Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 291/20111 - Úrskurður

Fimmtudaginn 26. apríl  2012

 

 

 

291/2011

 

 

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

 

Með kæru, dags. 27. júlí 2011, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða kæranda barnalífeyri frá X.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. X 2002, móttekinni þann X 2002 af Tryggingastofnun ríkisins, sótti kærandi um greiðslu barnalífeyris með syni sínum fæddum á árinu X. Sú umsókn var ekki afgreidd af stofnuninni. Með annarri umsókn, dags. 20. apríl 2011, sótti kærandi um greiðslu barnalífeyris með yngri syni sínum fæddum á árinu X. Í þeirri umsókn fór kærandi fram á útskýringar á því hvers vegna hann hafi ekki fengið greiddan barnalífeyri með eldri syni sínum og fór hann fram á afturvirkar greiðslur frá X 2002. Með bréfi, dags. 24. maí 2011, samþykkti stofnunin að greiða kæranda barnalífeyri frá 1. apríl 2007 með eldri syni kæranda.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 

„Þegar ég fór að sækja um barnalífeyri með [...] syni mínum; B, kom í ljós að ég hefði aldrei móttekið barnalífeyri fyrir elsta son minn. Hann var þá X ára. Þetta kom mér mjög á óvart, því ég hafði sótt um barnalífeyri með honum frá byrjun. Eitthvað virðist hafa misfarist í kerfinu, því þetta fór ekki í gegn. Ég ákvað að sjálfsögðu að sækja um að fá barnalífeyrinn greiddan tilbaka. Þann 24. maí 2011, kom úrskurður um að barnalífeyrir fyrir C, yrði greiddur frá 1. apríl 2007.

 

Ég hef ákveðið að kæra þennan úrskurð, þar sem uppá vantar 5 ár, þ.e.a.s. frá X 2002 – 1. apríl 2007.

 

Ég hef rétt á því að fá greiddan barnalífeyri með börnum mínum og þar sem ég sótti um þetta á sínum tíma hlýt ég að eiga rétt á að fá greitt til ársins 2002. “

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 28. júlí 2011. Í greinargerð stofnunarinnar, dags. 23. ágúst 2011, segir:

 

„Kærð er afgreiðsla barnalífeyris aftur í tímann. 

 

Í kæru segir : „Þegar ég fór að sækja um barnalífeyri með [...] syni mínum [...] kom í ljós að ég hefði aldrei móttekið barnalífeyri fyrir elsta son minn. [...] Þetta kom mér mjög á óvart, því ég hafði sótt um barnalífeyri með honum frá byrjun.“ Þá segir að lokum : „Ég hef rétt á því að fá greiddan barnalífeyri með börnunum mínum og þar sem ég sótti um þetta á sínum tíma hlýt ég að eiga rétt á að fá greitt til ársins 2002.“

 

Kærandi hefur uppfyllt læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslu lífeyris frá árinu X og hefur notið greiðslna frá Tryggingastofnun síðan. Kærandi sótti um greiðslur barnalífeyris með syni sínum fæddum X, þann X [2002]. Ljóst er að umsókn kæranda var ekki afgreidd og fékk því kærandi ekki greiddan barnalífeyri eins og hann sótti um og átti rétt á en gerði þó ekki athugasemdir við.

 

Þann 20. apríl 2011 sótti kærandi um barnalífeyri með [...] syni sínum og óskaði þess ennfremur að skoðað væri „af hverju ég fæ ekki barnalífeyri með C frá X er ég varð öryrki.“ Umsókn kæranda var afgreidd þann X sl. frá 1. apríl 2007 í samræmi við fyrningarreglur.

 

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007, með síðari breytingum, er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Samsvarandi ákvæði var að finna í 1. mgr. 14. gr. eldri almannatryggingalaga nr. 117/1993.

 

Kærandi telur að hann eigi rétt til greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann en þau fjögur ár sem hann fékk greitt þar sem hann hafði sótt um greiðslurnar á árinu 2002. Tryggingastofnun hefur viðurkennt að vegna mistaka voru kæranda ekki greiddur barnalífeyrir vegna umrædds barns þegar hann sótti um það. Ástæða þess er óljós. Engar athugasemdir bárust frá kæranda fyrr en 9 árum eftir að hann sótti um barnalífeyri. Þess má geta að fram að árinu 2007 var öllum bótaþegum sendir mánaðarlegir greiðsluseðlar sem sýndu mánaðarlegar greiðslur. Er því augljóst

að kærandi hefði vel getað tekið eftir því strax hvort hann hefði fengið um ræddar greiðslur eða ekki. Tryggingastofnun hefur samþykkt að rétt sé að greiða barnalífeyrinn 4 ár aftur í tímann frá því að upp komst um þessi mistök. Skv. 1. mgr. 28. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 gilda eldri fyrningarlög um kröfur sem stofnuðust fyrir gildistöku þeirra laga, þ.e. fyrir 1. janúar 2008. Styðst Tryggingastofnun því í máli þessu við 2. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 sem kveður á um 4 ára fyrningarfrest krafna sem þessara.

 

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.“

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 19. september 2011 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða kæranda barnalífeyri frá 1. apríl 2007. Kærandi fer fram á greiðslur frá X 2002.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru greinir kærandi frá því að hann hafi sótt um barnalífeyri vegna eldri sonar síns á árinu 2002. Þegar hann hafi síðan sótt um barnalífeyri vegna yngri sonar síns á árinu 2011 hafi komið í ljós að greiðslur vegna eldri sonar hans hafi aldrei gengið í gegn. 

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því að kærandi hafi sótt um greiðslur barnalífeyris með eldri syni sínum þann X 2002. Ljóst sé hins vegar að kærandi hafi ekki fengið greiddan barnalífeyri frá stofnuninni en hann hafi þó ekki gert athugasemdir við það fyrr en níu árum síðar. Þá er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda gildi eldri fyrningarlög um kröfur sem hafi stofnast fyrir gildistöku þeirra laga, þ.e. fyrir 1. janúar 2008. Stofnunin hafi því stuðst við 2. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 sem kveði á um fjögurra ára fyrningarfrest og samþykkt greiðslur afturvirkt um fjögur ár frá 1. apríl 2007.

 

Í máli þessu er ekki ágreiningur um hvort skilyrði barnalífeyris hafi verið uppfyllt frá umsókn kæranda á árinu 2002 heldur lýtur hann að því hvort krafa kæranda sé fyrnd vegna ákvæða í fyrningalögum. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til ákvæða gildandi fyrningalaga á þeim tíma sem til kröfunnar stofnaðist. Í gildi voru lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga fellur skuld eða önnur krafa sem ekki hefur verið viðurkennd eða lögsótt innan þeirra tímamarka sem ákveðin eru í lögunum úr gildi fyrir fyrningu. 

 

Í málinu liggur fyrir umsókn kæranda um greiðslu barnalífeyris dagsett X 2002, móttekinni þann X 2002 af Tryggingastofnun, vegna sonar hans sem er fæddur þann X. Samkvæmt gögnum málsins var umsóknin ekki afgreidd við móttöku hennar og hefur stofnunin viðurkennt að þarna hafi verið um mistök af sinni hálfu að ræða í greinargerð sinni.

 

Við úrlausn þessa máls ber að líta til þess að krafa kæranda er endurgjaldskrafa sem lýtur reglum kröfuréttar. Kærandi sótti um greiðslu barnalífeyris með umsókn dagsettri X 2002en sú umsókn var ekki afgreidd af hálfu Tryggingastofnun ríkisins fyrr en með bréfi dagsettu 24. maí 2011. Í millitíðinni hafði kærandi ekki gert athugasemdir við að umsóknin hafi ekki verið afgreidd. Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi ekki tekið eftir því að hann hafi aldrei fengið barnalífeyri greiddan með eldri syni sínum fyrr en hann sótti um barnalífeyri með yngri syni sínum. Í máli þessu er um að ræða kröfu kæranda um greiðslu barnalífeyris vegna tiltekins tímabils. Slík krafa fellur undir ákvæði fyrningalaga nr. 14/1905 um gjaldfallna kröfu um lífeyri sem fyrnist á fjórum árum, sbr. 2. tl. 3. gr. laganna. Fyrningarfrestur telst almennt vera frá þeim degi sem krafa verður gjaldkræf samkvæmt 1. mgr. 5. gr. fyrningalaga. Krafa telst almennt gjaldkræf á eindaga. Hafi ekki verið samið um eindaga telst krafa hafa orðið gjaldkræf þegar kröfuhafi átti þess fyrst kost að setja fram kröfuna og miðast upphaf fyrningafrestsins þá við það tímamark. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi fór fyrst fram á greiðslu barnalífeyris í X 2002. Frá þeim tíma hefur krafa kæranda verið til og hefur hann frá þeim tíma getað krafist barnalífeyris með eldri syni sínum.

 

Eins og áður greinir fyrnast gjaldfallnar kröfur um lífeyri á fjórum árum, sbr. 2. tl. 3. gr. fyrningalaga nr. 14/1905. Kærandi sótti um barnalífeyri vegna yngri sonar síns sem er fæddur á árinu X með umsókn dagsettri 20. apríl 2011. Í þeirri umsókn fór kærandi fram á að Tryggingastofnun ríkisins myndi skoða af hvaða ástæðum hann fengi ekki greiddan barnalífeyri með eldri syni sínum […]. Í kjölfarið sendi Tryggingastofnun ríkisins kæranda bréfi, dags. 24. maí 2011, þar sem fallist var á að greiða kæranda barnalífeyri með eldri syni hans frá 1. apríl 2007 í samræmi við ákvæði fyrningalaga.

 

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið hér að framan er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta beri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða kæranda barnalífeyri frá 1. apríl 2007, sbr. 2. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 þar sem kveðið er á um fjögurra ára fyrningarfrest.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða A, barnalífeyri frá 1. apríl 2007, er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

Friðjón Örn Friðjónsson formaður

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta