Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 29/2012

Þriðjudaginn 8. nóvember 2012

 A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 14. mars 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A dags. 11. mars 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 23. febrúar 2012, um að synja um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda kæranda á meðgöngu þar sem hún hafi ekki lagt niður launuð störf vegna veikinda sinna meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

Með bréfi, dags. 15. mars 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 24. mars 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. mars 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að áætlaður fæðingardagur barns hennar hafi verið 26. desember 2011 en fæðing hafi dregist til Y janúar 2012. Kærandi hafi þurft að hætta að vinna 17. nóvember 2011 og hafi því ekki haft nein laun í desember. Kærandi hafi átt inni tólf veikindadaga hjá vinnuveitanda og hafi því fengið synjun á lengingu fæðingarorlofs sem Fæðingarorlofssjóður hafi bent henni á að sækja um. Hún hafi sent Fæðingarorlofssjóði læknisvottorð vegna veikindanna.

Kærandi kveður ferlið hafa hafist þegar hún hafi sótt upphaflega um fæðingarorlof en þá hafi hún verið beðin um að senda Fæðingarorlofssjóði tvo síðustu launaseðla frá vinnuveitanda sínum þar sem hún hafi unnið síðasta hálfa árið. Launaseðlarnir hafi verið upp á X kr. og X kr. Er kærandi hafi komið öllum gögnum til Fæðingarorlofssjóðs hafi henni borist bréf um að hún ætti rétt á rúmum X kr. í greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði ef hún gæti sýnt fram á a.m.k. 25% starfshlutfall fram að settum fæðingardegi eða sýnt fram á veikindi með viðeigandi læknisvottorði. Kærandi hafi átt í erfiðleikum með að ná sambandi við heimilislækni sinn og hafi því fengið vinnuveitanda sinn til að senda sér afrit af læknisvottorði sem kærandi hafi sent honum svo hún gæti sent það áfram á Fæðingarorlofssjóð sem fyrst. Kærandi hafi þá fengið þær upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði að það læknisvottorð sem hún hafi sent væri ófullnægjandi þar sem það hafi verið fyrir vinnuveitanda og kærandi þyrfti því að senda annað læknisvottorð. Jafnframt hafi kærandi fengið þær upplýsingar að Fæðingarorlofssjóður þyrfti staðfestingu frá vinnuveitanda þess efnis að kærandi hafi verið frá vinnu frá 17. nóvember 2011 og hvenær veikindadagar kæranda hafi verið fullnýttir. Kærandi hafi átt í miklum erfiðleikum með að ná í heimilislækni sinn og hafi því ákveðið að tala við annan lækni svo hægt væri að ljúka þessu sem fyrst. Sá læknir hafi sent Fæðingarorlofssjóði vottorð. Síðar hafi komið í ljós að það vottorð hafi ekki verið fullnægjandi að mati Fæðingarorlofssjóðs. Kærandi greinir frá því að á þessu stigi málsins hafi hún ákveðið að fara á læknavaktina á B stað. Þar hafi hún hitt á heimilislækni sinn sem hafi fundist háttsemi Fæðingarorlofssjóðs mjög undarleg. Heimilislæknirinn hafi ákveðið að hringja í Fæðingarorlofssjóð og þá hafi komið í ljós að í raun hefði ekkert vantað heldur hafi vottorðin í raun ekki verið nægilega ítarleg svo hann hafi sent enn eitt vottorðið og þá hafi kærandi talið að allt ætti að vera komið til skila.

Kærandi greinir frá því að stuttu seinna hafi henni borist bréf frá Fæðingarorlofssjóði þar sem fram komi að Fæðingarorlofssjóður hafni lengingu á fæðingarorlofi kæranda. Móðir kæranda hafi hringt í Fæðingarorlofssjóð þar sem henni var tjáð að bréfið væri úrelt þar sem það hafði verið sent áður en læknisvottorðið hafi borist þeim.

Þann 6. mars 2012 hafi kærandi ákveðið að hringja í Fæðingarorlofssjóð til að fá upplýsingar um hvort hún fengi tvær greiðslur í einu fyrir síðastliðna tvo mánuði eða hvort fæðingarorlof hennar yrði sjálfkrafa framlengt um einn mánuð í staðin. Hafi henni þá verið tjáð að lengingin hafi ekki verið samþykkt vegna þess að þeir veikindadagar sem hún átti inni hjá vinnuveitanda gerðu það að verkum að lengingin næði ekki mánuði og þar sem að hún hefði ekki verið með nein laun í desember fengi hún ekkert fæðingarorlof nema hún myndi sækja um sjúkradagpeninga hjá stéttarfélagi fyrir desembermánuð.

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að sjóðurinn hafi með bréfi til kæranda, dags. 23. febrúar 2012, synjað henni um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu þar sem hún hafi ekki lagt niður launuð störf vegna veikinda sinna meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Fæðingarorlofssjóður telur að ágreiningur þessa máls snúi fyrst og fremst að því hvernig beri að túlka orðin „að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns“.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), segi að þunguð kona sem sé nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumakaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Jafnframt komi fram í 5. mgr. að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu fæðingarorlofs með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur komi fram í 6. mgr. sömu greinar að með umsókn um lengingu fæðingarorlofs skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar eftir því sem við á. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær greiðslur féllu niður. Loks tekur Fæðingarorlofssjóður fram að í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, komi fram að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma og í 2. mgr. komi fram að með heilsufarsástæðum sé átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni. Rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæðinu með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Jafnframt þurfi að fylgja staðfesting vinnuveitanda þar sem fram komi hvenær launagreiðslur féllu niður.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá að áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann 26. desember 2011 en barn kæranda hafi fæðst þann Y janúar 2012. Samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum hefði kærandi þurft að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag vegna heilsufarsástæðna í skilningi 9. gr. reglugerðarinnar til að geta öðlast rétt til framlengingar fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá að á læknisvottorði, dags. 21. febrúar 2012, komi fram að kærandi hafi verið skoðuð þann 17. október 2011 og einnig látið af störfum þann dag, en sjóðurinn telji þá dagsetningu ranglega skráða og telji hana eiga að vera 17. nóvember, sbr. tvö önnur læknisvottorð sem liggja fyrir, starfslokavottorð vinnuveitanda og staðgreiðsluskrá RSK. Sjúkdómsgreining hafi verið grindarlos á meðgöngu (O26.7) og lýsing á sjúkdómi móður á meðgöngu sé eftirfarandi: „Fékk mikla verki á meðgöngu eiginlega alla meðgönguna en versnaði verul[ega] um miðjan okt. Verkir vegna grindargliðnunar sem fylgikvilli meðgöngunnar. Varð svo óvinnufær vegna þessa frá 17/10/2011 og út meðgönguna“. Samkvæmt því hafi verið ljóst að veikindi kæranda á meðgöngu hafi fallið undir ákvæði a-liðar 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar. Fæðingarorlofssjóður hafi talið kæru kæranda hins vegar snúa að því hvort hún hafi lagt niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns í skilningi 4. mgr. 17. gr., sbr. 6. mgr. 17. gr. ffl.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá að á læknisvottorðum, dags. 17. nóvember 2011 og 8. febrúar 2012, hafi komið skýrt fram að kærandi hafi hætt störfum þann 17. nóvember 2011. Á læknisvottorði, dags. 21. febrúar 2012, hafi dagsetningin virst ranglega skráð sem 17. október í stað 17. nóvember 2011. Á vottorði um áætlaðan fæðingardag, dags. 14. október 2011, hafi komið skýrt fram að áætlaður fæðingardagur barnsins hafi verið þann 26. desember 2011. Það sé sú dagsetning sem borið hafi að miða við skv. 4. mgr. 17. gr. ffl. þrátt fyrir að barnið hafi ekki fæðst fyrr en Y janúar 2012.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá að á starfslokavottorði, dags. 16. febrúar 2012, hafi komið fram að kærandi hafi fallið af launaskrá þann 31. desember 2011. Það hafi síðar verið leiðrétt í símtali við vinnuveitanda kæranda en samkvæmt því hafi kærandi fallið af launaskrá þann 30. nóvember 2011 og þá hafi veikindaréttur verið fullnýttur. Kærandi hafi síðan fengið ógreitt orlof í janúar 2012. Þetta hafi einnig komið fram í staðgreiðsluskrá RSK, en samkvæmt henni hafi kærandi verið með laun frá vinnuveitanda sínum út nóvember 2011 og síðan í janúar 2012 en ekki í desember 2011.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá að við túlkun á orðunum „að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns“ sé óhjákvæmilegt að beita 6. mgr. 17. gr. ffl. við mat á umræddri tímasetningu skv. 4. mgr. sömu greinar. Þannig telji sjóðurinn að líta verði svo á að líða verði meira en mánuður frá því að greiðslur féllu niður og fram að áætluðum fæðingardegi barns. Í samræmi við það hafi kærandi ekki getað átt rétt á greiðslum skv. 4. mgr., sbr. 6. mgr. 17. gr. ffl., þar sem greiðslur frá vinnuveitanda hafi ekki fallið niður fyrr en 30. nóvember 2011 og þá hafi verið minna en einn mánuður í áætlaðan fæðingardag barns, þann 26. desember 2011.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu, sbr. bréf þess efnis sem kæranda hafi verið sent þann 23. febrúar 2012. Kærandi hefur verið upplýst um að hún geti hafið fæðingarorlof allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr. ffl., eða kannað hvort hún kunni að eiga rétt á sjúkradagpeningum skv. c-lið 2. mgr. 13. gr. a kjósi hún fremur að hefja fæðingarorlof við fæðingardag barnsins.

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Af hálfu kæranda er á því byggt að hún hafi þurft að leggja niður launuð störf vegna heilsufarsástæðna þann 17. nóvember 2011. Engu að síður virðist óumdeilt í málinu að þá hafi kærandi átt inni tólf veikindadaga sem hafi þá verið fullnýttir þann 30. nóvember 2011 þegar hún var tekin af launaskrá vinnuveitanda síns.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. ffl. skal rökstyðja þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Synjun Vinnumálastofnunar um lengingu fæðingarorlofs sé heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. ffl. skal staðfesting vinnuveitanda fylgja umsókn um lengingu. Í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær greiðslur féllu niður.

Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 17. gr. ffl. skal ráðherra setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd ákvæðisins. Í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofsjóði og greiðslu fæðingarstyrks, segir að með heilsufarsástæðum sé átt við:

a. sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

b. sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,

c. fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Þá segir í 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæðinu með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Jafnframt þurfi að fylgja staðfesting vinnuveitanda þar sem fram kemur hvenær greiðslur féllu niður.

Fyrir liggja læknisvottorð, dags. 17. nóvember 2011, 8. febrúar 2012 og 21. febrúar 2012. Samkvæmt þeim er ljóst að veikindi kæranda á meðgöngu falla undir ákvæði a-liðar 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar. Virðist enda ekki deilt um það í málinu. Á hinn bóginn snýr álitaefnið í þessu máli að því hvort kærandi hafi lagt niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns í skilningi 4. mgr. 17. gr. ffl.

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 14. október 2011, var áætlaður fæðingardagur barns 26. desember 2011. Samkvæmt orðalagi 4. mgr. 17. gr. ffl. ber að miða við áætlaðan fæðingardag barns þegar metinn er réttur til lengingar fæðingarorlofs. Til þess að eiga rétt á lengingu þarf þunguð kona þannig að hafa lagt niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Í tilviki kæranda þurfti hún því að hafa lagt niður launuð störf eigi síðar en 25. nóvember 2011. Samkvæmt læknisvottorðum, dags. 17. nóvember 2011 og 8. febrúar 2012, lagði kærandi niður störf þann 17. nóvember 2011, sbr. einnig læknisvottorð, dags. 21. febrúar 2012, en nefndin fellst á að allar líkur séu á því að um misritun hafi verið að ræða í því vottorði. Samkvæmt starfslokavottorði, dags. 16. febrúar 2012, lét kærandi af störfum vegna veikinda þann 14. nóvember 2011 en féll af launaskrá með fullnýttan veikindarétt þann 30. nóvember 2011, sbr. leiðréttingu vinnuveitandans.

Ljóst er að kærandi hætti vinnu hjá vinnuveitanda sínum um miðjan nóvember 2011 og óumdeilt er að hún hafi fengið greiðslur frá vinnuveitanda sínum út nóvembermánuð en þann 30. nóvember 2011 hafi hún nýtt sér alla sína veikindadaga. Því liggur fyrir að þegar kærandi hætti að njóta launagreiðslna frá vinnuveitanda sínum var minna en mánuður í áætlaðan fæðingardag barns hennar. Við túlkun á tímamarki 4. mgr. 17. gr. ffl. verður að mati nefndarinnar jafnframt að líta til 6. mgr. ákvæðisins þar sem mælt er fyrir um staðfestingu vinnuveitanda á því hvenær greiðslur til foreldris féllu niður. Þá er ljóst að tilgangur heimildar 4. mgr. 17. gr. er sá að foreldri fái bætt það tekjutap sem það verður fyrir af því að þurfa að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Með vísan til framangreinds verður að mati nefndarinnar, við túlkun á 4. mgr. 17. gr. ffl., að miða við það tímamark þegar kærandi hafi hætt að fá greiðslur frá vinnuveitanda, þ.e. 30. nóvember. Af því leiðir að kærandi telst ekki hafa lagt niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns hennar þann 26. desember 2011. Uppfyllir kærandi því ekki skilyrði 4. mgr. 17. gr. ffl. fyrir lengingu fæðingarorlofs. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta