Mál nr. 8/2006: Úrskurður frá 11. janúar 2007
Ár 2007, fimmtudaginn 11. janúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 8/2006
Starfsmannafélag Kópavogs
gegn
Kópavogsbæ
kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R:
Mál þetta var tekið til úrskurðar 28. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfur stefnda.
Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gísli Gíslason og Guðni Á. Haraldsson
Stefnandi er Starfsmannafélag Kópavogs (SFK), kt. 451275-2249, Digranesvegi 12, Kópavogi.
Stefndi er Kópavogsbær, kt. 700169-3759, Fannborg 2, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda
Að viðurkennt verði með dómi, að við afturvirka leiðréttingu launakjara stefnda til þeirra félagsmanna Starfsmannafélags Kópavogs sem ekki höfðu fengið leiðréttingu launakjara fyrir árslok 2005, skuli fara eftir launatöflu ársins 2006 með tengingu starfsmats við launaflokka samkvæmt gr. 1.3.1 í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga frá 29. maí 2005.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Markarinnar lögmannsstofu hf.
Dómkröfur stefnda
Aðallega að málinu verði vísað frá dómi.
Til vara að kröfu stefnanda verði vísað frá að hluta, þ.e. varðandi viðurkenningu á því að við afturvirka leiðréttingu launakjara stefnda til þeirra félagsmanna Starfsmannafélags Kópavogs sem höfðu ekki fengið leiðréttingu launakjara fyrir árslok 2005, skuli fara eftir launatöflu ársins 2006, en að stefndi verði sýknaður að öðru leyti af kröfum stefnanda.
Til þrautavara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Þá er í öllum tilfellum krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefnda verði hafnað, málskostnaður bíði efnisdóms eða verði felldur niður.
Málavextir
Í kjarasamningsviðræðum fulltrúa Samflots sex bæjarstarfsmannafélaga, Kjarna og Starfsgreinasambands Íslands við Launanefnd sveitarfélaga á árinu 2001 var ákveðið að taka upp nýtt launakerfi að breskri fyrirmynd, sem þýtt var og lagað að íslenskum aðstæðum.
Nýr kjarasamningur Launanefndar sveitarfélaga f.h. stefnda við stefnanda var undirritaður 9. apríl 2001. Í grein 1.3.1 í samningnum kemur fram, að við röðun í launaflokka skuli miða við niðurstöðu starfsmats sem samningsaðilar koma sér saman um. Jafnframt segir orðrétt í bókun II í 15. kafla samningsins:
Aðilar eru sammála um að nýtt starfsmatskerfi verði tekið í notkun 1. des. 2002 að aflokinni prófun og aðlögun. Samstarfsnefnd hefur yfirumsjón með því starfi, þ.á m. að semja um tengingu starfsmats og launa.
Nýtt starfsmat getur leitt til allt að tveggja til fjögurra prósenta launah?kkunar frá 1. des. 2002. Fram til þess tíma gilda ekki ákvæði kjarasamnings aðila um starfsmat og framkv?md þess.
Við þessa kerfisbreytingu skal tryggt að enginn starfsmaður lækki í launum þrátt fyrir að í ljós komi að viðkomandi starfi hafi áður verið raðað hærra í launaflokk miðað við niðurstöðu röðunar á grundvelli nýs starfsmatskerfis.
Samstarfsnefnd um starfsmat tók til starfa í nóvember 2001 og var nefndinni m.a. ætlað það hlutverk að vinna að innleiðingu starfsmatsins. Sú vinna tók mun lengri tíma en ráð var fyrir gert í upphafi. Þegar nefndin hætti störfum í nóvember 2004 hafði starfsmati verið lokið vegna flestra starfa sem félagsmenn aðildarfélaga Samflots sex bæjarstarfsmannafélaga, Kjarna og Starfsgreinasambands Íslands gegna. Innleiðing starfsmatsins kom hins vegar ekki til framkvæmda á starfstíma nefndarinnar.
Hinn 19. nóvember 2004 var gert samkomulag um starfsmat milli annars vegar Starfsgreinasambands Íslands, Samflots sex bæjarstarfsmannafélaga og Kjarna og hins vegar Launanefndar sveitarfélaga um gildistöku og innleiðingu starfsmats í samræmi við kjarasamning aðila frá 9. apríl 2001. Með samkomulaginu fylgdi verklýsing og leiðbeiningar um innleiðingu matsins. Í 3. tölul. samkomulagsins lýsa aðilar sig sammála um að koma á fót sameiginlegri samstarfsnefnd, úrskurðarnefnd um framkvæmd starfsmatsins. Úrskurðarnefnd þessi tók við af samstarfsnefndinni sem getið er um hér að framan.
Á fundi fulltrúa Starfsgreinasambands Íslands, Samflots sex bæjarstarfsmannafélaga, Kjarna og Launanefndar Sveitarfélaga, sem haldinn var þann 23. nóvember 2004, var samþykkt skjal með heitinu Almennt um innleiðingu starfsmats 2004. Í skjalinu, sem dagsett er 24. nóvember 2004, kemur fram að búið sé að meta störf sem um 90% starfsmanna gegna, en vegna þess hversu fjölbreytt störf eru stunduð í sveitarfélögunum hafi hins vegar ekki tekist að meta öll störf. Síðan segir orðrétt:
Það er þó mat samningsaðila að ekki sé rétt að bíða lengur með framkv?mdina og n?gilegur fjöldi starfa hafi verið metinn svo innleiða megi matið gagnvart meginþorra starfsmanna.
Kjör starfsmanna sem sinna störfum sem ekki hafa fengið starfsmat haldast óbreytt að sinni en haldið verður áfram vinnu við að ljúka matinu gagnvart þeim.
Í samræmi við framangreint var hafist handa við leiðréttingu launa gagnvart þeim starfsmönnum, þ.á m. félagsmönnum stefnanda, sem lokið hafði verið við að meta. Laun umræddra aðila voru leiðrétt afturvirkt til 1. desember 2002 miðað við þá launatöflu sem í gildi var á árinu 2004 með tengingu samkvæmt samkomulagi um starfsmat frá 19. nóvember 2004.
Þau störf sem ekki höfðu verið metin og þar af leiðandi ekki fengið leiðréttingu launakjara í lok árs 2004, voru skilgreind sem „núllstörf“. Stefnandi heldur því fram að hjá stefnda hafi verið um að ræða 80-90 slík störf. Stefndi kveður það hins vegar ekki rétt vera þar sem stór hluti þeirra starfa hjá stefnda sem fengið hafi niðurstöðu úr starfsmati í febrúar 2006 teljist til svokallaðs skrifstofuhóps. Skrifstofustörfin hafi verið meðal þeirra sem hafi fengið niðurstöðu úr starfsmatinu árið 2004, en niðurstaða þeirra hafi í fæstum tilvikum leitt til hærri launaflokkaröðunar hjá stefnda og því hafi almennt ekki komið til launaleiðréttinga til hlutaðeigandi starfsmanna. Mikil óánægja hafi orðið með þetta sem leitt hafi til þess að skrifstofustörfin hjá stefnda hafi fengið nýtt starfsmat sem farið var með á sama hátt og núllstörf.
Hinn 19. október 2005 var undirritað samkomulag um nýjan kjarasamning Launanefndar sveitarfélaga og Starfsmannafélags Kópavogs. Í 1. gr. samkomulagsins segir:
Launanefnd sveitarfélaga og Starfsmannafélags Kópavogs gera með sér samkomulag um að kjarasamningur Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmanna félaga frá 29. maí 2005 sem gildir til 30. nóvember 2008 gildi fyrir Starfsmannafélag Kópavogs og taki við af kjarasamningi aðila sem rann út 31. mars 2005 með þeim breytingum og frávikum sem fram koma í 2. gr., 6. gr. og 7. gr. þessa samkomulags.
Hvað snertir frávik kom m.a. fram að breytt tenging starfsmats við laun samkvæmt grein 1.3.1 í kjarasamningnum frá 29. maí 2005 tæki gildi 1. janúar 2006 í stað 1. júní 2006.
Í 5. gr. samkomulagsins frá 19. október 2005 segir:
Aðilar munu ljúka mati á öllum störfum sem ekki hafa þegar verið metin samkvæmt nýju starfsmatskerfi fyrir 15. febrúar 2006, sbr. lið 2 í yfirlýsingu frá 1. júlí 2005. Takist það ekki skulu aðilar meta sameiginleg viðbrögð og verði ekki sátt um þau er kjarasamningur aðila uppsegjanlegur með gildistöku frá 15. maí 2006 enda verði það tilkynnt fyrir 15. mars 2006.
Í febrúar 2006 var lokið starfsmati vegna þeirra starfa sem ekki fengu leiðréttingu launakjara í árslok 2004 og féllu því í flokk „núllstilltra“ starfa.
Að sögn stefnda er fjöldi þeirra starfsmanna sem gegnir þeim störfum/starfsheitum sem fengu starfsmat í febrúar 2006 um 70 talsins. Í apríl 2006 leiðrétti stefndi laun starfsmannanna á grundvelli starfsmatsins. Leiðréttingin náði eftir atvikum allt aftur til 1. desember 2002 og var miðað við launatöflu ársins 2006. Við tengingu starfsmats við launaflokka vegna tímabilsins fram til ársloka 2005 var farið eftir eldri tengireglu samkvæmt samkomulagi um starfsmat frá 19. nóvember 2004. Frá og með 1. janúar 2006 að telja var farið eftir nýju tengireglunni.
Fyrir liggur að ágreiningur er á milli málsaðila um það hvaða forsendur skuli lagðar til grundvallar leiðréttingu launakjara til þessara starfsmanna. Stefnandi telur að miða beri tengingu starfsmats við launaflokka við grein 1.3.1 í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga frá 29. maí 2005. Stefndi telur hins vegar að miða eigi tenginguna við samkomulag um starfsmat frá 19. nóvember 2004. Stefnandi kveður að hingað til hafi ekki verið uppi ágreiningur um að leiðrétting launakjara skuli ná aftur til 1. desember 2002.
Þar sem ekki hefur náðst sátt milli málsaðila um lausn á málinu kveður stefnandi nauðsynlegt að höfða dómsmál þetta til viðurkenningar á réttindum félagsmanna sinna.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveðst byggja á eftirtöldum málsástæðum og lagarökum:
Störf þeirra félagsmanna stefnanda sem ekki hafi fengið starfsmatsniðurstöðu í lok ársins 2004 hafi fallið í flokk „núllstilltra“ starfa, líkt og áður sé rakið. Starfsmennirnir hafi því ekki fengið greiddar launahækkanir afturvirkt til 1. desember 2002 þegar matið var innleitt gagnvart meginþorra starfsmanna. Þvert á móti hafi kjör þeirra haldist óbreytt á meðan mati var ólokið gagnvart þeim.
Þessir starfsmenn hafi nú beðið í rúmlega þrjú og hálft ár eftir þeirri leiðréttingu launakjara sem þeir eigi rétt á. Það sé langur tími, sérstaklega þegar haft sé í huga að um verulega fjárhagslega hagsmuni sé að tefla fyrir viðkomandi starfsmenn. Ekkert bendi til þess að við starfsmennina sjálfa sé að sakast þó ekki hafi verið gengið frá starfsmati fyrr en nú.
Krafa stefnanda sé að viðurkennt verði að við tengingu starfsmats við launaflokka, hjá þeim félagsmönnum stefnanda sem ekki höfðu fengið afturvirka leiðréttingu launa á árinu 2005 eða fyrr, hafi borið, frá 1. janúar 2006, að miða við launatöflu ársins 2006, að lægsti launaflokkur sé launaflokkur 108 og lægsta stigagjöf tengitöflu verði 265 stig. Jafnframt felist í þessu að miða skuli við að 7 stig séu á milli launaflokka. Krafan sé byggð á grein 1.3.1 í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga frá 29. maí 2005.
Gildistími nýja kjarasamningsins sé samkvæmt gr. 14.1.1 frá 1. apríl 2005 til 30. nóvember 2008. Breytt tenging starfsmats við laun samkvæmt gr. 1.3.1 í kjarasamningnum hafi hins vegar tekið gildi, að því er félagsmenn stefnanda varðar, þann 1. janúar 2006, sbr. 7. tölul. 2. gr. samkomulags Launanefndar sveitarfélaga og stefnanda frá 19. október 2005. Frá 1. janúar 2006 hafi því borið að miða afturvirka leiðréttingu launakjara við ákvæði kjarasamningsins.
Sömu sjónarmið eigi við varðandi þá kröfu að farið verði eftir launatöflu ársins 2006. Þegar launaleiðréttingar hafi farið fram í lok ársins 2004 hafi verið miðað við þá launatöflu sem gilti á þeim tíma. Launaleiðréttingar vegna núllstarfa sem fengið hafi mat á árinu 2005 hafi verið miðaðar við launatöflu ársins 2005, sbr. tölvuskeyti Karls Björnssonar, sviðsstjóra kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, til framkvæmdastjóra sveitarfélaga og yfirmanna starfsmannamála, frá 23. mars 2006. Að mati stefnanda standi engin rök til annars en að við launaleiðréttingu þá sem nú standi fyrir dyrum beri að fara eftir launatöflu þeirri sem nú sé í gildi, þ.e.a.s. launatöflu ársins 2006.
Hugmyndafræðin á bak við hina umsömdu kerfisbreytingu sé sú að starfsmönnum séu ákvörðuð laun með eins málefnalegum og hlutlægum aðferðum og frekast sé unnt. Það geti vart talist ómálefnalegt að við leiðréttingu launa til þessa hóps verði farið eftir þeim viðmiðunum sem í gildi séu á hverjum tíma. Þær viðmiðanir sé að finna í gr. 1.3.1 í kjarasamningnum.
Stefnandi kveður mál þetta falla undir lögsögu Félagsdóms á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Krafa um málskostnað sé reist á 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda og lagarök varðandi frávísunarkröfu
Samkvæmt dómkröfum stefnanda sé þess krafist að viðurkennt verði með dómi að tiltekinn háttur skuli hafður á við leiðréttingu stefnda á launakjörum aftur í tímann til þeirra félagsmanna stefnanda sem ekki höfðu fengið leiðréttingu launakjara fyrir árslok 2005. Dómkrafan snúist í reynd um það hvort réttur háttur hafi verið hafður á við framkvæmd launaleiðréttinga gagnvart ákveðnum starfsmönnum hjá stefnda í apríl 2006. Stefnandi vilji í reynd fá viðurkennt að hlutaðeigandi starfsmenn eigi inni vangreidd laun. Stefnandi heldur því fram að málið falli undir lögsögu Félagsdóms á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ekki verði séð að dómurinn eigi lögsögu þar sem ákvæði kjarasamnings hafi engin fyrirmæli um það hvernig haga skuli uppgjöri við launagreiðslur aftur í tímann eða uppgjöri vangreiddra launa. Því sé hér ekki um ágreining varðandi skilning á kjarasamningi eða gildi hans að ræða.
Þá sé aðalkrafan um frávísun málsins einnig byggð á því að orðalag dómkröfunnar sé ekki nógu skýrt varðandi afmörkun þess hóps félagsmanna sem viðurkenningarkrafan taki til, því ekki sé tekið fram við hvaða afturvirku leiðréttingar launakjara sé nákvæmlega átt. Hér sé því um óglögga kröfugerð að ræða sem sé andstæð d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Til vara krefst stefndi þess að málinu verði vísað frá að hluta, þ.e. þeim hluta dómkrafnanna þar sem krafist sé viðurkenningar á því að fara skuli eftir launatöflu ársins 2006. Fyrir liggi að stefndi hafi afgreitt þær launaleiðréttingar sem mál þetta varðar samkvæmt launatöflu ársins 2006. Dómkrafan að þessu leyti hafi því að geyma kröfu um almenna lögskýringu en raunverulegt sakarefni/ágreiningsefni sé ekki lagt fyrir til úrlausnar. Vegna þessa geti krafan hvað þetta varðar ekki talist dómtæk, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Varakrafa stefnda um frávísun málsins að hluta byggist einnig á því að umræddur hluti falli utan lögsögu Félagsdóms. Stefnandi kveði lögsöguna grundvallast á því að um sé að ræða ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans, sbr. 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Kjarasamningur aðila hafi ekki að geyma ákvæði um það eftir hvaða launatöflu skuli farið þegar laun séu leiðrétt vegna tímabils sem nái aftur fyrir þá töflu sem í gildi sé þegar launaleiðrétting eigi sér stað. Slík ákvæði þekkist vart eða alls ekki í kjarasamningum. Þó séu dæmi þess að aðilar sammælist um það við hvaða launatöflu skuli miða launaleiðréttingar í tilteknum og afmörkuðum tilvikum. Við innleiðingu starfsmats árið 2004 hafi fulltrúar samningsaðila ákveðið, á fundi þann 23. nóvember 2004, að miða bæri launaleiðréttingarnar við gildandi launatöflu ársins 2004 en leiðréttingarnar hafi náð aftur til 1. desember 2002. Þetta megi sjá í skjalinu Almennt um innleiðingu starfsmats 2004, dags. 24. nóvember 2004, sem sveitarfélög og stéttarfélög hafi fengið sent í framhaldi af fundinum.
Stefnandi reisir mótmæli, við að frávísunarkröfur nái fram að ganga, á því að dómkrafan sé skýr og afdráttarlaus. Ágreiningur málsins sé um skilning á kjarasamningi um það við hvaða tengireglu skuli miða launaleiðréttingu þeirra félagsmanna stefnanda sem um ræðir í málinu. Málið heyri undir lögsögu Félagsdóms.
Niðurstaða
Stefndi byggir aðalkröfu sína um frávísun málsins í fyrsta lagi á því að málið eigi ekki undir valdsvið Félagsdóms, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, enda varði málið ekki ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Er til þess vísað að kjarasamningur hafi engin ákvæði að geyma um sakarefnið. Í öðru lagi er á því byggt af hálfu stefnda að kröfugerð stefnanda sé það óglögg að ekki sé fullnægt áskilnaði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Svo sem fyrr er rakið var með kjarasamningi frá 9. apríl 2001, milli stefnanda annars vegar og Launanefndar sveitarfélaga f.h. stefnda hins vegar, samið svo um að við röðun starfa í launaflokka skyldi miða við niðurstöðu starfsmats er samningsaðilar kæmu sér saman um og nánar var lýst, sbr. m.a. bókanir með kjarasamningnum. Skyldi nýtt starfsmatskerfi tekið í notkun 1. desember 2002. Hins vegar tók vinna við starfsmatið mun lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir. Þegar samstarfsnefnd um starfsmat hætti störfum í nóvember 2004 hafði starfsmati þó verið lokið vegna flestra starfa. Samkvæmt sérstöku samkomulagi um starfsmat frá 19. nóvember 2004, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, var hafist handa um leiðréttingu launa þeirra starfsmanna sem lokið hafði verið við að meta. Laun voru leiðrétt afturvirkt til 1. desember 2002 miðað við gildandi launatöflu 2004 með tengingu samkvæmt samkomulaginu um starfsmat frá 19. nóvember 2004. Þau störf, sem ekki höfðu verið metin og þar af leiðandi ekki fengið leiðréttingu launakjara í lok árs 2004, voru skilgreind sem "núllstörf". Hjá stefnda var um 80 slík störf að ræða.
Í samkomulagi um nýjan kjarasamning milli stefnanda og Launanefndar sveitarfélaga frá 19. október 2005 var um það samið að aðilar skyldu ljúka mati á öllum störfum, sem ekki hefðu verið metin, fyrir 15. febrúar 2006, ef unnt væri. Fram er komið í málinu að matinu lauk í febrúar 2006 og í apríl sama ár leiðrétti stefndi laun starfsmanna á grundvelli starfsmatsins. Náði leiðréttingin eftir atvikum allt aftur til 1. desember 2002. Miðaði stefndi við gildandi launatöflu þegar leiðrétting fór fram, þ.e. launatöflu ársins 2006, en tenging starfsmats við launaflokka vegna tímabilsins til ársloka 2005 fór eftir eldri tengireglu samkvæmt samkomulaginu um starfsmat frá 19. nóvember 2004.
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvaða forsendur beri að leggja til grundvallar launaleiðréttingu greindra starfsmanna. Telur stefnandi að miða beri tengingu starfsmats við launaflokka við grein 1.3.1. í fyrrgreindum kjarasamningi frá 29. maí 2005. Stefndi telur hins vegar að taka beri mið af samkomulagi um starfsmat frá 19. nóvember 2004. Samkvæmt þessu, og með vísan til þess sem að framan er rakið, varðar ágreiningsefnið forsendur fyrir leiðréttingu launakjara vegna starfsmats sem samið hefur verið um í kjarasamningi aðila og gerð um sérstök samkomulög, m.a. vegna dráttar á framkvæmd starfsmatsins, er telja verður að hafi gildi kjarasamninga. Að þessu athuguðu verður að telja að ágreiningsefnið í máli þessu varði skilning á kjarasamningi og falli þar af leiðandi undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986. Verður málinu því ekki vísað frá á þeim grundvelli að það eigi ekki undir Félagsdóm.
Stefndi krefst einnig frávísunar málsins á þeirri forsendu að orðalag dómkröfu stefnanda sé ekki nægjanlega skýrt varðandi afmörkun þess hóps félagsmanna stefnanda sem krafan tekur til þar sem ekki sé tekið fram við hvaða afturvirku leiðréttingu launakjara sé nákvæmlega átt. Samkvæmt dómkröfu stefnanda er krafist viðurkenningar á því „að við afturvirka leiðréttingu launakjara stefnda til þeirra félagsmanna Starfsmannafélags Kópavogs sem ekki höfðu fengið leiðréttingu launakjara fyrir árslok 2005, skuli fara eftir launatöflu ársins 2006 með tengingu starfsmats við launaflokka skv. gr. 1.3.1 í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga frá 29. maí 2005 “. Engin ágreiningur er með aðilum um það að miða skuli við laun samkvæmt launatöflu ársins 2006, enda hefur stefndi þegar framkvæmt launaleiðréttingar í samræmi við það. Hins vegar er krafan óskýr að því leyti að hún miðast við ótilgreinda félagsmenn stefnanda sem ekki höfðu fengið slíka leiðréttingu fyrir árslok 2005. Þá er orðalag kröfunnar, um að afturvirk leiðrétting launakjara skuli fara eftir launatöflu ársins 2006 með tengingu starfsmats við launaflokka samkvæmt gr. 1.3.1 í tilgreindum kjarasamningi, svo óljóst að dómur verður ekki á hana lagður, sbr. d- lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu virtu er fallist á aðalkröfu stefnda um frávísun og er málinu vísað frá Félagsdómi.
Samkvæmt þessum úrslitum málsins ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 200.000 krónur.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.
Stefnandi, Starfsmannafélag Kópavogs, greiði stefnda, Kópavogsbæ, 200.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Gísli Gíslason
Guðni Á. Haraldsson