Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2023

Ár liðið frá upphafi árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu

Að þessu sinni er fjallað um:

  • árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og hertar þvingunaraðgerðir
  • ályktun Evrópuþingsins í tilefni framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans
  • aðlögun fyrir Ísland við upptöku tilskipunar um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug í EES-samninginn
  • fjármögnun orkuskiptaverkefna
  • sjálfbærni í sjávarútvegi og fiskeldi
  • aðild ESB að Istanbúlsamningnum
  • peningaþvættislista ESB
  • uppbyggingarsjóð EES og nýja norska úttektarskýrslu
  • tillögu um takmörkun kolefnislosunar frá stórum atvinnubifreiðum
  • samráð um reikniaðferðir við mat á kolefnislosun sendiferðabifreiða
  • samráð um áhrifamat á tilskipun um öryggi fiskiskipa

 

Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu – hertar þvingunaraðgerðir

Í dag er ár liðið frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu, sem kostað hefur ótal mannslíf, rekið þúsundir á vergang og valdið orkukreppu í Evrópu og svo mætti lengi telja. Innrásin hefur eðli málsins samkvæmt, nauðsynlega og óhjákvæmilega, litað alla umræðu og stefnumótun innan ESB síðan hún hófst eins og sjá má af umfjöllunarefnum Brussel-vaktarinnar umliðið ár.

Í aðdraganda framangreindra tímamóta hefur umræða um hertar þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins (ESB) gagnvart Rússlandi farið hátt og kynnti Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í síðustu viku tillögu um hertar aðgerðir. Í ávarpi von der Leyen útlistaði hún nánar hvað felast ætti í hinum nýju aðgerðum. Miða tillögurnar m.a. að því að fjölga vöruflokkum sem bannað verður að flytja út til Rússlands og er þar helst horft á flokka iðnaðarvara sem Rússum eru nauðsynlegar vegna stríðsrekstursins svo sem rafeindartæki, sérhæfð farartæki, vélahlutar og varahlutir í vörubíla og þotuhreyfla. Einnig stendur til að takmarka verulega útflutning á svokölluðum tvínotavörum (e. dual-use goods), hátæknivörur sem bæði geta nýst almenningi og í hernaði, sem og að auka eftirlit með rafeindahlutum sem Rússar geta nýtt í vopnakerfum sínum, svo sem í drónum, flugskeytum, þyrlum og hitamyndavélum. Er það mat framkvæmdastjórnarinnar að nái þessar nýju þvingunaraðgerðir fram að ganga hafi með þeim náðst að setja bann á allar þær tæknivörur sem fyrirfinnast á vígvellinum.

Vonir hafa staðið til að aðildarríkin kæmust að samkomulagi um framangreindan pakka þvingunaraðgerða fyrir daginn í dag, nú þegar ár er liðið frá upphafi innrásarinnar, það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri fyrir aðildarríkin að ná fullu samkomulagi. Hafa sendiherrar aðildarríkjanna fundað stíft síðustu daga. Svo virðist sem viðræðurnar strandi á fyrirhuguðu banni við innflutningi frá Rússlandi á tilbúnu gúmmíi (e. synthetic rubber). Gúmmíiðnaðurinn skilar Rússlandi milljörðum dollara í tekjur ár hvert. Árið 2021 flutti Rússland til að mynda út gúmmí að verðmæti tæplega tveggja milljarða dollara. Verðmæti innflutnings til aðildarríkja ESB var um 700 milljónir dollara. Gúmmíið sem kemur frá Rússlandi er notað í dekk og í minna magni í aðra hluti tengda bílaframleiðslu, svo sem kúplingar. Samstaða um þetta atriði strandar á afstöðu Póllands sem vill ganga lengra í innflutningsbanni á gúmmí en lagt er upp með.

Enda þótt samkomulag um nýjar þvingunaraðgerðir liggi ekki fyrir þegar þetta er ritað má telja fullvíst að það sé einungis tímaspursmál hvenær slíkt samkomulag næst og aðgerðirnar bresta á.

Ályktun Evrópuþingsins í tilefni framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans

Eins og fjallað er um í Vaktinni 27. janúar og 10. febrúar sl. þá hefur ný löggjöf í Bandaríkjunum (BNA) svonefnd IRA-löggjöf (e. Inflation Reduction Act ) og viðbrögð ESB við henni, verið í brennidepli umræðunnar á vettvangi ESB að undanförnu og hefur framkvæmdastjórn ESB lagt fram og kynnt sérstaka áætlun um viðbrögð, framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans (e. Green Deal Industrial Plan for the Net-Zero Age). Áætlunin felur í sér bein viðbrögð ESB við IRA-löggjöfinni enda þótt hún hafi einnig breiðari skírskotun til alþjóðlegrar samkeppnisstöðu græns iðnaðar í ESB.

Eins og greint var frá í Vaktinni 10. febrúar þá kom framkvæmdaáætlunin til umræðu í leiðtogaráði ESB 9. febrúar sl. og hafði afstöðu leiðtoganna til áætlunarinnar þá verið beðið með nokkurri óþreyju. Efnislegar ályktanir af fundinum reyndust þó fáar og létu leiðtogarnir sér nægja í ályktun um málið að hvetja framkvæmdastjórnina til að hraða vinnu og greiningum til undirbúnings þeirra mögulegu viðbragða sem fjallað er um í áætluninni eins og kostur væri. Á milli línanna má þó á hinn bóginn lesa að Frakkland og Þýskaland hafi náð fram kröfum sínum um áframhaldandi tilslökun á reglum um ríkisaðstoð enda þótt áhersla sé á að þær verði tímabundnar og hóflegar. Þá er af niðurstöðum fundarins óljóst hvort vilji sé til þess innan ráðsins að veita hinum nýja sjóði sem tillaga er gerð um í framkvæmdaáætluninni, svonefndum fullveldissjóði ESB (e. European Sovereign Fund), til nýtt fé og mun það væntanlega ekki skýrast fyrr en við endurskoðun fjárhagsáætlunar ESB um mitt ár.

Er gert ráð fyrir því að framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans verði á ný til umræðu á næsta fundi leiðtogaráðsins sem áætlaður er 23. – 24. mars nk. í tengslum við umræðu um samkeppnismál, innri markaðinn og stöðu efnahagsmála almennt, sbr. niðurstöður fundar Evrópumálaráðherra á vettvangi ráðherraráðs ESB 21. febrúar sl.

Framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans hefur jafnframt verið til umræðu í Evrópuþinginu og hinn 16. febrúar sl. samþykkti þingið þingsályktun um stefnu ESB um bætta samkeppnishæfni atvinnu- og viðskipalífs í sambandinu og um verðmæta atvinnusköpun (e. European Parliament resolution on an EU strategy to boost industrial competitiveness, trade and quality jobs).

Felur ályktunin í sér viðbrögð Evrópuþingsins við framkominni framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans en í ályktun þingsins er þeirri áætlun fagnað um leið og skorað er á framkvæmdastjórn ESB að vinna áfram að þeim verkefnum sem þar eru boðuð til að styðja við og endurskipuleggja tækniiðnað í ESB. Beinir þingið því til framkvæmdastjórnarinnar að það verði gert meðal annars með hliðsjón af þeim áherslum sem fram koma í þingsályktuninni.

Í ályktuninni eru áherslur þingsins flokkaðar í átta efnisþætti:

  1. Fyrirsjáanlegt og einfaldað regluverk
  2. Orkusjálfstæði
  3. Reglubyrði
  4. Greiðari aðgangur að fjármögnun og tillaga um nýjan fullveldissjóð ESB
  5. Ríkisaðstoðarreglur
  6. Verðmæt atvinnusköpun og aukin færni vinnuafls
  7. Frjáls og sanngjörn viðskipti og öruggar aðfangakeðjur
  8. IRA-löggjöf BNA

Í grófum dráttum leggur þingið áherslu á eftirfarandi atriði m.a.:

Fyrirsjáanlegt og einfaldað regluverk

  • Að unnið verði að auknum fyrirsjáanleika í regluverki og stöðugu rekstrar- og fjárfestingaumhverfi innan ESB.
  • Að evrópskir iðnaðarstaðlar verði nýttir til að auka samkeppnishæfni innri markarðarins og útbreiðslu evrópska iðnaðarvara.
  • Að framkvæmdaáætlunin verði sniðin að því að brúa bilið á milli nýsköpunarverkefna annars vegar og framleiðslu og markaðssetningar vöru hins vegar.
  • Að leyfisveitingakerfi, einkum vegna sjálfbærrar orkuframleiðslu og orkudreifingar, verði einfaldað og gert fyrirsjáanlegra.
  • Að tryggður verði aðgangur að nauðsynlegum hráefnum sem aftur er forsenda þess að markmið í loftlagsmálum og stafrænum umskiptum geti náðst.
  • Að hugað verði að réttlátum umskiptum í þeirri tæknibyltingu sem framundan er.
  • Að framkvæmt verði áhættumat vegna regluverks og fjármögnunarkerfa og þess gætt að ekki verði til nýjar áhættur vegna efnahagstengsla við ríki og viðskiptaaðila sem ekki reka viðskipti sín á forsendum markaðshagkerfisins.

Orkusjálfstæði

  • Að orkubirgðir fyrir næsta vetur verði tryggðar, m.a. með því að leggja fram metnaðarfullar áætlanir og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að auka framleiðslugetu á hagkvæmri og hreinni orku. Í þessu sambandi fagnar þingið áformum sem kynnt eru í framkvæmdaáætlun framkvæmdastjórnarinnar um endurbætur og einföldun regluverks um raforkumálefni.
  • Að framleiðsla á vetni verði aukin og virkum vetnismarkaði komið á.

Reglubyrði

  • Að dregið verði úr óþarfa reglubyrði án þess þó að slegið sé af kröfum um neytendavernd, heilsu- og umhverfisvernd.
  • Að sérstakt samkeppnismat verði hluti af undirbúningi nýrrar löggjafar, þar sem tillit sé tekið til félagslegra sjónarmiða og vinnuverndar, auk þess sem litið verði til þess í matinu hvort fyrirhuguð löggjöf styðji nægjanlega við nýsköpun.

Greiðari aðgangur að fjármögnun og tillaga um nýjan fullveldissjóð ESB

  • Að nýjum stefnumótandi verkefnum sem ákveðið verður að ráðast í fylgi nýjar fjárveitingar og að sú endurskoðun á fjárlagaramma ESB, sem framundan er, gefi gott tækifæri til þess.
  • Að framkvæmdastjórnin meti kostnað og fjárfestingaáhrif aðgerða og þá með tilliti til áhrifa IRA-löggjafarinnar á ESB sem heild en einnig á einstök aðildarríki.
  • Að stuðningsaðgerðir verði skilyrtar því að virt séu almenn gildi og stefnumið ESB, m.a. á sviði fjármála, félags-og atvinnutengdra réttinda, umhverfisverndar, vinnuverndar o.fl. um leið og þess sé gætt að stuðningur raski ekki samkeppnisgrundvelli og öðrum grunnreglum innri markaðarins.
  • Að vegna breyttra áskorana í alþjóðamálum verði ESB að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja sjálfræði sitt, þar á meðal á sviði varnarmála.
  • Að „InvestEU-áætlun“ ESB verði efld.
  • Að tillaga um nýjan sjóð, fullveldissjóð ESB, verði þarfametin, meðal annars á grundvelli kortlagningar á núverandi sjóðakerfi. Þá krefst þingið þess að sjóðurinn verði ekki fjármagnaður á kostnað samheldnissjóða ESB eða með fjárveitingum sem heitið hefur verið í önnur verkefni.
  • Að nýir sjálfstæðir tekjustofnar ESB séu besta tækið til að tryggja framgang þeirrar forgangsröðunar sem lögð er áhersla á. Í þessu skyni hvetur þingið framkvæmdastjórnina og hlutaðeigandi aðildarríki til að ná samkomulagi um fyrirhugaða reglusetningu um skattlagningu á fjármálafyrirtæki (e. Financial transaction tax) fyrir lok júní nk.
  • Að nýr fullveldissjóður ESB, verði hann að veruleika, fái það skilgreinda hlutverk að styðja við sjálfræði ESB á fjölbreyttum sviðum, þar á meðal á sviði grænna og stafrænna umskipta.
  • Að huga þurfi að því að nýr sjóður, fullveldissjóður ESB, hafi heimildir til að styrkja orkuverkefni utan landamæra ESB ef þau eru í samræmi við markmið Græna sáttmálans.
  • Að eitt af markmiðum sjóðsins, þ.e. fullveldissjóðsins, verði að styðja við samhæfð viðbrögð ESB við hvers kyns vá og kreppu, sem fjármögnuð eru í gegnum sameiginleg fjárlög ESB fremur en með ósamræmdri ríkisaðstoð aðildarríkja sem hafa mismunandi getu til beinnar ríkisaðstoðar.
  • Að ekki verði stofnað til nýrra sjóða nema að tillaga um slíkt sé samþykkt að undangenginni hefðbundinni lagasetningarmeðferð og að nýir sjóðir verði felldir inn í fjárlagaramma ESB til að tryggja yfirsýn og eftirlit Evrópuþingsins.
  • Að aðildarríkin fullnýti þá möguleika sem felast í sameiginlegum opinberum innkaupum til að styðja við og styrkja grundvöll iðnaðarframleiðslu í ESB.
  • Að sérstaklega verði hugað að orkufrekum iðnaði þegar kemur að fjárstuðningi vegna orkuskipta.
  • Að rammi um skattaívilnanir sem ekki eru taldar geta skekkt samkeppnisstöðu á innri markaðinum verði endurskilgreindar.
  • Að málsmeðferðartími framkvæmdastjórnarinnar vegna tilkynninga um ríkisaðstoð verði styttur.
  •  Að skilgreiningar á samkeppnismörkuðum innan innri markaðar ESB verði endurskoðaðar eftir þörfum með hliðsjón af aukinni alþjóðlegri samkeppni.

Ríkisaðstoðarreglur

  • Að traust regluverk um ríkisaðstoð á innri markaðinum sé undirstaða efnahagslegar velsældar í ESB, enda forsenda virkrar samkeppni.
  •  Að einfalda þyrfti ríkisaðstoðarreglur ESB og auka sveigjanleika þeirra til að unnt sé að bregðast við áskorunum sem upp koma. Í því sambandi lýsir þingið stuðningi við hugmyndir um tímabundna tilslökun ríkisaðstoðarreglna vegna græns iðnaðar sem fram eru komnar.

Verðmæt atvinnusköpun og aukin færni vinnuafls

  • Að þess verði gætt við mótun stefnu á sviði iðnaðar að hún styðji við módel ESB um félagslegan markaðsbúskap, þar sem m.a. er lögð áhersla á jafnrétti kynjanna og jöfn tækifæri allra.
  • Að tryggja þurfi að áætlun Græna sáttmálans styðji við verðmæta atvinnusköpun, vinnuvernd, velsældaráherslur og réttlát umskipti.
  • Að mikilvægt sé að huga að endurmenntun og símenntun við þær umbreytingar sem framundan eru á vinnumarkaði og að þær umbreytingar kalli á endurskoðun við löggildingu og vottun á hæfni starfsmanna.
  • Að unnið verði að því að laða hæft vinnuafl frá þriðju löndum til ESB.
  •  Að áætlun Græna sáttmálans og menntastefna verði samþættuð til að mæta þörfum atvinnulífsins í framtíðinni.

Frjáls og sanngjörn viðskipti og öruggar aðfangakeðjur

  • Að mikilvægt sé að vinna áfram að því að stofna til efnahags- og viðskiptasambanda við lýðræðisríki í heiminum og styrkja þau sem fyrir eru.
  • Að fram fari áhættugreining á öryggi aðfangakeðja og að leitað verði leiða til að auka fjölbreytni þeirra.
  • Að mikilvægt sé að nýta þau nýju lagalegu úrræði til fulls sem lögfest hafa verið um sameiginleg opinber innkaup og um erlenda styrki sem geta haft óæskileg áhrif á innri markað ESB, sbr. til hliðsjónar sérstaka umfjöllun um reglugerð um erlenda styrki í Vaktinni 10. febrúar sl.
  • Að úrræði reglugerðar um eftirlit með erlendum fjárfestingum og samhæfingu viðbragða (e. Foreign Direct Investment Screening Regulation) verði nýtt frekar.

IRA-löggjöf BNA

  • Að mikilvægt sé að leita samstarfs við BNA um lausnir sem komi í veg fyrir að fyrirtækjum innan ESB verði mismunað á grundvelli laganna og að evrópskar vörur fái sambærilega skattalega meðferð og bandarískar.
  • Að hraða þurfi mati á áhrifum IRA-löggjafarinnar á iðnað í ESB og samkeppnisfærni hans.

Eins og sjá má eru ályktanir þingsins almennt í góðum samhljómi við framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans eins og hún var lögð fram og kynnt af hálfu framkvæmdastjórnar ESB. Eftir sem áður verður að líta á ályktun þingsins sem mikilvægt innlegg inn í þá umræðu sem framundan er og við undirbúning þeirra löggjafartillagna sem nú er hafinn hjá framkvæmdastjórninni. Í ályktun þingsins er einnig jafnan vísað til þeirrar vinnu og stefnumótunar sem framkvæmdastjórnin hefur boðað, þar sem við á. Á hinn bóginn má í ályktun þingsins annars vegar og í ályktunum leiðtogaráðs ESB hins vegar greina mun er kemur að fjármögnun verkefna sem ráðist verður í samkvæmt áætluninni, þar á meðal um fjármögnun fullveldissjóðsins. Er ályktun þingsins allskýr um það að nýjum verkefnum verði að fylgja nýir fjármunir á meðan spurningunni þar að lútandi er látið ósvarað, að sinni, af hálfu leiðtogaráðsins.

Eins og rakið er í Vaktinni 10. febrúar sl. þá snertir framkvæmaáætlun Græna sáttmálans íslenska löggjöf og hagmuni Íslands með margvíslegum hætti og er því nauðsynlegt að fylgjast vel með framgangi  hennar og undirbúningi löggjafartillagna sem ráðist verður í til að hrinda henni í framkvæmd.  Framkvæmdaáætlunin varðar einnig málaefnasvið margra ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, svo sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytis, menningar- og viðskiptaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, innviðaráðuneytis, auk utanríkisráðuneytis og forsætisráðuneytis almennt.

Unnið að aðlögun fyrir Ísland við upptöku tilskipunar um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug í EES-samninginn

Reglulega hefur verið fjallað um fyrirhugaðar breytingar á tilskipun ESB um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug hér í Vaktinni á umliðnum misserum, sbr. umfjöllun 24. júní8. júlí22. júlí7. október og nú síðast 16. desember þar sem greint var frá því að efnislegt samkomulag hefði náðst í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðsins og framkvæmdastjórnarinnar um fyrirhugaðar breytingar. Endanlegur texti tilskipunarinnar liggur nú fyrir í drögum, sbr. bréf ráðherraráðs ESB til Evrópuþingsins dags. 8. febrúar sl., og bíður málið nú einungis formlegrar afgreiðslu þingsins og ráðsins áður en tilskipunin verður birt í Stjórnartíðindum ESB. Eins og fjallað hefur verið um í Vaktinni munu breytingar sem af tilskipuninni leiða hafa afar óæskileg áhrif á samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar og tíðni flugsamgangna við Ísland. Meðan á lagasetningarferli ESB stóð miðaði hagsmunagæsla íslenskra stjórnvalda að því að vekja athygli á þessum áhrifum, bæði á eyþjóðir sem ekki eiga val um aðra kosti í samgöngum og á tengiflugvelli og leggja til leiðir til útbóta. Eftir að lagasetningarferlinu lauk án þess að nægilegt tillit hafi verið tekið til þessara þátta liggur næst fyrir að leita eftir viðeigandi aðlögun fyrir Ísland við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn.

Meðan á þríhliða viðræðum framkvæmdastjórnarinnar, Evrópuþingsins og ráðsins stóð kom Ísland á framfæri breytingartillögu sem hafði það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu Íslands við það sem almennt gerist innan ESB. Jafnvel þótt sú tillaga hafi ekki náð fram að ganga er ljóst að framsetning hennar og það átak sem ráðist hefur verið í undanfarin misseri til að koma málstað Íslands á framfæri og flagga þeim hagsmunum sem í húfi eru, hefur ekki farið fram hjá neinum sem að málinu koma. Það undirbýr jarðveginn fyrir það samtal sem nú er að hefjast um þá aðlögun sem Ísland þarf að ná fram, a.m.k. til skemmri tíma.

Þessu til undirbúnings hefur ríkisstjórnin komið á fót tveimur starfshópum sem vinna að lausn málsins bæði til skemmri og lengri tíma. Utanríkisráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir væntanlegar breytingar á tilskipun um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug, móta tillögu að aðlögunartexta og halda utan um viðræður við framkvæmdastjórn ESB um mögulega aðlögun vegna upptöku gerðarinnar í EES-samninginn.

Þá hefur umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra skipað starfshóp til þess að skoða hvaða leiðir eru færar til að hraða orkuskiptum í flugi með notkun vistvæns eldsneytis fyrir millilandaflug og leggja fram tillögur þar að lútandi. Framþróun á því sviði hefur bein tengsl við viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir í flugi því ekki þarf að kaupa losunarheimildir fyrir notkun á vistvænu flugvélaeldsneyti. Er viðskiptakerfinu þannig beinlínis ætlað að knýja á um slíka framþróun og skapa fjárhagslegan hvata til hennar. Er starfshópnum falið að skoða fýsileika að framleiða endurnýjanlegt flugvélaeldsneyti á Íslandi og hvaða kröfur eru gerðar til slíkrar starfsemi. Í þessu skyni mun hópurinn skoða regluverk ESB um flugvélaeldsneyti samhliða löggjöf um ETS kerfið og um endurnýjanlega orkugjafa og væntanleg áhrif þess á eftirspurn eftir endurnýjanlegu eldsneyti í framtíðinni.

Í skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins sem var til umræðu á Alþingi 21. febrúar sl. er gerð grein fyrir þessu máli og vék utanríkisráðherra einnig að málinu í framsöguræðu sinni og það gerðu einnig margir þingmenn aðrir í andsvörum sínum og ræðum. Af umræðunni má ráða að á Alþingi sé mikil og góð samstaða um mikilvægi þess að viðunandi úrlausn fáist við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn. Er það mikilvægt veganesti í viðræðurnar framundan.

Fjármögnun orkuskiptaverkefna

Ráðherraráð ESB samþykkti formlega þann 21. febrúar sl. reglugerðarbreytingu um að fella „REPowerEU“ áætlunina undir viðnámsregluverk ESB (e. Recovery and Resilience Facility - RRF). RRF var sett á fót árið 2020 til bregðast við þeim erfiðu efnahagsaðstæðum sem upp komu í kórónuveirufaraldrinum en hefur nú fengið endurnýjað hlutverk í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu og þeirrar orkukreppu sem stríðið hefur valdið. Með breytingunni munu aðildarríkin nú geta sótt um fjármagn til orkuskiptaverkefna í gegnum fjármögnunarkerfi RRF. Viðbótarframlög upp á 20 milljarða evra verða veitt til RRF að fjármagna slík verkefni, þar sem 60% mun koma úr sérstökum nýsköpunarsjóði og 40% frá tekjum af viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS).

Samþykkt ráðsins nú kemur í framhaldi af samkomulagi sem náðist um málið í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnarinnar þann 14. desember sl.

Framkvæmdastjórn ESB kynnti „REPowerEU“ aðgerðaáætlun sína í maí 2022 en um áætlunina hefur verið fjallað í Vaktinni við ýmis tilefni á undanförnum mánuðum.  Áætlunin er hryggjarstykkið í orkumálaáætlun ESB til lengri tíma og miðar að því að umbylta evrópsku orkukerfi í átt að endurnýjanlegum orkugjöfum með því m.a. að draga úr eftirspurn, auka fjölbreytni orkugjafa og fjárfestingar í endurnýjanlegum orkugjöfum og þannig gera ESB óháð jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi.

Sjálfbærni í sjávarútvegi og fiskeldi

Framkvæmdastjórn ESB kynnti í vikunni aðgerðapakka til að auka sjálfbærni og viðnámsþol í sjávarútvegi og fiskeldi. Aðgerðapakkinn er kynntur í formi þriggja orðsendinga til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar auk þess sem framkvæmdastjórnin leggur fram skýrslu um framkvæmd reglugerðar um sameiginlega markaðsstefnu fyrir sjávar- og fiskeldisafurðir.

Í fyrsta lagi er um að ræða orðsendingu um aðgerðaáætlun um orkuskipti í sjávarútvegi og fiskeldi. Með hækkandi orkuverði í kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu hefur afkoma í sjávarútvegi og fiskeldi versnað til muna. Unnið hefur verið að orkusparandi aðgerðum í sjávarútvegi og fiskeldi allt frá árinu 2009 en hins vegar hefur hægst verulega á árangri síðustu ár. Vegna hækkandi orkuverðs og ekki síður með tilliti til metnaðarfullra markmiða ESB um samdrátt í losun gróðurhúsaloftegunda, hyggst framkvæmdastjórn ESB nú hefja átak til að flýta fyrir orkuskiptum í þessum greinum. Meðal aðgerða sem fjallað er um í orðsendingunni er að endurnýjanlegir og lágkolefna orkugjafar verði raunhæfir valkostir fyrir fiskiskip, allt eftir tegund og stærð skipa. Er hér meðal annars átt við rafmagn, ammoníak, vetni, sjálfbært lífgas og lífeldsneyti og aðra nýstárlega endurnýjanlega lágkolefna orkugjafa. Þá er stefnt að því rafvæða smærri fiskibáta og þjónustubáta fyrir fiskeldi með stuðningi frá sólarrafhlöðum eða öðrum endurnýjanlegum lágkolefnis aðal- eða hjálparaflgjöfum. Sjá í þessu samhengi t.d. umfjöllun Vaktarinnar frá 13. janúar sl. um orkuskiptaverkefnið WHISPER sem íslenska verkfræðistofan Verkís leiðir og hlotið hefur styrk úr rannsóknar- og nýsköpunarsjóðum ESB. Jafnframt er stefnt að því að efla innviði hafna meðal annars með rafhleðslustöðvum.

Í öðru lagi er um að ræða orðsendingu um aðgerðaáætlun um verndun og endurheimt vistkerfa sjávar og um sjálfbærar fiskveiðar. Um 70% af yfirborði jarðarinnar er haf og er heilbrigt vistkerfi hafsins afar þýðingarmikið fyrir allt líf á jörðinni. Hafið er ein mesta uppspretta líffræðilegs fjölbreytileika og fæðu og hefur mikil áhrif á loftslag enda er hafið stór viðtaki kolefnis úr andrúmslofti. Í dag stafar mikil ógn að lífríki hafsins vegna mengunar og annarra umhverfisógna af mannavöldum.

Helstu aðgerðir sem kynntar eru í orðsendingunni eru:

  • að bæta fiskveiðistjórnun innan ESB,
  • að draga úr áhrifum fiskveiða á hafsbotninn,
  • að ná fram sanngjörnum og réttlátum umskiptum og hámarka nýtingu tiltækra fjármuna,
  • að styrkja þekkingargrunn, rannsóknir og nýsköpun,
  • að bæta framkvæmd, eftirlit og framfylgd fiskveiðieftirlits,
  • að útbúa leiðarlýsingu um hvernig best er að framkvæma ofangreindar aðgerðir með aðkomu fyrirtækja og annarra haghafa.

Í þriðja lagi er um að ræða orðsendingu um sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB í nútíð og framtíð með áherslu á sjálfbærni, vísindalega nálgun og nýsköpun. Markmið sjávarútvegsstefnu ESB er að tryggja sjálfbærni fiskveiða til lengri tíma og er það einnig meginstef í stefnu ESB í fiskeldismálum um leið og markmiðið er að tryggja framboð af matvælum og hagkvæm rekstrarskilyrði fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi og fiskeldi. Stefna ESB í sjávarútvegi og fiskeldi nær til allrar virðiskeðju sjávarútvegs og fiskeldis þar sem áhersla er lögð á að viðhalda samfélagslegum og efnahagslegum styrk sjávarbyggða. Í orðsendingunni eru kynntar umfangsmiklar aðgerðir til að ná og styðja við framangreind markmið.

Samhliða framangreindum orðsendingum hefur framkvæmdastjórnin lagt fram skýrslu til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um framkvæmd reglugerðar um sameiginlega markaðsstefnu fyrir sjávar- og fiskeldisafurðir, en reglur um þau efni hafa verið í gildi innan ESB síðan 1970. Sameiginleg markaðsstefna er mikilvægur liður í því að ná markmiðum sjávarútvegsstefnu ESB um samkeppnishæfni, markaðsstöðugleika, og gagnsæi og um að tryggja fjölbreytt framboð sjávarfangs til neytenda.

Aðild ESB að Istanbúlsamningnum

ESB hefur komist skrefi nær því að gerast aðili að Istanbúlsamningnum, þ.e. samningi Evrópuráðsins (e. Council of Europe) um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Ráðherraráð ESB (e. Council of the European Union) óskaði í vikunni eftir samþykki Evrópuþingsins um að gengið yrði frá málinu með fullgildingu samningsins en þingið samþykkti í síðustu viku ályktun þar sem skorað var á ráðið að fullgilda samninginn. Alls hafa 45 ríki skrifað undir samninginn og 38 fullgilt hann, þar á meðal þó nokkur ríki ESB, en sambandið myndi með fullgildingu hljóta nokkurs konar aukaaðild. Þannig væri ábyrgðarsvið sambandsins gagnvart samningnum háð valdsviði þess sem kveðið er á um í sáttmála ESB.

Evrópudómstóllinn (e. European Court of Justice) birti árið 2021 álit þar sem gerð var grein fyrir því ESB ætti að geta fullgilt Istanbúlsamninginn án þess að fyrir lægju samþykki allra ríkja. Er það ólíkt niðurstöðu dómstólsins í máli vegna skylds samnings, mannréttindasáttmála Evrópu, en í áliti frá 2013 benti dómstóllinn á að drögin að samningi vegna fyrirhugaðrar aðildar ESB færu gegn sáttmála Evrópusambandsins en nánar var fjallað um stöðuna vegna þeirra aðildarviðræðna í Vaktinni 10. febrúar sl.

Istanbúlsamningurinn var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 en hann er fyrsti bindandi samningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Hann kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila, sinna forvörnum gegn ofbeldi og bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð. Þess má geta að Ísland undirritaði samninginn sama dag og hann var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins og fullgilti hann í apríl 2018.

Peningaþvættislistar ESB

Á fundi fjármála- og efnahagsráðherra ESB 14. febrúar sl. var samþykktur nýr grár/svartur listi yfir þau ríki og svæði sem bandalagið telur að hafi ekki nægar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Sérstakur starfshópur ESB sem ber heitið “Code of Conduct Group (Business Taxation)” annast þetta verkefni, en barátta gegn skaðlegum skattareglum eru mikilvægasti hluti þess. Sá listi er sambærilegur þeim sem svokölluð FATF-samtök (e. Fin­ancial Acti­on Task Force) tengd OECD halda úti í svipuðum tilgangi, en framkvæmdastjórn ESB á fulltrúa í FATF. Íslendingar þekkja síðarnefnda listann nokkuð vel því vorið 2018 komust samtökin að þeirri niðurstöðu að varnir Íslands gegn peningaþvætti væru ófull­nægj­andi. Það þýddi að Ísland fór í sérstakan athugunarflokk hjá FATF og var gefinn eins árs frest­ur til úr­bóta.

Varð framgreint til þess að íslensk stjórnvöld réðust í margþættar úrbætur sem reyndust síðan ekki nægar því í október 2019 var Ísland sett á gráan lista FATF. Jafnframt lögðu samtökin fram aðgerðaáætlun sem ís­lensk­um stjórn­völd­um var gert að fram­fylgja. Vonir stóðu til að hægt yrði að fella Ísland af listanum á júnífundi FATF árið 2020, en það tókst ekki fyrr en á septemberfundi samtakanna það ár. Þó vera Íslands á listanum hafi ekki haft bein áhrif á íslenskt efnahagslíf þá skapaði hún talsverða óvissu um ýmsa þætti eins og gengisstöðugleika, erlenda lántöku og lánshæfi. Það sem kannski skipti mestu máli var að orðspor Íslands út á við varð fyrir álitshnekki. Slík staða getur haft gíf­ur­leg áhrif á at­vinnu­líf, ekki aðeins fjár­mála­fyr­ir­tæki held­ur nær öll fyr­ir­tæki sem stunda alþjóðleg viðskipti, ekki síst fyrir litla þjóð eins og Ísland sem byggir afkomu sína á viðskiptum við önnur ríki.

Var Ísland sömuleiðis um nokkurra mánaða skeið árið 2018 sett á athugunarlista ESB þrátt fyrir aðild sína að EES-samningnum vegna ónógrar skráningar á raunverulegum eigendum. Þá voru Liechtenstein og Sviss lengi vel á listanum vegna reglna í þeim löndum um bankaleynd.

Meginmarkmið ESB listans er að stuðla að bættri skattastjórnsýslu um allan heim og að tryggja að alþjóðlegir viðskiptavinir fyrirtækja í aðildarríkjum ESB virði sömu reglur/staðla og þau sem eru á innri markaði ESB. Þetta markmið er einnig ofarlega á blaði hjá FATF þar sem Ísland hefur verið virkur þátttakandi (e. OECD BEPS project). Síðan að fyrsti listi ESB birtist í desember 2017 hefur margt færst til betri vegar. Æ fleiri ríki eru farin að átta sig á þeirri staðreynd að séu þau sett á listann skaðast orðspor þeirra og þar með samkeppnisstaða. Sem fyrr segir beinir “Code of Conduct Group” fyrst og fremst sjónum sínum að skattasviðinu, en brot á skattareglum fela oftast líka í sér brot á reglum um peningaþvætti, sitt hvor hliðin á sama peningi, má segja.

ESB birtir umræddan lista tvisvar á ári, þ.e. í febrúar og október og eru helstu mælikvarðarnir gagnsæi skattareglna, sanngjörn skattlagning, innleiðing OECD BEPS reglnanna og efnisleg skilyrði þegar um er að ræða lönd sem ekki leggja tekjuskatt á fyrirtæki. Listarnir eru raunar tveir, þ.e. svartur listi og grár listi. Löndin fara á svartan lista hjá ESB ef þau neita beinlínis að bæta úr regluverki þar sem ESB telur að pottur sé brotinn. Grái listinn tekur aftur á móti til þeirra ríkja sem eru tilbúin til að breyta sínum reglum til samræmis við ESB reglurnar, enda þótt þau hafi ekki náð því að öllu leyti.

Staðan í dag er sú að samtals eru 34 ríki á lista hjá ESB. Þar af eru 16 ríki á svörtum lista en 18 á gráum. Það er sami fjöldi og var á listanum í október 2022. Hins vegar hefur ríkjum á gráa listanum fækkað um 4, þ.e. þau voru 22, á meðan þeim fjölgaði um 4 á svarta listanum og eru nú 16. Sem dæmi má nefna að Rússland var flutt af gráum lista á svartan og það sama gerðist með Bresku Jómfrúaeyjar og Kosta Ríka. Þá komu Marshalleyjar nýjar inn. Nokkur ríki voru felld af gráa listanum, s.s. Barbados, Norður-Makedónía og Úrúgvæ, en Albanía, Arúba og Curacao komu ný inn.

Uppbyggingarsjóður EES – Ný norsk úttektarskýrsla

Allt frá gildistöku EES-samningsins hafa EFTA-ríkin innan EES skuldbundið sig til að inna af hendi tiltekin framlög til að draga úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði á evrópska efnahagssvæðinu með það fyrir augum að stuðla að jafnri og stöðugri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila. Má jafna þessum framlögum við framlög aðildarríkjanna sjálfra til samheldnissjóða ESB (e. EU Cohesion Fund) en megin markmið slíkra sjóða er að jafna félagsleg kjör og samkeppnistöðu ríkja og svæða innan ESB um leið og þeim er ætlað að stuðla að markmiðum í loftlagsmálum. Framlög úr Uppbyggingarsjóði EES (e. EES grants) hafa á undanförnum árum runnið til verkefna í Póllandi, Rúmeníu, Búlgaríu, Tékklandi, Slóvakíu, Slóveníu, Króatíu, Ungverjalandi, Eistlandi, Litháen, Lettlandi, Portúgal, Grikklandi, Kýpur og Möltu. Við veitingu styrkja til verkefna er jafnframt leitast við að efla tvíhliða tengsl ríkjanna þriggja við viðtökuríkin. EES EFTA-ríkin semja við ESB um framlög í uppbyggingarsjóðinn til nokkurra ára í senn, nú síðast var samið vegna tímabilsins 2014–2021 en um þessar mundir eiga sér stað viðræður um framlag EES EFTA-ríkjanna fyrir næsta tímabil, þ.e. vegna áranna 2021-2027. Skrifstofa Uppbyggingarsjóðsins er staðsett í EFTA-húsinu í Brussel ásamt EFTA-skrifstofunni og Eftirlitsstofnun EFTA.

Sameiginleg framlög ríkjanna þriggja, í gegnum Uppbyggingarsjóð EES, nema alls rúmum 1,5 milljörðum evra á núverandi samningstímabili. Því til viðbótar samþykkti Noregur að greiða sérstaklega tæplega 1,3 milljarða evra á tímabilinu í gegnum sérstakan tvíhliða sjóð, Norska uppbyggingarsjóðinn. Upphaflega var áætlað að heildargreiðslur Íslands á samningstímabilinu myndu nema alls 50 milljónum evra. Þar sem landsframleiðsla (GDP) Íslands jókst á tímabilinu umfram það sem hún gerði í hinum EFTA-ríkjunum tveimur hækkaði greiðsluhlutfall Íslands hins vegar og nema heildargreiðslur af þeim sökum um 66 milljónum evra á samningstímabilinu eða um 10,2 milljörðum íslenskra króna. Þetta svarar til 4,3% af heildarframlögum EFTA-ríkjanna innan EES til uppbyggingarsjóðsins (og 2,4% ef horft er til Uppbyggingarsjóðs EES og norska sjóðsins sameiginlega).

Styrkveitingar Uppbyggingarsjóðs EES á núverandi sjóðstímabili hafa verið á eftirfarandi áherslusviðum:

  • Nýsköpun, rannsóknir, menntun og samkeppnishæfni.
  • Samfélagsleg þátttaka, atvinnuþátttaka ungmenna og bættar aðstæður fátækra.
  • Umhverfis- og orkumál, samdráttur í losun skaðlegra lofttegunda.
  • Menning og listir, frjáls félagasamtök, bættir stjórnunarhættir og grundvallarréttindi.
  • Innanríkis- og dómsmál.

Um 10% af fjárhæð sjóðsins, eða um 150 milljónir evra, eru nýtt til að styðja við frjáls og óháð félagasamtök í nýfrjálsu ríkjunum.

Uppbyggingarsjóðurinn skapar tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki, stofnanir, frjáls félagasamtök og einstaklinga til að taka þátt í verkefnum með samstarfsaðilum í viðtökuríkjunum. Íslensk stjórnvöld hafa í því sambandi lagt áherslu á verkefni á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar, orku- og umhverfismála, samfélagslegra umbóta og jafnréttismála. Rannís, Orkustofnun og Mannréttindaskrifstofa Íslands hafa um árabil haft hlutverk sem sérstakir samstarfsaðilar íslenskra stjórnvalda vegna tiltekinna verkefna sjóðsins. Íslenskir aðilar hafa tekið þátt í yfir 300 verkefnum sem tengjast viðtökuríkjunum á núverandi tímabili. Of snemmt er að segja til um heildarfjölda verkefna á tímabilinu þar sem framkvæmdatíma samningstímabilsins lýkur ekki fyrr en vorið 2024.

Nýverið lét norska utanríkisráðuneytið vinna skýrslu um Uppbyggingarsjóð EES og norska sjóðinn. Niðurstöður skýrslunnar voru m.a. þær að dregið hafi úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði innan EES á tímabilinu sem skýrslan nær yfir ljóst sé að sjóðirnir hafi haft afar jákvæð áhrif. Fyrir tilstuðlan sjóðanna hafi m.a. verið til reiðu styrkir og verkefnum komið á laggirnar sem annars hefðu átt erfitt með að fá fjármagn, einkum hvað varðar stuðning við viðkvæma og jaðarsetta hópa eins og Rómafólk, konur sem verða fyrir ofbeldi, viðkvæm börn og ungmenni og íbúa í dreifbýli og á afskekktum svæðum. Með því hafi EES-sjóðirnir stutt við getu viðtökuríkja, svæða og byggðarlaga til að stuðla að eigin þróun. Þetta eigi einkum við um verkefni á sviðum eins og rannsókna, nýsköpunar og staðbundinnr þróunar. Stuðningur EES-sjóðanna við grundvallarréttindi og góða stjórnarhætti í gegnum styrkingu hlutverks borgaralegs samfélags hafi verið sérlega mikilvægur. Um sé að ræða einstakt framlag í baráttunni gegn einræðisstraumum í Evrópu. Í nokkrum viðtökuríkjum séu EES-sjóðirnir helsta eða jafnvel eina uppspretta fjárstuðnings við borgaralegt samfélag.

Samkvæmt skýrslunni hefurUppbyggingarsjóður EES einnig haft jákvæð áhrif í Noregi. Meðal slíkra jákvæðra áhrifa má nefna að þeir stuðla að því að nýrrar þekkingar og hæfni sé aflað, veita aðgang að og afla þekkingar á evrópskum viðskiptamarkaði og stuðla að tengslamyndun fyrir norska aðila. Dæmi um óbein áhrif eru minni mengun í Noregi vegna stuðnings við græna umbreytingu í tilteknum viðtökuríkjum.

Í skýrslunni er einnig bent á að EES-sjóðurinn sé mikilvægt tæki í norskri utanríkis- og Evrópustefnu. Hann veiti Norðmönnum áhrif og sýnileika í viðtökuríkjunum og aðgang að vettvangi til að ræða lykilmál tvíhliða við viðtökuríkin og við Evrópusambandið.

Árið 2020 var unnin íslensk skýrsla um Uppbyggingarsjóð EES og áskoranir og tækifæri íslenskra aðila á sviði nýsköpunar, rannsókna, menntunar, menningar, félagslegrar þátttöku og endurnýjanlegrar orku.

Eins og áður segir eiga sér nú stað viðræður um framlag EES EFTA-ríkjanna um annað styrkjatímabil og standa þær viðræður enn yfir.

Tillaga um takmörkun kolefnislosunar frá stórum atvinnubifreiðum

Framkvæmdastjórnin kynnti þann 14. febrúar sl. nýja tillögu að reglugerð um takmörkun kolefnislosunar frá stórum atvinnubifreiðum. Tillagan gengur ekki eins langt við að draga úr kolefnislosun og lagt er til fyrir fólksbifreiðar og léttar atvinnubifreiðar, lagt er til að dregið sé úr kolefnislosun sem svarar um 90% frá árinu 2040. Losun frá stórum atvinnubifreiðum nemur sem svarar 6% af heildarkolefnislosun sambandsins. Núgildandi losunarstaðlar miða við að dregið sé úr kolefnislosun sem svarar 15% fyrir 2025 og 30% fyrir 2030. Með nýju tillögunni er lagt til að miða við 45% samdrátt í kolefnislosun frá 2030 og 65% samdrátt fyrir 2035 og loks 90% samdrátt frá 2040. Í áætlunum framkvæmdastjórnarinnar er miðað við að allir nýjir almenningsvagnar verði kolefnislausir frá 2030. Gildissvið tillögunnar er einnig útvíkkað og nær nú auk flutningabifreiða til almenningsvagna, langferðabifreiða og sendiferðabifreiða.

Tillagan nær hins vegar ekki til sorphirðubifreiða, landbúnaðartækja, neyðarbifreiða og bifreiða í notkun varnarliða.

Samhliða birtingunni var auglýst eftir ábendingum og athugasemdum við áhrifamat gerðarinnar.

Samráð um reikniaðferðir við mat á kolefnislosun sendiferðabifreiða

Framkvæmdastjórnin hefur auglýst eftir umsögnum um reikniaðferðir við mat á og eftirliti með kolefnislosun sendiferðabifreiða.

Umsagnafrestur er til 13. mars nk.

Samráð um áhrifamat á tilskipun um öryggi fiskiskipa

Framkvæmdastjórnin undirbýr áhrifamat á tilskipun 97/70 um öryggi fiskiskipa. Tilskipunin innleiðir svonefnda Torremolinos samþykkt um þetta efni sem gerð var á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, en Ísland tók virkan þátt í undirbúningi þeirrar samþykktar.

Miðað er við að áhrifamatið gefi nákvæma mynd af innleiðingu tilskipunarinnar og eftirfylgni í aðildarríkjunum. Þá verði áhrifamatið nýtt til að endurmeta öryggi fiskiskipa í ljósi nýlegra tækniframfara og hvort útvíkka skuli gildissvið tilskipunarinnar þannig að hún nái yfir minni fiskiskip jafnframt.

Unnt er að senda inn umsagnir vegna málsins til 16. mars nk.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta