Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2023

Helga Hauksdóttir afhendir framkvæmdastjóra Alþjóðakjarnorkumálastofnunar trúnaðarbréf sitt

Helga Hauksdóttir afhendir Rafael Mariano Grossi, framkvæmdastjóra Alþjóðakjarnorkumálastofnunar, fulltrúabréf sitt - mynd

Helga Hauksdóttir, nýr fastafulltrúi Íslands í Vínarborg, afhenti Rafael Mariano Grossi framkvæmdastjóra Alþjóðakjarnorkumálastofnunar (IAEA) fulltrúabréf sitt í dag og átti af því tilefni með honum góðan fund.

Öryggi kjarnorkuvera í Úkraínu var meðal umræðuefna en stofnunin sinnir mikilvægri eftirlits- og stuðningsvinnu við þau fimm kjarnorkuver sem eru í landinu, ekki síst Zaporizhzhia kjarnorkuverið sem er það stærsta í Evrópu og er um þessar mundir undir yfirráði hersveita Rússlands.

Ræddu þau einkum starf stofnunarinnar á sviði umhverfismála sem og framkvæmd eftirlits með kjarnorkuáætlunum ríkja Mið-Austurlanda og Norður-Kóreu, sem eru ofarlega á dagskrá stofnunarinnar.

IAEA var stofnuð árið 1957 sem sjálfstæð alþjóðastofnun til að stuðla að friðsamlegri nýtingu kjarnorku. Markmið stofnunarinnar er að auka öryggi og eftirlit með nýtingu kjarnorku og geislavirkra efna og tryggja að kjarnefni séu ekki notuð til vopnaframleiðslu, meðal annars með gerð, þróun og eftirfylgni lagalega bindandi alþjóðasamninga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta