Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 95/2019 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 95/2019

 

Notkun á sameiginlegu rafmagni og hita.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 29. september 2019, beindi A húsfélag, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B húsfélag, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 13. október 2019, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 26. október 2019, og athugasemdir gagnaðila, dags. 5. nóvember 2019, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 15. janúar 2020.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsin C og D í Reykjavík en húsin eiga sameiginlega bílskúrslengju. Ágreiningur er um notkun gagnaðila á sameiginlegu rafmagni og hita.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða helming af sameiginlegum rafmagnskostnaði við hleðslu bifreiðar eiganda í húsi nr. 23 frá þeim tíma sem hann var keyptur 27. nóvember 2015 til dagsins í dag.
  2. Að viðurkennt verði að eigandi bifreiðarinnar skuli leggi fram staðfestar upplýsingar um hvenær frádráttarmælir hafi verið keyptur og settur upp, dagsetningu og mynd af stöðu mælisins í dag og stöðu kílómetramælis í bifreiðinni sem sýni hve marga kílómetra hann hafi keyrður fram til dagsins í dag. Hann skuli greiða álitsbeiðanda helming af rafmagnskostnaði bifreiðarinnar og senda eftir það mynd af stöðu mælis til álitsbeiðanda annan hvern mánuð frá þeim tíma. Fáist ekki framangreindar upplýsingar sé óskað viðurkenningar á því að álitsbeiðanda sé heimilt að áætla notkunina.
  3. Að viðurkennt verði að formaður gagnaðila, sem sé bæði með kæli- og frystiskáp í bílskúr sínum, sem og aðrir innan gagnaðila sem kunni að vera með kæliskápa, gefi upp hversu lengi og hvers konar kæliskápa þeir hafi verið með og greiði álitsbeiðanda helming áætlaðrar notkunar fram til dagsins í dag og eftir það verði greitt fyrir áætlaða notkun. Gefi gagnaðili ekki upp framangreindar upplýsingar sé óskað viðurkenningar á því að álitsbeiðanda sé heimilt að innheimta kostnað vegna áætlaðrar notkunar á kæli- og frystiskápum fjögur ár aftur í tímann.
  4. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að veita álitsbeiðanda aðgang að tengingu hans í sameiginlegt hitaveitukerfi bílskúra.
  5. Að viðurkennt verði að tenging gagnaðila í sameiginlegt hitakerfi bílskúranna sé ólögleg og að hún skuli aftengd.
  6. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda kostnað vegna viðbótarnotkunar á heitu vatni í samræmi við lýsingar í álitsbeiðni og hafi verið notað til að hita upp plan fyrir utan hús nr. 19-35.

Í álitsbeiðni kemur fram að á aðalfundi álitsbeiðanda 11. júní 2019 hafi verið rætt um rekstur á bílskúrum gagnaðila og skiptingu kostnaðar. Miðað við þau gögn sem álitsbeiðandi hafi undir höndum frá E hafi orðið veruleg aukning, bæði á notkun rafmagns og hita í bílskúrunum. Á fundinum hafi verið ákveðið að óska eftir skýringum gagnaðila og það verið gert með bréfi, dags. 29. júní 2019.

Veruleg aukning hafi orðið á notkun á heitu vatni sem tengist ólöglegri tengingu í hitaveitukerfi bílaskúrana til að hita upp planið fyrir utan raðhús gagnaðila. Hér sé ekki um affallsvatn að ræða heldur aukningu á notkun á heitu vatni. Gerð hafi verið krafa um að fá að sjá þessar tengingar og láta pípulagningamann taka það út og gagnaðila gefinn frestur til 15. júlí 2019. Samkvæmt uppgjörsreikningi fyrir september 2019 frá E sé notkun á heitu vatni 546 m3, en áætluð notkun fyrir ágúst hafi verið 126 m3. Áætlunin fyrir ágúst sé reiknuð út frá heildarnotkun á heitu vatni fyrir árið á undan. Vatnsnotkun hafi því aukist um 420 m3 sem jafngildi 3,33 mánaðarlegri viðbótarnotkun á heitu vatni og kostnaðurinn aukist í hlutfalli við það. Álitsbeiðandi geri þá kröfu að gagnaðili greiði honum þessa viðbótarnotkun sem hafi átt sér stað og þá viðbótarnotkun sem eigi eftir að verða þar til þetta mál sé komið á hreint.

Rafmagnsnotkun bílskúranna hafi aukist verulega árið 2016 frá árunum á undan og hafi aukningin haldist fram til ársins 2019. Meginskýringin á þessu sé sú að einn eigandi hafi keypt F Hybrid 27. nóvember 2015 og hlaðið bílinn nær daglega með sameiginlegu rafmagni bílskúranna. Vegna þessa hafi bréf verið sent gagnaðila 29. júní 2019 og í framhaldi af því hafi honum verið sendur reikningur með kröfu um að hann endurgreiddi álitsbeiðanda hlutdeild hans í kostnaðinum að fjárhæð 74.595 kr. Gagnaðili hafi neitað endurgreiðslu með tölvupósti, sendum 15. júlí 2019. Hann hafi sagt að eigandi bifreiðarinnar hefði keypt rafmagnsmæli og að heildarrafmagnsnotkun hans hafi verið 9.993 kwh í 3 ár og 7 mánuði. Auk þess hafi hann viljað fá afslátt af þessari notkun þar sem hann hafi notað bílskúrinn mjög lítið á þessum tíma. Álitsbeiðandi hafi svarað þessu og neitað að veita afslátt af rekstrarkostnaði bílsins. Auk þess hafi hann viljað fá staðfestingu á því að framangreindur kwh væri réttur þar sem hann sé afar lágur og ótrúverðugur.

Í ljós hafi komið að formaður húsfélagsins hafi bæði verið með frystikistu og ísskáp í bílskúr sínum sem hann hafi aldrei minnst á við álitsbeiðanda og séu tækin rekin af sameiginlegu rafmagni bílskúranna. Álitsbeiðandi hafi tekið þátt í að greiða þennan rafmagnskostnað án vitundar og vilja. Hann hafi því farið fram á upplýsingar um hvort fleiri væru með slík rafmagnstæki, hve lengi þau hefðu verið í notkun og gert kröfu um að fá endurgreidda hlutdeild sína í þessum kostnaði. Gagnaðili hafi engu svarað um þessa kröfu.

Í raun hafi gagnaðili í engu svarað kröfum álitsbeiðanda en í staðinn óskað eftir upplýsingum um innspýtingu í snjóbræðslukerfi hans og farið fram á endurgreiðslu að fjárhæð 26.658 kr. fyrir það að láta pípara skipta um innspýtingarloka og setja upp rennslismæli. Álitsbeiðandi hafi svarað þessu með bréfi, dags. 31. júlí 2019. Þar komi fram að innspýtingarlokinn hafi verið lokaður undanfarin ár og ekkert heitt vatn runnið í gegnum hann inn á snjóbræðslukerfið. Það hafi því engin þörf verið á því að skipta um lokann þótt píparinn, sem hafi lagt þetta til, hafi talið að lokinn væri á röngum stað. Gagnaðili hafi ákveðið þessa framkvæmd án þess að ræða við álitsbeiðanda. Þrátt fyrir það hafi álitsbeiðandi greitt helming af kostnaði við þessa framkvæmd.

Það hafi verið sameiginlegur rekstur á rafmagni og heitu vatni fyrir bílskúra aðila frá byggingu þeirra. Annað sé ekki sameiginlegt.

Hvorki hafi verið minnst á framangreindar tengingar í hitaveitukerfi bílskúra álitsbeiðanda né beðið um heimild eða vilyrði fyrir þessum framkvæmdum. Hér sé um algerlega óheimilar og ólöglegar framkvæmdir að ræða, sbr. 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga. Þar sem hér sé ekki um affallsvatn af kerfinu að ræða heldur viðbótarvatnsmagn, þá hafi tengingin veruleg áhrif til hækkunar á sameiginlegum rekstrarkostnaði á heitu vatni fyrir álitsbeiðanda sem hann sé ósáttur við.

Í greinargerð gagnaðila segir að lög um fjöleignarhús gildi ekki um ósambyggð raðhús. Þá sé um að ræða tvö aðskilin húsfélög, hvort með sína kennitöluna sem hafi tekið sjálfstæða ákvörðun um að reka saman bílskúra.

Bílskúrarnir séu hluti af eign húseigenda og skráðir sem séreign í skattskýrslu. Þeir hafi ekki verið byggðir á sama tíma heldur hafi hver og einn eigandi séð um byggingu síns bílskúrs og greiði fyrir rekstur hans. Það sé því ekkert í lögunum sem krefjist þess að þetta samstarf húsfélaganna haldi áfram. Í dag sé sameiginlegt kerfi fyrir hita og rafmagn en því megi breyta eða slíta því fyrirkomulagi með því að leggja út í kostnað sem hlaupi á milljónum.

Á framangreindum forsendum eigi erindið ekki heima hjá kærunefnd húsamála og því sé óskað eftir frávísun.

Í raun snúist ágreiningur málsins um tvö mál, hita og rafmagn í bílskúrnum. Gagnaðili hafi boðið álitsbeiðanda að hittast og ræða málin en því hafi verið hafnað. Þess í stað berist sífellt lengri tölvupóstar sem séu ekki gerðir til þess að eiga gott samstarf. Gagnaðili hafi ekki séð ástæðu til að svara öllum þessum tölvupóstum, enda oft um endurtekningar að ræða. Það væri því mun betra að hittast yfir kaffibolla og ræða málin.

Varðandi rafmagnsnotkun þá sé helsta kvörtunin varðandi rafmagnsbifreið sem eigandi í húsi nr. 23 hafi hlaðið með sameiginlegu rafmagni. Þetta mál hafi verið leyst strax við kaup bifreiðarinnar og krefjist því lítillar umræðu hér.

Eigandi bifreiðarinnar hafi keypt frádráttarmæli með bifreiðinni og hafi hann verið notaður alla tíð. Í sömu viku og bifreiðin hafi verið keypt hafi eigandinn tilkynnt nágrönnum að hann myndi greiða allan kostnað sem félli til vegna hans. Þetta hafi verið tilkynnt til álitsbeiðanda og sé eigandinn búinn að greiða fjárhæðina inn á reikning gagnaðila. Eftir greiðsluna hafi því ekki fallið til neinn kostnaður á aðila vegna þessarar bifreiðar.

Réttilega ætti álitsbeiðandi að fá helming greiðslunnar en þar sem uppgjör á milli aðila gefi til kynna að álitsbeiðandi skuldi gagnaðila hafi ekki verið unnt að millifæra þessa fjárhæð sem komi til frádráttar frá skuld þeirra.

Varðandi hita þá sé helsta kvörtunin sú að gagnaðili hafi árið 2018 tekið í gagnið snjóbræðslu í stétt. Hún nýti innspýtingarloka til að dæla heitu vatni frá bílskúrnum inn á bræðsluna – þegar hitinn fari niður fyrir ákveðið stig. Á sama hátt og með rafmagnsbifreiðina þá hafi verið keyptur mælir sem sýni alla notkun sem hafi átt sér stað frá því að snjóbræðslan hafi verið tekin í notkun. Það sé því hægt að sjá nákvæmlega hversu mikið aðilar hafi greitt og meta þann hluta fjárhæðarinnar sem ekki hafi nýst hinu húsfélaginu. Sá hluti sem gagnaðili eigi að greiða komi til frádráttar frá skuld álitsbeiðanda.

Álitsbeiðandi hafi litlar sem engar upplýsingar veitt um snjóbræðslu í stétt á þeirra vegum en úr því þurfi að bæta hið fyrsta. Upplýsingar gagnaðila byggi á rannsóknarvinnu og gögnum sem hann hafi safnað undanfarnar vikur.

Undir lok síðustu aldar hafi álitsbeiðandi tekið í notkun snjóbræðslu án þess að tilkynna gagnaðila um framkvæmdirnar. Þær væru því ólöglegar ef aðilar væru bundnir af lögum nr. 26/1994 sem þeir séu ekki. Gagnaðili, sem hafi spurst fyrir um snjóbræðsluna, hafi fengið þau svör að það væri verið að nýta affallsvatn frá bílskúrum til að hita stéttina sem væri ókeypis.

Á fyrstu mánuðum hafi þó komið í ljós að affallsvatnið veitti ekki nægan hita í snjóbræðsluna og því hafi álitsbeiðandi sett upp svokallaðan innspýtingarloka. Þetta hafi verið gert án samráðs við gagnaðila og verið haldið algjörlega leyndu. Á síðustu árum hafi gagnaðili farið að spyrja út í hvort slíkur loki væri til staðar og því ítrekað verið svarað neitandi. Eftir smá eftirgrennslan hafi fulltrúi gagnaðila komist að því að slíkur loki væri og hefði verið hluti af snjóbræðslu þeirra, nánast frá upphafi.

Innspýtingarloki þeirra hafi lengst af verið stilltur þannig að ef hitinn færi niður fyrir 10 gráður þá hleypti lokinn heitu vatni inn á snjóbræðsluna. Þetta hafi aukið kostnaðinn við heitt vatn töluvert og frá því að framkvæmdin hafi átt sér stað hafi gagnaðili greitt helming í kostnaði við snjóbræðslu álitsbeiðanda. Þetta hafi gagnaðili greitt án vitneskju um að verið væri að hleypa heitu vatni inn á kerfið þeirra.

Fyrir nokkrum árum hafi skyndilega orðið gríðarleg hækkun á reikningi fyrir hita í bílskúrunum. Þá hafi gagnaðila verið tjáð að þetta ætti sér eðlilegar skýringar, enda hafi hann ekki vitað af lokanum. Í dag hafi gagnaðili upplýsingar um að það hafi verið bilun í innspýtingarloka þeirra sem hafi valdið þessari miklu hækkun. Álitsbeiðandi hafi greitt reikninginn og krafið gagnaðila um helminginn sem hann hafi greitt.

Eftir þessa skyndilegu hækkun hafi verið gerðar einhverjar lagfæringar á innspýtingarlokanum og samkvæmt upplýsingum gagnaðila hafi hann til dæmis verið stilltur þannig að hann dældi aðeins inn vatni þegar hitinn færi niður fyrir 3° í stað 10° sem hafi sparað einhverja fjármuni.

Mjög nýlega hafi álitsbeiðandi loks viðurkennt að slíkur innspýtingarloki hefði verið virkur en að slökkt hefði verið á honum nýlega og byrjað að nýta affallsvatn eingöngu. Það affallsvatn sé reyndar orðið mun heitara þar sem innspýtingarloki sé að hita það upp fyrir stétt hins húsfélagsins. Það verði því að gera ráð fyrir að hitt húsfélagið greiði einhvern kostnað við innspýtingu þeirra.

Einfalt sé að reikna út þá fjárhæð sem komi til frádráttar frá skuld hins húsfélagsins, enda hafi verið settir upp mælar þegar notkunin hafi byrjað, bæði fyrir rafmagnsbifreiðina og snjóbræðsluna. Það sé örlítið flóknara að reikna út hvað álitsbeiðandi skuldi gagnaðila á móti. Hann sé þó með bráðabirgðaútreikninga sem gefi til kynna að skuld álitsbeiðanda sé töluverð.

Samkvæmt upplýsingum frá F sé hægt að skoða notkun á heitu vatni og rafmagni frá árinu 1980 til dagsins í dag. Bílskúrarnir hafi margir verið byggðir á tímabilinu 1981-1984. Til þess að nálgast þessar upplýsingar þurfi að fara inn á “Mínar síðurˮ hjá F og þar birtist línurit sem sýni þróunina frá upphafi til enda. Gagnaðili hafi ekki aðgang að þessum upplýsingum en óski hér með eftir þeim hið fyrsta. Þess sé krafist að álitsbeiðandi fari inn á “Mínar síðurˮ og sendi gagnaðila yfirlit yfir heitt vatn og rafmagn eins langt aftur og það nái. Þær upplýsingar muni væntanlega gefa til kynna hvenær snjóbræðsla þeirra hafi byrjað og hvenær hún hafi hætt. Enn fremur óski gagnaðili eftir upplýsingum um hvenær framkvæmdir hafi byrjað við snjóbræðslu álitsbeiðanda, hvenær innspýtingarlokinn hafi verið tekinn í notkun og hvenær notkun hans hafi verið hætt.

Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að öll raðhúsin reki saman 18 bílskúra sem séu allir samtengdir. Samreksturinn nái til hita og rafmagns. Það sé ekkert bil á milli bílskúranna. Þá vísar álitsbeiðandi til 2. mgr. 3. gr. fjöleignarhúsalaga og hafnar því alfarið að málinu verði vísað frá.

Rafmagnsbifreiðin sé enn í hleðslu og álitsbeiðandi hafi nú í tæplega fjögur ár greitt og haldi áfram að greiða helming í rekstri bifreiðarinnar þar sem allur hita- og rafmagnskostnaður sé fyrst greiddur af álitsbeiðanda og krafa send til gagnaðila sem greiði helming reikningsins. Gagnaðili tönglist á því að eigandi bifreiðarinnar hafi keypt einfaldan rafmagnsfrádráttarmæli þegar hann hafi keypt bifreiðina. Nú hafi komið í ljós að eigandinn hafi greitt gagnaðila fyrir rafmagnsnotkun sína og segi að eftir greiðsluna hafi enginn kostnaður fallið á aðila málsins. Álitsbeiðandi hafi engar greiðslur fengið varðandi orkunotkun bifreiðarinnar síðastliðin fjögur ár eða haldbærar upplýsingar um orkunotkun bifreiðarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um.

Gagnaðili hafi engu svarað um ísskápa og frystikistur sem álitsbeiðandi haldi áfram að greiða fyrir.

Gagnaðili hafi nú í fyrsta skipti viðurkennt að hann hafi tengt leiðslur í hitaveitukerfi bílskúra og notað vatn til að hita upp stétt sem sé í raun planið fyrir utan húsin þeirra. Þetta sé viðbótarvatn sem eigi að hita upp bílskúrana en ekki planið. Hér sé ekki um affallsvatn að ræða. Gagnaðili láti það líta út eins og að það sé aðeins vatn sem fari inn á kerfið gegnum blæðara þegar hiti fari niður fyrir 10 gráður. Hér sé um viðbótarvatn að ræða sem hiti upp planið og auk þess enn meira vatn fari hitinn niður fyrir 10 gráður. Þetta hafi verið gert án vitundar og samþykkis álitsbeiðanda. Gagnaðili segist ekki hafa upplýsingar um hversu mikil þessi notkun sé.

Afsökun gagnaðila sé sú að álitsbeiðandi skuldi honum fjárhæð sem eigi að hafa myndast fyrir 20-30 árum vegna snjóbræðslukerfis og blæðingarloka. Snjóbræðslukerfi álitsbeiðanda sé affallsvatn, þ.e. vatn sem búið sé að nota til að hita upp alla bílskúrana og fari síðan út úr bílskúrunum og inn í snjóbræðslukerfið. Blæðingarlokinn hafi verið lokaður í mörg ár þannig að ekkert vatn fari í gegnum hann. Álitsbeiðandi hafi beðið gagnaðila að senda bréf sem sýni að kvartað hafi verið undan snjóbræðslunni á sínum tíma, en hann engu svarað. Í staðinn hafi hann komið með ímyndaða skuld sem  hann viðurkennir að hann viti ekki hver sé eða hvenær hún hafi myndast. Hann ímyndi sér að hún hljóti að hafa myndast af rennsli gegnum blæðara án þess að hafa nein gögn eða upplýsingar þar um og vilji að álitsbeiðandi fari í 30-35 ára gögn og rannsóknarvinnu til að reyna að renna stoðum undir þessa kenningu. Tími til þess að kvarta undan snjóbræðslukerfi og blæðingarloka álitsbeiðanda sé löngu liðinn og fyrndur og því óviðkomandi þessari álitsbeiðni.

Í athugasemdum gagnaðila segir að hann eigi fullan lögvarðan rétt á því að sjá yfirlit sem standi að baki þeim greiðslum sem hann hafi innt af hendi til húsfélagsins samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008.

Gagnaðili geti ekki greitt fjármuni til aðila sem neiti að afhenda upplýsingar sem hafi staðið að baki þeim greiðslum. 

Gagnaðili viti hver kostnaður við frystikistu og kæliskáp sé yfir árið, en það séu samtals um 19 krónur á mánuði fyrir hvert hús sem sé ekki upphæð sem teljist ósanngjörn notkun.

Gagnaðili hafi sett mæli á umræddan innspýtingarloka og greiði fyrir alla notkun sína og sé það álitsbeiðanda óviðkomandi.

Með núverandi fyrirkomulagi stjórni álitsbeiðandi upplýsingum um hita og rafmagn bílskúra sem gangi ekki upp eigi gagnaðili að greiða helming kostnaðar. Hann eigi sama rétt á því að skoða gögnin. Þetta fyrirkomulag gangi ekki, sérstaklega í ljósi þess að álitsbeiðandi hafi viðurkennt að hafa ofrukkað gagnaðila fyrir hita, mögulega síðastliðin 30 ár. Gagnaðili geti ekki afhent álitsbeiðanda frekari fjármuni fyrr en hann fái að sjá þau gögn sem hann hafi óskað eftir og hafni því alfarið kröfu hans. Gagnaðili muni geymslugreiða þær upphæðir sem komi til greiðslu og nýta þá fjármuni til að greiða fyrir skuld álitsbeiðanda þegar uppgjör aðila sé klárt.

III. Forsendur

Í 2. mgr. 3. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að þótt sambyggð eða samtengd hús teljist tvö sjálfstæð hús eða fleiri samkvæmt 1. mgr. þá gildi ákvæði laganna eftir því sem við geti átt um þau atriði og málefni sem sameiginleg séu, svo sem lóð sé hún sameiginleg að öllu leyti eða nokkru og um útlit og heildarsvip, sé því að skipta. Sama gildi einnig, sé því að skipta, um sameiginleg málefni sjálfstæðra ótengdra fjöleignarhúsa og/eða annars konar húsa.

Í máli þessu er deilt um rekstur átján sambyggðra bílskúra sem tilheyra eigendum sex ósambyggðra raðhúsa en þrjár íbúðir eru í hverju raðhúsi. Bílskúrarnir tengjast ekki neinu raðhúsanna og standa á tveimur lóðum.

Að því er ætla má af málatilbúnaði hafa eigendur raðhúsanna rekið húsfélag, annars vegar fyrir húsin nr. 20-36 sem hér kallast álitsbeiðandi og standa þau hús á sameiginlegri lóð og hins vegar fyrir húsin nr. 19-35 sem telst gagnaðili í máli þessu og standa þau einnig á sérlóð. Í lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, er ekki gert ráð fyrir slíku fyrirkomulagi.

Ekkert húsfélag er starfandi fyrir bílskúrana. Samkvæmt 56. gr. laga um fjöleignarhús eru húsfélög til í öllum fjöleignarhúsum í krafti ákvæða laganna og þarf ekki að stofna þau sérstaklega eða formlega. Þar sem bílskúrsbyggingin telst eitt hús í skilningi laganna væri eðlilegra og hagkvæmara að þar starfaði húsfélag og skipuð stjórn þess sæi um varðveislu, viðhald, endurbætur og rekstur sameignarinnar í stað þess fyrirkomulags sem nú er viðhaft. 

Eins og mál þetta liggur fyrir kærunefnd er ljóst að einstakir eigendur bílskúranna hafa ekki verið boðaðir sameiginlega til húsfundar til að taka fyrir málefni sameignarinnar eins og til dæmis þau atriði sem hér er um deilt. Hins vegar hefur málið verið í höndum húsfélaganna tveggja hvort í sínu lagi. Að áliti kærunefndar hafa húsfélögin sem slík ekki vald til að fara þannig með sameiginleg málefni eigenda bílskúranna, enda er það í höndum eigenda þeirra.

Að mati kærunefndar ber því að vísa málinu frá kærunefnd á grundvelli aðildarskorts.

IV. Niðurstaða

Málinu er vísað frá kærunefnd.

 

Reykjavík, 15. janúar 2020

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta