðbeina farþegum þannig að enginn annar en réttur handhafi brottfararspjalds fari um borð. 

Horfa verði til þess að samanburður á brottfararspjaldi og persónuskilríkjum, um leið og rifið er af spjaldinu, útheimti ekki lengri viðveru flugfreyju á brottfararhliði svo neinu nemi. Einnig verði að líta til þess að samtímis hafi verið dregið úr vinnuskyldu flugfreyja á hliði við aðrar brottfarir. Breytingin feli því frekar í sér að dregið hafi verið úr starfsskyldum flugfreyja frá því sem um var samið og greitt sé fyrir en að þær hafi verið auknar eins og stefnandi haldi fram. Eftir breytinguna sinni flugfreyjur þjónustu á hliði við um það bil 40% brottfara í stað allra áður. Ekki sé heldur um að ræða breytingu á vinnutíma eða álagi. Sé því ljóst að umræddar breytingar rúmist innan kjarasamnings aðila.

Með vísan til þessa hafni stefndi því að semja þurfi sérstaklega um þessar breytingar. Einnig er mótmælt af hálfu stefnda að hann hafi með einhverjum hætti staðfest skilning stefnanda á gr. 20-1 í kjarasamningi aðila.

Stefndi hafnar því alfarið að með breyttum verkferlum hafi verið lagðar starfsskyldur á flugfreyjur sem tilheyri almennri öryggisgæslu í flugstöðvarbyggingum. Sé það eftirlit í höndum starfsfólks Flugþjónustunnar  á Keflavíkurflugvelli.

Samanburður á skilríkjum og brottfararspjaldi sé hluti af skyldum stefnda sem flugrekanda, fyrirtækis sem stundar rekstur loftfars, sbr. skilgreiningu í reglugerð 193/2006 um flutningaflug. Sú skylda helgist af því að félaginu beri að gæta aðgangsstjórnunar að loftfari, sbr. reglugerð 361/2005, og að tengsl séu milli lestarfarangurs og farþega. Liður í því sé að fylgjast með því að sama nafn sé á brottfararspjaldi og persónuskilríkjum farþega. Megi jafnframt geta þess að önnur evrópsk flugfélög, svo sem British Midland, Air Lingus og SAS, noti áhafnir til að kanna skilríki þeirra sem ganga um borð í vélar þeirra.

 

Niðurstaða

Í stefnu krafðist stefnandi þess að viðurkennt yrði með dómi að stefndi hefði brotið gegn kjarasamningi aðila með einhliða breytingum á starfsskyldum félagsmanna stefnanda, sem starfa hjá stefnda, sem fólu það í sér að félagsmönnum var gert að bera saman brottfararspjöld og vegabréf farþega og komu til framkvæmda í júní 2006. Við aðalmeðferð málsins breytti stefnandi kröfugerðinni á þann veg að í stað orðsins „vegabréf“ kom orðið „persónuskilríki“. Þessari breytingu var mótmælt af hálfu stefnda sem of seint fram kominni.

Að mati dómsins felst ekki í ofangreindri breytingu á orðanotkun nein sú efnisbreyting á kröfugerð stefnanda að vörnum verði áfátt af hálfu stefnda þannig að dómur verði ekki réttilega lagður á það ágreiningsefni sem til úrlausnar er. Samkvæmt því er fallist á að umrædd orðabreyting hafi verið heimil af hálfu stefnanda.

Í apríl 1995 var sett inn eftirfarandi ákvæði í kjarasamning málsaðila:

„Samkomulag um hagræðingu: 

Frá og með gildistöku samnings þessa taka f/f að sér að taka á móti brottfararspjöldum farþega og leiðbeina þeim við brottfararhlið hérlendis og erlendis, færslu á tjaldi í farþegarými svo og flutning á ofngrindum og matarvögnum á áfangastöðum erlendis.

Hlutdeild f/f í sparnaði af þessum breytingum er nú metin 12.4 milljónir kr. (2,7% af heildarlaunum) miðað við heilt ár og greiðist í formi sérstaks framlags á séreignarreikninga einstakra f/f í tilgreindum séreignarlífeyrissjóði skv. sérstöku samkomulagi um lífeyrisséreignarreikninga (yfirlýsingu 1 hér á eftir). Greiðslur á séreignarreikninga hefjast við 31 árs aldurs og vara til 63 ára aldurs.“

Þá var á sama tíma sett inn í kjarasamning aðila svohljóðandi ákvæði:

„Yfirlýsing III

Vegna samkomulags milli Flugleiða h.f. og Flugfreyjufélags Íslands um leiðir til aukinnar þjónustu við brottför véla Flugleiða á Keflavíkurflugvelli vilja aðilar taka fram eftirfarandi: Þátttaka f/f í að taka á móti brottfararspjöldum farþega og leiðbeina þeim við brottfararhlið á Keflavíkurflugvelli og hlutdeild í sparnaði vegna þess er háð því að sátt sé um það við Verslunarmannafélag Suðurnesja að f/f sinni þessu starfi.“

Með því að taka að sér ofangreinda þjónustu við brottfararhlið tókust félagsmenn stefnanda á hendur auknar skyldur við brottför flugvéla stefnda á Keflavíkurflugvelli. Hefur þetta viðbótarstarfsframlag félagsmanna stefnda verið bætt þeim í formi greiðslna inn á séreignarreikninga einstakra félagsmanna.

Ofangreindar skyldur félagsmanna stefnanda fela í sér þátttöku þeirra í aðgangsstjórnun að flugvélum stefnda á Keflavíkurflugvelli. Er tilgangur þessa sá að ganga úr skugga um að farþegi, sem kemur að brottfararhliði, eigi rétt á að fara um borð í viðkomandi flugvél. Rétt er að taka fram að frá og með 1. júní 2006 voru þessar skyldur félagsmanna stefnanda lagðar af vegna flugs til Bandaríkjanna sem og á erlendum flugstöðvum.

Sú breyting, sem varð á þátttöku félagsmanna stefnanda í aðgangsstjórnun að flugvélum stefnda á Keflavíkurflugvelli um mánaðamótin maí/júní 2006 og um er deilt í máli þessu, felst eingöngu í því að í stað þess að ganga úr skugga um að viðkomandi farþegi sé með rétt brottfararspjald á þá flugvél, sem hann hyggst fljúga með, miðað við flugnúmer, er borið saman hvort brottfararspjald, sem á er skráð nafn farþega, stemmi við persónuskilríki hans. Verður að telja að þetta breytta verklag feli ekki í sér neina eðlisbreytingu á fyrrgreindri þátttöku félagsmanna stefnanda í aðgangsstjórnun að flugvélum stefnanda og því sé ekki um nýjar starfsskyldur félagsmanna stefnanda að ræða í skilningi kjarasamnings aðila.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar, vegna Icelandair ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands, fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

                                                          

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Lára V. Júlíusdóttir

Valgeir Pálsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta